Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir umræðu utan dagskrár hér í dag til þess að ræða í nokkrum atriðum ráðstöfun hæstv. ríkisstjórnar á opinberu fé án heimilda Alþingis.
    Frá því Alþingi var slitið sl. vor hafa smám saman verið að koma í ljós ný og ný dæmi þess að fé er ráðstafað úr ríkissjóði eða teknar ákvarðanir af ríkisstjórninni sem hafa í för með sér útgjöld án þess að baki liggi lagaheimildir frá Alþingi. Er stundum engu líkara en hæstv. ríkisstjórn telji sig hafa sjálfdæmi í þessum efnum og þurfi ekki að hirða um að fylgja ákvæðum fjárlaga eða jafnvel laga og reglugerðar um Stjórnarráð Íslands. Þau einstöku atriði sem ég mun víkja að hér síðar í ræðu minni eru sum þess efnis og þau liggja nokkuð í augum uppi. Önnur eru þess efnis að þau þarf að upplýsa og til þess verður að krefjast svara frá einstökum ráðherrum, oftast frá hæstv. fjmrh.
    Ég vil strax taka það fram að við þessa umræðu mun ég ekki hafa frumkvæði að því að ræða ríkisfjármálin almennt. Það er eðlilegt að bíði 1. umr. um fjárlagafrv. Ég mun heldur ekki að þessu sinni taka til ítarlegrar umræðu svokallaðar aukafjárveitingar. Ég vil þó lýsa því sem raunar hefur áður komið fram á opinberum vettvangi að það er skoðun okkar sem sæti eigum í fjvn., a.m.k. þeirra sem sátu í nefndinni á síðasta þingi, að það verklag sem viðgengist hefur í þessum efnum geti ekki staðið áfram.
    Eftir að útgjöld ríkissjóðs höfðu á árinu 1988 farið yfir 8 milljarða fram úr því sem kveðið var á um í fjárlögum fyrir það ár var fjvn. nóg boðið. Á vegum nefndarinnar hefur því starfað undirnefnd í sumar að því verkefni að móta nýjar reglur um framkvæmd fjárlaga. Í þeirri undirnefnd hafa menn ekki skipst í fylkingar eftir pólitískum flokkum né eftir því hverjir eru stuðningsmenn eða andstæðingar núv. ríkisstjórnar. Nefndarmenn hafa vikið slíkum pólitískum flokkadráttum til hliðar og starfað saman undir forustu formanns, hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Þær reglur sem unnið er að því að móta eiga að hafa það markmið að standa vörð um ákvarðanir Alþingis en girða fyrir geðþóttaákvarðanir framkvæmdarvaldsins, svo sem í þeim málum sem ég ræði hér á eftir. Vinnu nefndarinnar að þessu verkefni er ekki lokið og meðan svo er verða vinnugögn ekki rædd hér af minni hálfu. En við gleymum að sjálfsögðu ekki ákvæði 41. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo sem kunnugt er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ekkert gjald má greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.``
    Nú er því spáð að á þessu ári fari útgjöld ríkissjóðs enn 8 milljarða fram úr því sem fjárlög kveða á um. Það er því enn ljósara en áður hvílíkt nauðsynjaverk fjvn. er að vinna og hve brýnt það er að koma í veg fyrir að valdið verði með þessum hætti dregið úr höndum Alþingis til framkvæmdarvaldsins, hæstv. ríkisstjórnar.

