Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Pálmi Jónsson kvaðst ekki hafa kvatt sér hljóðs hér utan dagskrár til þess að ræða ríkisfjármál almennt né til þess að ræða aukafjárveitingar, heldur ætti slíkt að bíða 1. umr. um fjárlög. Engu að síður kom hv. þm. nokkuð oft í sínu máli að ríkisfjármálum á yfirstandandi ári og aukafjárveitingum þannig að ég tel óhjákvæmilegt hér í upphafi þegar ég svara hans spurningum að víkja að því nokkrum orðum.
    Það hefur komið fram, m.a. í greinargerð fyrir því fjárlagafrv. sem ég hef nú þegar lagt fram á Alþingi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og einnig í opinberri umræðu og á sameiginlegum fundum sem ég hef átt með fjvn., að fyrir mitt þetta ár tók ég ákvörðun um það að beita mér fyrir gagngerum breytingum á meðferð ríkisfjármála til þess að draga úr og jafnvel afnema með öllu þær aukafjárveitingar sem tíðkast hafa árum saman. Í þessu skyni er t.d. gerð ákveðin breyting á fjárlögum í því fjárlagafrv. sem nú hefur verið lagt fram og í samræmi við þessa stefnu hefur á þessu ári verið dregið svo úr aukafjárveitingum að árið 1989 sker sig algjörlega úr fyrri árum hvað það snertir. Þar að auki, sem er höfuðatriði þessa máls, hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um það að leggja fyrir hv. Alþingi frv. til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár.
    Mér fannst satt að segja nokkuð sérkennilegt, í ljósi þeirra stóru orða sem hv. þm. Pálmi Jónsson hafði hér í sinni ræðu og vegna þess að ég hef yfirleitt reynt hann að vönduðum málflutningi, að hann skyldi ekki í ræðu sinni víkja einu orði að þeirri tímamótaákvörðun núv. hæstv. ríkisstjórnar að leggja fyrir Alþingi frv. til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár. Það hefur ekki fyrr verið gert og endurspeglar stefnu og vilja núv. ríkisstjórnar til þess að taka upp gerbreytt vinnubrögð frá þeim ríkisstjórnum sem Sjálfstfl. veitti forstöðu og þar sem Sjálfstfl. fór með fjármálaráðherraembættið í og þegar hv. þm. Pálmi Jónsson var formaður fjvn. og flutti þá aldrei slíkar aðfinnsluræður um meðferð ríkisfjármála eða aukafjárveitinga eins og hann gerði nú. Ég ætla ekki að gera það að miklu umræðuefni hér, en það væri fróðlegt að fá svör við því hvernig á því stendur að þáv. formaður fjvn. Pálmi Jónsson skyldi ekki gera, í þau fjögur ár sem hann gegndi því embætti á árunum 1983--1987, athugasemdir, sambærilegar við þær sem hann gerði nú, við þær fjölmörgu aukafjárveitingar sem þá voru veittar.
    Ég vil í þessu sambandi til samanburðar lýsa því hér hverjar aukafjárveitingar hafa verið að fjölda til og í upphæðum frá árinu 1985 til ársins í ár fyrir tímabilið frá 1. janúar og til 1. september. Fyrir árið 1985, þegar Sjálfstfl. fór með embætti fjármálaráðherra og hv. þm. Pálmi Jónsson var formaður fjvn., voru veittar 155 formlegar aukafjárveitingar, að núvirði samtals 1 milljarður 110 millj. kr. Árið 1986, þegar Sjálfstfl. fór einnig með fjmrn. og hv. þm. Pálmi Jónsson var einnig formaður fjvn., voru veittar fyrstu

átta mánuði ársins 140 aukafjárveitingar, samtals að upphæð tæpir tveir milljarðar eða 1 milljarður 930 millj. kr. Árið 1987, sem skiptist að vísu milli fjármálaráðherra Sjálfstfl. og síðan ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar sem tók við upp úr miðju því ári, en þorra þess tímabils var hv. þm. Pálmi Jónsson formaður fjvn., voru samþykktar 137 aukafjárveitingar, að upphæð samtals 890 millj. kr. Árið 1988, áður en núv. ríkisstjórn tók við, fyrir tímabilið frá janúar til byrjunar septembermánaðar, voru veittar 93 aukafjárveitingar, samtals að upphæð 1 milljarður 280 millj. kr., og á þessu ári, árið 1989, á sama tímabili, hafa verið veittar 65 aukafjárveitingar, samtals að upphæð 833 millj. kr., eða þær aukafjárveitingar sem hafa verið veittar á þessu ári, fyrsta heila ári núv. ríkisstjórnar, eru þriðjungur af því sem veitt var árið 1985 og tæplega helmingur af því sem veitt var á árunum 1986--1987. Það er ekkert ár á sl. hálfa áratug þar sem hefur verið jafnlítið um aukafjárveitingar og á því ári sem nú er að líða.
