Varnir gegn mengun frá fiskeldi
Mánudaginn 16. október 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég tek hér til máls einungis til að taka undir hvert orð af því sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hér hefur sagt. Auðvitað er einhver mengun í sambandi við fiskeldi eins og raunar allan búskap. Það er hægt að skapa mengun hvar sem er. Einhver góður læknir sagði einu sinni í mín eyru: Ef það á að útrýma mengun algjörlega, þá verður að byrja á að útrýma mannkyninu.
    Auðvitað erum við öll á verði gagnvart mengun af fiskirækt rétt eins og öðrum landbúnaði. Við vitum það að t.d. of mikil gjöf af útlendum áburði eins og það var kallað hér í gamla daga getur auðvitað mengað jarðveg og vatnsföll o.s.frv. Þetta þarf allt að gera með mikilli gætni. Ég held að enginn fiskiræktarmaður sé til, ekki alvörufiskiræktarmaður, sem ekki gerir sér einmitt grein fyrir því hve nauðsynlegt það er fiskeldisins sjálfs vegna að öll gætni sé viðhöfð í þessu efni. Við þurfum ekkert um það að deila og ég er ekki að álasa flm. tillögunnar, hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, fyrir að flytja hana. Þvert á móti held ég að það sé mjög gott. Hitt held ég að sé alrangt hjá honum að það sé lítið af því gert að fylgjast með starfrækslu stöðvanna. Eins og kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns þarf rekstrarleyfi og það er mikið gert til þess að hafa áhrif á hvar þessar stöðvar eru reistar, hvernig rekstri þeirra er hagað o.s.frv. og mér er ekki kunngt um að neitt alvarlegt mengunarslys hafi hingað til orðið.
    Hitt er svo aftur rétt sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sagði að fiskeldi hefur átt miklu örðugra um vik en menn vonuðu að yrði og ber þar tvennt til. Annars vegar það mikla verðfall sem orðið hefur á laxi, sem er nú aðalframleiðsluvaran í fiskeldinu, en er tímabundið alveg áreiðanlega, sem hefur valdið því að menn hafa ekki getað selt fyrir sömu verð og áður. Meðalverð núna hefur farið niður undir 6 dollara, sem var áður kannski 10, 11 og 12, þannig að menn sjá hve mikið áfall það eitt er.
    Hitt er svo líka rétt sem kom fram í ræðu þingmannsins að allt of margir fóru út í seiðaeldi af því að það var von á mjög góðum markaði í Noregi, en fyrir hann var lokað í einu vetfangi og það var auðvitað gífurlegt áfall fyrir þá sem sérstaklega einbeittu sér að seiðaeldi. Þeir sem aftur á móti fóru í fiskeldi til slátrunar sluppu betur og komast sæmilega vel af.
    En aðalatriðið er það að stjórnvöld hafa í einu og öllu svikið öll þau loforð sem fiskiræktarmönnum voru gefin fyrir mörgum, mörgum árum og þeir hafa sífellt verið dregnir á asnaeyrunum. Ég hef sagt úr þessum ræðustól og mörgum ræðustólum öðrum: Fiskeldi á aldrei að styrkja. Þá fer það á hausinn. En fiskeldi á að fá að búa við eitthvað í líkingu við það sama og aðrir atvinnuvegir njóta, t.d. í afurðalánum þar sem þau eru yfirleitt 75% í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Það hefur aldrei gerst neitt í þá áttina í fiskirækt. Það hefur verið talað og talað, gefin út fyrirmæli og tilmæli. Ég veit að hæstv. ráðherrarnir

margir hverjir, forsrh. sjálfur t.d. hefur verið að berjast við að koma einhverju af því fram sem bæði hann og aðrir hafa lofað þeim sem fóru út í þennan rekstur en ekki bara komist upp með það. Ég veit ekki hvers vegna, en staðreyndin er nákvæmlega sú sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson lýsti. Það hefur allt verið svikið í bak og fyrir. Annars vegar er þessi rekstur kominn það vel á legg að hann gæti jafnvel þolað 6 dollara verð. Og það eru raunar fyrirtæki sem þola þau verð, alla vega tímabundið, af því að þau voru komin vel á legg. En þetta er svo ung atvinnugrein að þeir sem kannski byrjuðu fyrir 10 árum lifa það af en þeir sem byrjuðu fyrir 4--5 árum hafa náttúrlega nánast engar tekjur fengið og ekki heldur þau lán sem þeim var lofað.
    Ég endurtek: Fiskirækt á ekki að styrkja. Aldrei. Þá verður hún byrði á þjóðinni. En hún hefur alla burði til þess að geta styrkt þjóðfélagið undir eðlilegum kringumstæðum, bara ef hún fær að njóta jafnréttis við aðrar atvinnugreinar.