    Þó að ég ræði ekki svokallaðar aukafjárveitingar hér öllu meira, þá er þó einn þáttur þess máls sem ég kemst ekki hjá að gera að umtalsefni. Þann 13. júlí sl. afhenti hæstv. fjmrh. fjvn. lista yfir aukafjárveitingar, sem til þess tíma höfðu verið samþykktar á þessu ári, að upphæð liðlega 800 millj. kr. Við þennan lista var í rauninni fátt sérkennilegt miðað við fyrri reynslu utan eitt. Hæstv. fjmrh. óskaði eftir því að með hann væri farið sem trúnaðarmál. Hæstv. fjmrh. telur það sem sagt viðeigandi og eðlilegt að útgjöld úr ríkissjóði, sem hann sjálfur hefur ákveðið ellegar ríkisstjórnin í heild og eru umfram heimildir fjárlaga, séu trúnaðarmál. Spyrja má hvort þetta sé sá hugsunarháttur sem ríki á stjórnarheimilinu að þegar fé er greitt úr ríkissjóði umfram það sem fjárlög heimila, þá sé það nánast einkamál hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnar sem eigi að halda leyndu þangað til og ef stjórnarherrunum þóknast að segja frá því.
    Auðvitað eru hér forkastanleg viðhorf á ferðinni. Viðhorf sem ekki standast. Auðvitað eru allar greiðslur úr ríkissjóði opinbert mál og þegar þær hafa verið ákveðnar er engin leið að fara fram á það að þeim sé haldið leyndum. Allir eiga rétt á að vita hvað gert er við opinbera fjármuni, enda á ráðstöfun opinberra fjármuna að þola dagsins ljós. Ég sé því ástæðu til þess að tilkynna hæstv. fjmrh. það að ég mun ekki hér eftir taka við lista yfir aukafjárveitingar eða aðrar greiðslur úr ríkissjóði sem trúnaðarmáli.
    Í kjölfar kjarasamninga sl. vor ákvað hæstv. ríkisstjórn ýmsar breytingar er varða ríkisfjármál, meðal þeirra voru skattabreytingar. Þá gaf hæstv. ríkisstjórn fyrirheit um lækkun skatta um 500 millj. kr. og því var komið fram með lagabreytingum fyrir þinglok. Þar var um að ræða lækkun vörugjalds, lántökukostnaðar og skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. En samtímis voru aðrir skattar hækkaðir. Hækkun á jöfnunargjaldi var lögfest en það á að gefa aukalega 300 millj. kr. Breyting varð á uppgjörsreglum bensíngjalds og var sú breyting ákveðin með reglugerð en það á að gefa 250 millj. kr. og ákveðið var að breyta uppgjörstímabili launaskatts sem einnig átti að gefa 250 millj. kr. Það hefur þó tæplega komið til framkvæmda enn þá því til þess þarf
lagabreytingu. En það sem er athyglisverðast við þessar skattabreytingar er það að samtímis því sem skattar eru lækkaðir um 500 millj. kr. til þess að greiða fyrir samningum um kaup og kjör á vinnumarkaði, þá eru aðrir skattar hækkaðir um 800 millj. kr. og á þann snilldarlega hátt staðið við loforð við verkalýðshreyfinguna og samtök launamanna.
    Á miðju sumri var frá því sagt að hæstv. ríkisstjórn hefði ákveðið að lækka ríkisútgjöld um 800 millj. kr. og er að þessu vikið í athugasemdum með fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Í fjárlögum eða öðrum lögum er eftir því sem ég best veit engin heimild fyrir hæstv. ríkisstjórn til að skera niður fjárveitingar til fjármagnstilfærslna eða framkvæmda sem Alþingi hefur ákveðið með fjárlögum eða á vegáætlun. Til þess að gera þetta mögulegt þarf þess vegna lög sem

ekki hafa verið afgreidd frá Alþingi. Það er þess vegna í heimildarleysi sem hæstv. ríkisstjórn tilkynnir ákvarðanir sínar um þessi efni. Og það er harla óviðfelldið að á sama tíma sem hæstv. ríkisstjórn er að auka útgjöld ríkissjóðs um marga milljarða með eigin ákvörðunum án atbeina Alþingis þá skuli hún einnig í heimildarleysi tilkynna niðurskurð á útgjöldum til þeirra verklegu framkvæmda og fjármagnstilfærslna sem Alþingi hefur samþykkt. Mér er tjáð að af þessum 800 millj. kr. hafi 500 millj. verið teknar af hinu almenna húsnæðiskerfi. Annað liggur ekki fyrir þótt kvisast hafi að hæstv. samgrh. sé með einhverja tilburði í þá átt að breyta því sem Alþingi hefur ákveðið með afgreiðslu vegáætlunar.
    Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. fjmrh.:
    Hvaða verklegar framkvæmdir og hvaða fjármagnstilfærslur á að skerða um 800 millj. kr. samkvæmt þessum svokölluðu ákvörðunum ríkisstjórnarinnar?
    Í öðru lagi: Telur hæstv. ríkisstjórn að hún geti ráðið þessu upp á sitt eindæmi eða ætlar hún eftir á að leitast við að fá samþykkta lagaheimild?
    Sl. sumar hóf hæstv. fjmrh. allmikla herferð til innheimtu á söluskatti og var síst vanþörf á. Á hinn bóginn leyfi ég mér að spyrja hæstv. fjmrh.:
    Hvaðan koma honum lagaheimildir til þess að mismuna einstökum gjaldendum við greiðslu opinberra gjalda, þannig að sumum fyrirtækjum var hótað lokun eða lokað þegar söluskattur var ekki greiddur á tilsettum tíma en engar innheimtuaðgerðir voru hafnar gegn öðrum sem þó voru í sambærilegum vanskilum en höfðu kannski fjárhag sinn til athugunar hjá opinberum sjóðum?
    Þó kastar tólfunum þegar svo virðist sem einu fyrirtæki hafi verið leyft að greiða söluskattsskuld sína með húseignum. Sé það rétt er í fyrsta lagi um að ræða brot á lagaákvæðum um innheimtu söluskatts, í öðru lagi hafði ríkissjóður enga heimild til þess að taka við þessum húsum eða eignast þau því til þess þarf lög og í þriðja lagi virðist sem ríkissjóður hafi ekkert með þessar húseignir að gera því í fjárlagafrv. er leitað heimildar til þess að selja þessar húseignir sem engin heimild hafði áður verið fengið fyrir að kaupa eða taka við upp í söluskatt.
    Eitt sinn voru vaðmál, tólg ellegar fiskur meðal gjaldmiðla okkar Íslendinga. E.t.v. geta þeir sem nú eiga vaðmálsstranga eða tólgarskjöld fengið að greiða skatta sína til ríkisins með slíkum varningi eða á annan sambærilegan hátt.
    Seint í sumar var frá því skýrt að hæstv. ríkisstjórn hefði ákveðið að setja á fót nýja stofnun, svokallað meðferðarheimili fyrir unga fíkniefnaneytendur, stofnun sem ekki er finnanleg á fjárlögum. Jafnframt var skýrt frá ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um að verja á þessu ári álitlegri fjárhæð til rekstrar slíkrar stofnunar eða 20--30 millj. kr. Enn fremur fór ekki fram hjá neinum að á fullri ferð var undirbúningur að kaupum á húsnæði fyrir þessa stofnun. Allt gerist þetta á sama tíma sem félagasamtök á vegum einkaaðila eru að vinna að undirbúningi að sams

konar verkefni og hafa lagt stórfé í kostnað við að undirbúa það mál, en við þá aðila mun lítt eða ekki hafa verið talað. Nú spyr ég hæstv. ráðherra sem hér eru staddir:
    Telur ríkisstjórnin að hún geti tekið ákvörðun af þessu tagi án þess að heimildir séu í fjárlögum og án þess að leita heimilda Alþingis?
    Allt þetta mál er þannig vaxið að fulltrúar minni hl. í fjvn. hafa að frumkvæði hv. þm. Málmfríðar Sigurðardóttur komið því á framfæri við formann nefndarinnar að við óskum eftir skýrslu um þetta mál í heild.
    Húsakaup virðast mér vera á óskalista núv. hæstv. ríkisstjórnar. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. fjmrh. um aðeins eitt af þessum húsum: Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera við svokallað Hekluhús á Akureyri? Og er það rétt að frá kaupsamningi hafi verið gengið og hvert var þá kaupverðið?