    Það er þess vegna alveg ljóst að það hafa orðið hér ákveðin þáttaskil hvað snertir meðferð ríkisfjármála í samanburði við meðferð þeirra þegar Sjálfstfl. bæði stýrði fjmrn. og fór með formennsku í fjvn., og þessi þáttaskil markast af því að það hefur stórkostlega dregið úr aukafjárveitingum í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar samanborið við valdatíma Sjálfstfl.
    Þar að auki hefur núv. ríkisstjórn markað þau tímamót í meðferð ríkisfjármála, eins og ég gat um áðan, að hafa ákveðið og nú þegar tilkynnt Alþingi það í greinargerð fjárlagafrv. að leggja fyrir yfirstandandi ár frv. til breytinga á fjárlögum yfirstandandi árs í samræmi við þær stefnuákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur tekið. Ég tek sem dæmi að ríkisstjórnin hefur ákveðið fyrr á þessu ári að auka fjármagn til niðurgreiðslna. Ríkisstjórnin mun hins vegar ekki fara fram úr þeirri upphæð sem í fjárlagafrv. er vegna þess að það er enn þá allríflega ætlað fyrir þeim lið, en í frv. til fjáraukalaga verður óskað heimildar til þess að bæta við þeirri upphæð sem stefnuákvörðun hefur verið tekin um. Það er líka nokkuð ljóst að það verður meiri þörf fyrir útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir en ætlað er í fjárlögum yfirstandandi
árs, en það verður ekki farið fram úr þeim greiðslum fyrr en hæstv. Alþingi hefur samþykkt frv. til fjáraukalaga. Þannig gæti ég nefnt fjölmörg önnur dæmi því til stuðnings að þau nýju vinnubrögð sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að framkvæma fela það í sér að á þessu ári verður, í fyrsta sinn, að ég held, í sögu lýðveldisins, beinlínis leitað heimilda á yfirstandandi ári til þess að breyta fjárlagatölum með formlegri lagasetningu frá Alþingi.
    Ég hef átt ágæta samvinnu við hv. þm. Pálma Jónsson síðan ég tók við embætti fjármálaráðherra og hann hefur setið í fjvn. á þessum tíma. Ég veit að við höfum verið sammála um það að breyta þyrfti og bæta vinnubrögð í þessum efnum frá þeirri lausung sem hér hefur ríkt á árum áður og tölurnar sem ég nefndi frá fjármálaráðherratíð Sjálfstfl. og forustutíð

Sjálfstfl. í fjvn. bera rækilega vitni um.
