Varnir gegn mengun frá fiskeldi
Mánudaginn 16. október 1989


     Flm. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd vegna þeirra orða sem féllu hér, kannski fyrst af öllu það sem varðar hv. 10. þm. Reykv. Ég hef enga ástæðu til að gagnrýna það að hann viki hér að öðrum þáttum og erfiðleikum í fiskeldi. Ég þakka honum þann stuðning sem fram kom í hans máli við þennan tillöguflutning, svo og hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni. Ég vænti þess að till. verði til þess að það verði tekið með samræmdum hætti á þeim vanda sem hér er við að fást í sambandi við mengunarmál fiskeldis þó að sitthvað hafi verið að gert nú þegar.
    En það var mál síðasta ræðumanns, hv. þm. Hreggviðs Jónssonar, sem var ástæðan fyrir því að ég bað hér um að fá að gera athugasemd. Það er mjög sérkennilegt ef hv. þm. heldur að stofnun umhverfisráðuneytis leysi ein út af fyrir sig allan vandann og það þurfi ekki að setja löggjöf varðandi einstaka þætti sem slíkt ráðuneyti á að fjalla um. Ég held að hv. þm. hljóti að vita betur. Ég veit ekki hvort á að rekja þessar áhyggjur hv. þm. til erfðamengunar eða stökkbreytinga og skiptinga sem orðið hafa hér á Alþingi. Það svona liggur við. En hv. þm. vék einmitt að erfðamengun í sínu máli. Nei, við þurfum sannarlega að sinna umhverfismálum hér á Alþingi varðandi löggjöf og fleira óháð því hvað gerist hjá framkvæmdarvaldinu, þó svo að vonandi sé að þar verði gerð alvara úr því sem fyrirheit er um og verið er að vinna að, að setja á fót umhverfisráðuneyti frá byrjun næsta árs að telja.