    Fyrir fáum dögum kom út svokölluð starfsmannaskrá ríkisins sem á að sýna fjölda þeirra starfsmanna sem fengu greidd föst mánaðarlaun hjá launaskrifstofu ríkisins í marsmánuði sl. Starfsmannaskráin dregur athyglina að frjálslegri meðferð hæstv. ráðherra á starfsmannaráðningum en samkvæmt starfsmannaskránni starfar fjöldi manna án heimilda hjá ríkiskerfinu eða samtals 382. Athygli vekur t.d. í starfsmannaskránni að þann 1. mars báru átta starfsmenn á heimaskrifstofum utanrrn. starfsheitið sendiherra auk ráðuneytisstjórans og verður þó ekki séð annað en að þeir skipi heimilaðar
stöður. Síðan 1. mars hafa menn utan utanríkisþjónustunnar verið ráðnir til sendiherrastarfa. Því leyfi ég mér nú að spyrja hæstv. utanrrh. eða staðgengil hans:
    Hversu margir starfsmenn utanrrn. á heimaskrifstofum þess bera nú starfsheitið sendiherra?
    Ég leyfi mér einnig að spyrja sama ráðherra eða staðgengil hans:
    Hvaða tilefni er til þess að ráða nú til utanrrn. sérstakan sérfræðing í afvopnunarmálum á sama tíma sem ríkissjóður stendur straum af kostnaði við Öryggismálanefnd sem á að sinna þessu hlutverki fyrir hönd ríkisstjórnarinnar?
    Ég hlýt að spyrja: Á hvaða kjörum á þessi sérfræðingur að starfa? Er hann ráðinn á kjörum aðstoðarmanns ráðherra? Er kannski um dulbúinn aðstoðarmann ráðherra að ræða?
    Á síðustu árum hefur gætt vaxandi tilhneigingar til þess hjá einstökum ráðherrum að sniðganga reglugerð um Stjórnarráð Íslands og ráða fleiri pólitíska aðstoðarmenn til starfa en reglugerðin heimilar. Í 14. gr. reglugerðar við lög um Stjórnarráð Íslands segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ráðherra er heimilt að kveðja sér til aðstoðar, meðan hann gegnir embætti, mann utan ráðuneytisins sem starfi þar sem deildarstjóri, enda hverfi hann úr starfi jafnskjótt sem ráðherra.``
    Ég fullyrði að þessi ákvæði reglugerðarinnar eru nú sniðgengin af einstökum ráðherrum. Hæstv. forsrh. hefur sinn aðstoðarmann svo sem hann hefur fulla

heimild til. Hann hefur einnig nýlega ráðið blaðafulltrúa ríkisstjórnarinnar í stað Magnúsar Torfa Ólafssonar sem að vísu ber starfsheitið ,,skrifstofustjóri`` og eru þá tveir skrifstofustjórar í forsrn. Þá hefur hann einnig ráðið efnahagsráðgjafa sem álitið hefur verið að væri efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar en er nú titlaður efnahagsráðgjafi forsætisráðherra.
    Á sama tíma hefur hæstv. fjmrh. ekki einungis ráðið sér varaformann Alþb. sem aðstoðarráðherra heldur hefur hann einnig ráðið sérstakan pólitískan efnahagsráðgjafa og sérstakan pólitískan blaðafulltrúa. Hér er vitaskuld um ótvírætt brot að ræða á því ákvæði reglugerðar við lög um Stjórnarráð Íslands sem ég vitnaði til áðan og spyrja má hvort það sé stefna hæstv. ríkisstjórnar að hvert ráðuneyti fyrir sig hafi sérstakan efnahagsráðgjafa og hvert ráðuneyti fyrir sig hafi líka sérstakan blaðafulltrúa og að þessir starfsmenn komi til viðbótar hinum pólitísku aðstoðarmönnum ráðherra.