    Þess vegna kom mér satt að segja dálítið á óvart sá tónn og sú túlkun sem var í ræðu hv. þm. hér áðan, sérstaklega að hann skyldi hér greina frá því að ég hefði sett fram þá skoðun að sá listi um aukafjárveitingar sem ég taldi skyldu mína að kynna fjvn. væri sérstakt trúnaðarmál sem ekki mætti birtast. Það er ekki rétt frásögn af því sem ég greindi frá á fundi fjvn. Það sem þar fór fram var hins vegar á þá leið að ég kom með vinnuskjal úr fjmrn. um aukafjárveitingar inn á fund nefndarinnar og hefði að sjálfsögðu búið það skjal ítarlegar að lýsingu á einstökum efnisliðum ef það hefði umsvifalaust átt að vera efni í fréttatilkynningu eða vera afhent fulltrúum fjölmiðla. Sú skoðun sem ég lét í ljós við fjvn. var ekki á þann veg. Því fer víðs fjarri að hér hafi verið um eitthvert sérstakt trúnaðarmál eða einhverja sérstaka bannvöru að ræða, heldur einfaldlega það að ef og þegar slíkt væri birt fjölmiðlum væri nauðsynlegt að hafa skjalið ítarlegra og hafa það með öðrum hætti en þegar farið er með vinnuskjölin beint inn á samráðsfundi fjmrh. með fjvn. Þar að auki bætti ég því við að þá væri eðlilegri háttur að fjmrh. og fjmrn. kynnti sjálft fjölmiðlum þetta efni en að einstakir fjárveitinganefndarmenn gerðu það. Ég lét jafnframt í ljósi þá ósk að ef einstakir fjárveitinganefndarmenn óskuðu eftir því að birta þennan lista áður en þing kæmi saman væri sjálfsagt að skoða það en hann yrði að sjálfsögðu lagður fram í formlegri meðferð fjárlagafrv. á Alþingi.
    Ég hef leitast við að hafa gott samstarf við hv. fjvn. og ég hef ekki fyrr beinlínis staðið einstaka fjárveitinganefndarmenn að slíkum rangfærslum eins og mér fannst koma fram í túlkun hv. þm. Pálma Jónssonar á þessari skrá. Að sjálfsögðu er hún ekki trúnaðarmál. Að sjálfsögðu. Ef það er hins vegar ósk fjárveitinganefndarmanna að öll skjöl sem fjmrn. leggur fram í fjvn. séu samdægurs og á sömu klukkustund í því formi að einstakir fjárveitinganefndarmenn geti umsvifalaust birt þau almenningi þá þegar og á þeim degi. Sé það vinnuósk fjvn. að skjölin séu í þeim búningi munum við að sjálfsögðu taka tillit til þess og klæða skjölin þá í þann búning að þau séu í senn upplýsingaskjöl fyrir fjárveitinganefndarmenn og formlegar fréttatilkynningar fyrir fjölmiðla. Mér hefur hins vegar skilist á öllum fjárveitinganefndarmönnum til þessa að þeir óskuðu eftir því að geta átt eðlilegt vinnusamstarf við fjmrn. um þau mikilvægu málefni sem við þurfum að fjalla um í sameiningu.
    Það gætti einnig þó nokkurs misskilnings hjá hv. þm. Pálma Jónssyni þegar hann fjallaði annars vegar um þau loforð sem gefin voru í kjarasamningum sem tókust milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna og ríkisstjórnin átti nokkurn hlut að áður en þingi lauk og svo hins vegar þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin tók á miðju sumri í júlímánuði um ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna þeirra upplýsinga sem þá lágu

fyrir um þróun ríkisfjármála á árinu. Þess vegna er ekki rétt að vera að blanda saman annars vegar þeim loforðum sem gefin voru hér í byrjun aprílmánaðar og voru efnd áður en þingi lauk og svo hins vegar ákvörðunum sem teknar voru um mitt árið og hafa ekki allar enn komið til framkvæmda og verður leitað eftir lagaheimildum Alþingis til að framkvæma. Þess vegna er ekki hægt að setja saman í einn dálk skattabreytingar sem gerðar voru í tengslum við kjarasamningana og síðan breytingar á tekjum ríkisins sem ákveðnar voru í júlí og ágústmánuði og að hluta til verða lagðar fyrir þingið í formi lagafrumvarpa, t.d. hvað snertir breytta innheimtu á launaskatti.
    Hvað snertir breytingar á útgjöldum ríkisins er sama um það að segja. Þar gætir einnig nokkurs misskilnings hjá hv. þm. og hann er fólginn í því að að sjálfsögðu mun ríkisstjórnin í því frv. til fjáraukalaga sem hún leggur fyrir þingið innan tíðar leita eftir breytingum á þeim útgjaldaliðum sem hún telur nauðsynlegt að beri minni upphæðir en í fjárlagafrv. sjálfu. Sú ákvörðun sem ríkisstjórnin tók í sumar var stefnumótandi ákvörðun. Ráðuneytin hafa miðað sína starfsemi við það að fresta framkvæmd ýmissa þeirra þátta sem snúa að framkvæmdum, bæði í samgöngum, í skólamálum og í heilbrigðismálum, þar til lægi fyrir hvort Alþingi samþykkir þetta frv. þingsins, frv. sem lagt verður fyrir þingið núna eftir eina til tvær vikur, og þess vegna ríkisstjórnin ekki á neinn hátt að taka sér vald til framkvæmda sem hún ekki hefur.
