Varnir gegn mengun frá fiskeldi
Mánudaginn 16. október 1989


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Forseti. Ég held satt að segja að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi vísvitandi verið að reyna að snúa út úr því sem ég sagði. Það hefur ella farið mikið fram hjá honum að ég hóf mál mitt með því að þakka honum fyrir flutning tillögunnar, lagði áherslu á að hér væri merkt mál og þarft á ferð. Þegar ég sagði að þetta væri kannski ekki það brýnasta í augnablikinu, þá átti ég við það að ef fiskeldisfyrirtækin hætta nú öll starfsemi vegna þess hvernig fjármálastaðan er, þá minnkar mengunin. Og ég hygg að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson viti það mikið um mengun að hann geri sér grein fyrir því að mengunin hverfur ef fyrirtækin stöðvast og hætta starfsemi. Það var kannski það sem ég fyrst og fremst átti við.
    Menn mega heldur ekki gera of mikið úr stöðu mála eins og ekkert hafi verið gert á þessu sviði. Hvert einasta fiskeldisfyrirtæki sem starfar þarf sérstakt starfsleyfi. Starfsleyfið fer fyrir heilbrigðisnefnd í viðkomandi héraði og um þetta gilda strangar reglur og er talsvert eftirlit líka. Ég held því að þingmaðurinn hafi farið of mörgum orðum um einhverja skoðun sem hann gerði mér upp í þessu sambandi og hafi ekki viljað skilja það sem ég sagði hér í upphafi.
    Ég vil aðeins segja það að lokum vegna þess hve tíminn er takmarkaður að við horfum fram til þess nú að þorskveiðar við Ísland verða að minnka úr kannski 330--340 þús. tonnum í 250--300 þús. tonn, að þorskveiðar við Kanada verða að minnka úr 700--800 þús. tonnum í 200--300 þús. tonn, að þorskveiðar í Barentshafi minnka úr milljón tonnum í kannski 300--400 þús. tonn, að ýsuveiðar í Norðursjó minnka úr 185 þús. tonnum í 80 þús. tonn svo að vitnað sé nú í bréf hv. þm. Halldórs Blöndals. Það bendir okkur enn á það að fiskeldi hlýtur að verða framtíðargrein. Og þó að tímabundnir erfiðleikar séu í laxeldi vegna lækkunar á markaðsverði, þá verða menn líka að gera sér grein fyrir því að heildarneyslan á laxi er um 900 þús. til milljón tonn á ári. Þar af eru 700 þús. tonn veiðar á Kyrrahafslaxi og veiðarnar sveiflast til og frá þannig að líklegt er og Norðmenn spá því að þessi grein muni aftur eiga sinn gullaldartíma eftir 1--2 ár. Ég held þess vegna að það sé afar mikilvægt --- við höfum horft á verðfall á blokk og rækju og ýmsu öðru slíku --- að menn geri sér grein fyrir því að slíkt er tímabundið og það þarf að taka á þeim erfiðleikum sem nú liggja fyrir. Það er alveg ljóst að þeir menn, sem lögðu af stað með það að gera verðmæti úr þessum seiðum, sem hér voru vorið 1988 gerð að umræðuefni, þeir eru flestir komnir í mikla úlfakreppu vegna þess að ekki hefur gengið eftir það sem menn gerðu ráð fyrir.
    Ég vil svo að lokum enn á ný ítreka það að mengun getur orðið talsverð frá fiskeldi. Hún er auðvitað mjög mismunandi eftir því hvort um er að ræða eldi inni í landi við vatnasvæði sem viðkvæm eru eða hvort um er að ræða eldi fyrir opnu Atlantshafi þar sem uppblöndun er gríðarlega mikil.

Það hefði líka verið ástæða til að rekja kannski frekar það sem flm. kallar erfðamengun og margt mætti um segja og sumt hefur verið talað um kannski meira af tilfinningahita heldur en af staðreyndum þó að aðgæslu sé þörf á öllum þessum sviðum.
    Ég lýsi yfir stuðningi við þessa þáltill. Ég held að þetta sé þarft mál. Ég held að við eigum að vinna að framgangi þess. En það er óþarfi fyrir flm. að vera með slíka viðkvæmni þó að önnur málefni greinarinnar séu rædd í leiðinni.