    Enn fremur réði hæstv. fjmrh. nú í sumar sérstakan útsölustjóra ríkisskuldabréfa og ég leyfi mér að spyrja: Er hann á kjörum aðstoðarmanns ráðherra eða er hann á einhverjum öðrum kjörum? Eru þau þá betri eða lakari en launakjör aðstoðarmanns ráðherra? Hæstv. menntmrh. hefur sinn aðstoðarmann en einnig annan starfsmann sem titlaður er skólafultrúi ráðherra. Og ég leyfi mér enn að spyrja: Er sá starfsmaður á ráðningarkjörum aðstoðarmanns ráðherra eða hefur hann önnur kjör? Þar er auðvitað um pólitískan aðstoðarmann að ræða.
    Ég vil taka það fram að ég tel óhjákvæmilegt að krefjast þess að þeim starfsmönnum ráðuneytanna, sem ráðnir hafa verið án heimildar af núverandi hæstv. ráðherrum og með þeim hætti að sjálf reglugerðin um Stjórnarráð Íslands er sniðgengin, verði þegar í stað sagt upp. Því má svo bæta við að annar hinna nýju ráðherra Borgaraflokksins í þessari hæstv. ríkisstjórn hefur fengið lánaðan starfsmann úr ríkiskerfinu sem sérstakan aðstoðarmann sinn til þess að fást við málefni Hagstofu Íslands.
    Það sem tekur þó öllu þessu fram er að í forsrn. er skráður deildarstjóri á launum sem ekki starfar innan veggja ráðuneytisins heldur úti í bæ sem aðstoðarmaður hv. þm. Stefáns Valgeirssonar. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning hef ég ekkert út á þennan einstakling að setja. Ég geri ráð fyrir því að Trausti Þorláksson ræki þau störf vel sem honum eru falin og honum er greitt fyrir.
    Til þess að fyrirbyggja misskilning verð ég líka að taka fram að ég hef ekkert við það að athuga að hv. þm. Stefán Valgeirsson sitji í stjórn eins margra sjóða og hann er kosinn til. En það þarf vitaskuld mikla hugmyndaauðgi til þess að láta sér detta í hug að úr því að þessi hv. þm. varð ekki ráðherra skyldi hann þó fá aðstoðarráðherra.
    Niðurlæging hæstv. forsrh. er á hinn bóginn algjör í þessu máli. Hann samþykkir þessa ráðningu og ber á henni fulla ábyrgð, væntanlega í þeim tilgangi að tryggja fylgi hv. þm. Stefáns Valgeirssonar við þá

ríkisstjórn sem hann veitti og veitir forstöðu. Óskammfeilni hæstv. fjmrh. er einnig ótrúleg. Hann telur það sjálfsagt mál í nafni lýðræðisins að hv. þm. Stefán Valgeirsson hafi aðstoðarmann á launum hjá forsrn. og hann undrast það að hv. þm. Stefán Valgeirsson skuli láta sér nægja að hafa aðeins einn aðstoðarmann. Hæstv. fjmrh. ætti að beita sér fyrir því í samræmi við þessi orð sín að hv. þm. Stefán Valgeirsson fái einnig sérstakan efnahagsráðgjafa og enn fremur sérstakan blaðafulltrúa.
    Í raun og veru er enginn eðlismunur á ráðningu þessa deildarstjóra hjá forsrn. og því ef ritstjóri á dagblaði ellegar fréttastjóri á ljósvakamiðlunum eða hjá Ríkisútvarpinu væri gerður að skrifstofustjóra í forsrn. og þægi laun
sem slíkur í þeim tilgangi að hæstv. ríkisstjórn hefði ævinlega gott veður á þeim fjölmiðli. Hér er vitaskuld um að ræða bæði lögbrot og hneyksli. Ef hv. þm. Stefán Valgeirsson þarf á aðstoðarmanni að halda er engin ástæða til að amast við því. En hv. þm. á auðvitað að greiða laun hans sjálfur ellegar þau samtök sem studdu hann til setu á Alþingi að svo miklu leyti sem styrkur Alþingis hrekkur ekki til.