    Ég get kannski skilið það að það taki smátíma, þó hélt ég kannski að jafnfjárveitinganefndavanur maður og hv. þm. Pálmi Jónsson mundi átta sig á eðli þeirrar breytingar að þegar fjáraukalög verða hér flutt í fyrsta sinn getur auðvitað ríkisstjórnin tekið stefnumótandi ákvarðanir sem hún tilkynnir en leitar síðan staðfestingar á þeim ákvörðunum með sérstökum frumvarpsflutningi hér á Alþingi.
    Ég vænti að þessar upplýsingar skýri nokkuð vel sumar af þeim spurningum sem hv. þm. lagði hér fram og svörin við þeim en ég vil einnig víkja fáeinum orðum að nokkrum öðrum þáttum sem hann spurði um.
    Í fyrsta lagi, varðandi framkvæmd á innheimtu söluskatts, fagna ég því að fulltrúi Sjálfstfl. er orðinn hógværari í málflutningi um þá breyttu stefnu en þingflokkur Sjálfstfl. var hér á miðju sumri vegna þess að þingflokkur Sjálfstfl. kom þá saman hér sérstaklega og samþykkti kröfu um það að þessum innheimtuaðgerðum yrði hætt og fjármálaráðherrann sem beitt hefði sér fyrir bættri innheimtu söluskatts yrði látinn víkja. Nú var ekki að heyra neinar slíkar kröfur á hv. þm. Pálma Jónssyni. Þvert á móti virtist mér að í orðum hans lægi bein og óbein viðurkenning á því að þarna hefði verið um mikilvæga stefnubreytingu að ræða sem nauðsynleg hefði verið.
    Ég tek hins vegar alveg undir það með honum að slíkar innheimtuaðgerðir beri að framkvæma með þeim hætti að fyrirtækjum eða öðrum sé ekki mismunað og það er alveg óþarfi fyrir hv. þm. að hafa áhyggjur af

því að hér komi upp kerfi þar sem bændur geta komið með slátrið til sýslumannanna og greitt vangoldin opinber gjöld í formi afurða landbúnaðarins eins og hann reyndi að leiða líkur að á þeirri forsendu að menn hefðu getað greitt söluskatt með húsum. Sjálfsagt á hv. þm. við það að ríkissjóður, í samvinnu við Kópavogsbæ, ákvað eftir þó nokkrar athuganir og umræður sem farið hafa fram um langa hríð til að tryggja húsnæði fyrir bæjarfógetaembættið í Kópavogi og aðrar opinberar stofnanir sem aðsetur eiga að hafa í miðbæ Kópavogs að kaupa af fyrirtækinu Þor sf. húsnæðið Fannborg 4 og 6. Kaupverðið var rúmar 100 millj. kr., 102,5 millj. kr., og er reiknað með að Kópavogur eignist u.þ.b. þriðjung af þessu húsnæði þannig að aðeins 2 / 3 hlutar kostnaðarins verða greiddir af ríkinu. Nú þegar hafa aðeins verið greiddar 54 millj. af þessari upphæð og þeir aðilar sem áttu húsið áður eiga að skila því í ákveðnum búningi á fyrri hluta næsta árs. Hér er því ekki um það að ræða að fyrirtækinu Hagvirki hafi verið gert kleift að greiða alla sína söluskattsskuld með því að láta hús í staðinn. Þvert á móti greiddi Hagvirki sína söluskattsskuld, 108 millj. kr., til ríkissjóðs og gerði full skil í þeim efnum. Hagvirki mun að vísu vera einn af eignaraðilum fyrirtækisins Þor sf. Mér er ekki alveg ljóst nákvæmlega hvað Hagvirki á stóran hlut í því fyrirtæki, en mig minnir að það hafi verið eitthvað í kringum helmingur af því svo að ef menn vilja tengja saman í upphæðum þessi kaup og söluskattsskuld Hagvirkis er það alveg ljóst að hlutur Hagvirkis í þessari eignasölu er aðeins lítið brot af þeirri söluskattsskuld sem ákveðið var af réttbærum aðilum að fyrirtækið ætti að greiða.
