Varnir gegn mengun frá fiskeldi
Mánudaginn 16. október 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég get nú ekki orða bundist eftir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um þessa þáltill. en eins og allir vita hefur núv. ríkisstjórn ákveðið að það skuli stofna umhverfismálaráðuneyti. Þess vegna kemur manni á óvart að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson skuli leggja hér fram tillögu um varnir gegn mengun í fiskeldi sem hlýtur að segja það að það er engin samstaða og ekkert samráð í þessari ríkisstjórn. Og það væri fróðlegt að fá að vita hvað hæstv. ríkisstjórn og hv. þm. hafa hugsað sér að gera í þessu og þá sérstaklega hæstv. hagstofuráðherra sem sagt er muni verða hæstv. umhverfismálaráðherra þegar ríkisstjórnin hefur komið sér saman um lög um umhverfismál. Það er því mjög furðulegt að sjá þetta plagg um þessi mál sem hlýtur að hafa verið rætt í hæstv. ríkisstjórn og það væri gaman að fá að vita hér og nú hvort hæstv. ráðherrar hafa ekkert rætt um þetta eða hvort það er algert sambandsleysi í þessari hæstv. ríkisstjórn.
    Ég verð að segja að miðað við núverandi málefnasamning þessarar ríkisstjórnar, þá vekur þetta mál furðu. Ég verð einnig að segja það eins og er að ég teldi rétt að hæstv. ráðherrar, hæstv. forsrh. og hæstv. hagstofuráðherra tjái sig um málið því það væri gaman að fá að vita að þessi málaflokkur sem varðar fiskeldi á kannski ekki heima í hinu nýja umhverfismálaráðuneyti. Og svo er hitt að það má vel vera að þeir telji að erfðamengun, sem sumir kalla kynblöndun eða kynbætur í öðrum bæjum, eigi ekki heima í þeim málaflokki. En það væri gaman að heyra í hæstv. ráðherrum hvort þetta verður ekki tekið undir tilvonandi ráðuneyti þegar fyrir liggja tillögur um umhverfismálaráðuneyti, eins og við höldum að muni verða lagt fram hér á þessu þingi, en það er kannski svo að það verður ekkert af því.