    Ég tel ekki ástæðu til að rifja upp nýlegar fregnir um meðferð risnu og fríðinda hjá einstökum hæstv. ráðherrum. Ég vil þó taka fram að í slíkum málum má hvorki Alþingi né almenningur í landinu sýna of mikla smámunasemi. Ráðherraembættum verður að fylgja risna og ráðherra verður að geta sýnt tiltekna reisn í móttöku gesta og við önnur slík tækifæri þegar það er við hæfi. Á hinn bóginn verða menn í æðstu stöðum að gæta þess að fara ekki út yfir þau mörk sem meiða siðgæðisvitund fólks. Því miður kemur það stundum fyrir að þeir sem ætla að moka flórinn detta sjálfir í haughúsið.
    Virðulegi forseti. Það sem að framan greinir má draga saman í eftirfarandi atriði:
     1. Spurt er hvort aukafjárveitingar eigi að vera trúnaðarmál.
     2. Loforð ríkisstjórnarinnar um lækkun skatta í kjölfar kjarasamninga voru efnd þannig að skattar voru lækkaðir um 500 millj. kr. en aðrir skattar hækkaðir samtímis um 800 millj.
     3. Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um 800 millj. kr. niðurskurð ríkisútgjalda eru markleysa því að til þess skortir heimildir í lögum.
     4. Spurt er hvort fjmrh. hafi lagaheimildir til þess að mismuna fyrirtækjum við innheimtu opinberra gjalda.
     5. Eftir að söluskattur hefur verið greiddur með húseignum, er þá mögulegt að greiða opinber gjöld með öðrum varningi?
     6. Ríkissjóður tekur við eða kaupir húseignir í heimildarleysi sem óvíst er til hvers á að nota.
     7. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt um að komið verði á fót nýrri stofnun á þessu ári sem engin heimild er fyrir í fjárlögum.
     8. Einstakir ráðherrar raða pólitískum gæðingum sínum á skrifstofur ráðuneytanna þótt með því sé sniðgengin eða brotin reglugerð um Stjórnarráðið.

     9. Ráðning deildarstjóra í forsrn. án starfsskyldu þar en með pólitískan starfsvettvang úti í bæ er í senn lögbrot og hneyksli.
    10. Öll þau atriði sem að framan eru talin snerta á einn eða annan hátt fjármál ríkisins, einkum útgjöld. Þar er ýmist farið á tæpu vaði af hálfu ríkisstjórnarinnar ellegar án allra heimilda í lögum frá Alþingi.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér að framan spurt hæstv. ráðherra nokkurra spurninga sem ég óska svara við. Ég hef jafnframt rætt nokkur þau atriði er varða fjármál ríkisins og ekki er farið með í samræmi við lagaheimildir frá Alþingi. Það er grundvallaratriði lýðræðisskipulagsins að framkvæmdarvaldið starfi í samræmi við heimildir sem löggjafarvaldið hefur veitt. Þetta á ekki hvað síst við um mál er tengjast meðferð opinberra fjármuna. Hæstv. ríkisstjórn verður að sætta sig við það að lúta vilja Alþingis í slíkum málum. Þegar svo frjálslega er gengið á svig við þessi grundvallarsjónarmið eins og ég hef lýst með nokkrum dæmum hér að framan er það skylda okkar alþingismanna að vekja á því athygli, gagnrýna og krefjast úrbóta. Hvaðanæva berast fregnir af því að fólkið í landinu hefur fengið meira en nóg af þessari hæstv. ríkisstjórn. Það hefur orðið vitni að því að hæpin mál gægjast fram úr hverju horni í hýbýlum hennar. Samtímis hefur henni mistekist það verkefni sitt að fara með stjórn landsins. Geri hæstv. ríkisstjórn ekki hreint fyrir sínum dyrum í þeim málum sem ég hef hér gert að umtalsefni hefur Alþingi fengið nýtt tilefni til þess að krefjast þess að hún fari frá. Til þess þarf atbeina bæði stjórnarandstöðunnar og einnig þeirra sem enn kallast stjórnarsinnar.