    Eins og kom fram er ætlunin að nýta þetta húsnæði fyrir embætti bæjarfógetans í Kópavogi og aðrar opinberar stofnanir eins og t.d. Fangelsismálastofnun og jafnvel fleiri stofnanir og teljum við að það hafi fyllilega verið heimildir fyrir því að kaupa húsnæði, bæði fyrir Fangelsismálastofnunina og þær aðrar stofnanir sem þarna eiga hlut að máli.
    Varðandi meðferðarheimili fyrir unga fíkniefnaneytendur, þá er því til að svara að ekki hefur enn þá verið gengið frá kaupum á húsnæði í því skyni. Ég vænti þess hins vegar að allir hv. alþm. hafi á því mikinn skilning að þetta er eitt af erfiðustu og sorglegustu vandamálum í okkar þjóðfélagi og mjög brýnt að því sé sinnt hvernig eigi að reyna að lækna þau ungmenni sem hafa orðið eiturlyfjum að bráð í okkar þjóðfélagi. Það hafa verið starfandi fulltrúar heilbrigðisstétta og hlutaðeigandi ráðuneyta um nokkurt skeið til þess að gera tillögur um það með hvaða hætti væri best að reyna að tryggja meðferð og lækningu þeirra ungmenna sem verst hafa farið af eiturlyfjaneyslu hér hjá okkur Íslendingum.
    Í tillögugerð þessarar nefndar kom fram að það húsnæði sem er í Krýsuvík væri allt of dýrt fyrir þessa starfsemi og óhentugt og það væri möguleiki á að leita ódýrari lausna bæði með ódýrara húsnæði og minni rekstrarkostnaði. Og nú er unnið að því að finna slíkar lausnir, skoða nokkra staði sem nefndir

hafa verið í þessum efnum, en það hefur engin ákvörðun verið tekin um það að kaupa slíkt húsnæði enn sem komið er og þetta mál verður væntanlega einnig í því fjáraukalagafrv. sem lagt verður fyrir hv. Alþingi.
    Varðandi kaupin á svonefndu Hekluhúsi á Akureyri var mér ekki kunnugt um að hv. þm. ætlaði að spyrja nákvæmlega um kaupverð þess húss og ég er ekki með það hér við hendina, en ég held ég muni það rétt að kaupverðið hafi verið á bilinu 50--60 millj. kr.
    Hv. þm. spurði síðan til hvers ætti að nota þetta hús. Það er einkum tvíþætt notkun sem höfð hefur verið í huga á þessu húsi. Sú fyrri snýr að því að eins og hv. alþm. er kunnugt hefur verið stofnuð sjávarútvegsbraut við Háskólann á
Akureyri og það er alveg ljóst að sú verklega kennsla sem þar þarf að fara fram, meðferð tækja og ýmislegt annað í verklegum þáttum þeirrar menntunarbrautar, þarf á húsnæði að halda. Skemmur, hvort sem þær eru nýjar eða eldri, eða verksmiðjuhús geta hentað mjög vel til þess að nota í þessu skyni.
    Ég veit að innan Sjálfstfl. hefur verið mikill áhugi á að efla Háskólann á Akureyri og ég nefni þá sérstaklega nafn hv. þm. Halldórs Blöndals. Og ástæðan fyrir því að ráðist var í það að kaupa þetta hús með þessum hætti var að það eru fá hús á Akureyri sem geta boðið upp á það að með skömmum fyrirvara sé hægt að taka upp verklega kennslu í þessum fræðum í bænum. Aðrar lausnir hefðu haft það í för með sér að það yrði að byggja ný hús og það tæki mun lengri tíma.
    Í öðru lagi var ætlunin að skoða þann möguleika að í þessu húsi gætu að hluta til orðið eins konar iðngarðar fyrir nýjungar í atvinnulífi þar sem athafnamönnum, litlum samvinnufyrirtækjum eða áhugahópum yrðu skapaðir möguleikar á því að geta sett á stofn ný og lítil iðnfyrirtæki og prófað í nokkurn tíma, eitt til tvö ár, hvaða rekstrargrundvöll þessi fyrirtæki hafa án þess að þurfa að leggja í mjög dýran húsnæðiskostnað um leið og fyrirtækinu er ýtt úr vör.
    Ég veit að ég þarf ekki að útskýra það fyrir hv. þm. að það er mjög brýnt í landinu öllu, og sérstaklega í landshlutunum fyrir norðan, vestan og austan, að efla iðnþróun með því að auðvelda stofnun smárra iðnfyrirtækja og breikka þannig grundvöllinn fyrir atvinnulífið í þessum byggðarlögum, en ef áhugamenn og stofnendur slíkra fyrirtækja þurfa jafnframt að leggja í dýran húsnæðiskostnað frá upphafi er ljóst að erfiðleikarnir við að hefja slíkan rekstur eru mun meiri en ella. Þess vegna hefur oft verið rætt um það að opinberir aðilar, bæði ríki og bæjarfélög, reistu slíka iðngarða sem ekki yrðu varanleg heimkynni fyrirtækja af þessu tagi, heldur væru heimkynni fyrir tilraunir með ný fyrirtæki. Ef þær gengju vel mundu fyrirtækin flytja út eftir fáein ár og eignast sitt eigið húsnæði. Ég vænti þess að ekki verði ágreiningur um það hér á hv. Alþingi að skynsamlegt sé að stuðla að slíkum möguleikum í sem flestum landshlutum.

    Hv. þm. Pálmi Jónsson vék svo að lokum að mannaráðningum í ráðuneytunum og hafði um það efni nokkuð stór orð. Áður en ég svara þeim spurningum sem hann beindi til mín, þá vil ég rifja upp að í öllum þróuðum lýðræðisríkjum hefur sú breyting verið að gerast á síðustu 10--20 árum að talið hefur verið nauðsynlegt að efla og treysta starfsaðstöðu stjórnmálasamtaka, þingflokka og annarra sem í lýðræðissamfélaginu eiga að bera ábyrgð á opinberri stefnumótun til þess að koma í veg fyrir að embættismannakerfið, sérfræðingafjöldinn, taki í reynd hið lýðræðislega vald í hendur sér.
    Í Bandaríkjunum þar sem þessi þróun er einna lengst á veg komin eru um 20 þúsund starfsmenn sem tengjast þjóðþinginu einu í þessu skyni. Hver einstakur þingmaður þar hefur marga tugi starfsmanna á launum hjá hinu opinbera, öldungadeildarþingmenn jafnvel á annað hundrað hver fyrir sig og einstaka nefndir þingsins hafa svo líka mikinn fjölda starfsmanna. Í bandaríska stjórnkerfinu er síðan talið sjálfsagt og eðlilegt við sérhver skipti á forsetum eða ríkisstjórum í einstökum ríkjum sem eru handhafar framkvæmdarvaldsins að mjög stór hluti starfsmanna stjórnarráðanna víki með nýjum valdhöfum til þess að viðkomandi ráðherrar eða forsetinn geti haft sér við hlið í embættislegum verkum einstaklinga sem tengjast þeirri pólitísku stefnu sem viðkomandi ríkisstjórn ætlar sér að fylgja.
    Ég veit að hv. þm. er þetta kunnugt. En ég held að lýðræðisleg stefnumótun á Íslandi hafi liðið nokkuð fyrir það að bæði á Alþingi og í Stjórnarráðinu hafa menn ekki skapað nægilegt svigrúm til þess að þingflokkar og ný ríkisstjórn, ráðherrar og þeir flokkar sem að ríkisstjórn standa hafi möguleika á sem mestu sjálfstæðu mati í stefnumótuninni í stað þess að hvíla nánast alfarið á ráðgjöf embættismanna. Þetta vandamál var viðurkennt hér á Íslandi fyrir allnokkrum árum síðan þegar tekin var upp sú skipan að veita fjármagni til þess að þingflokkar gætu ráðið sér starfsmenn og með því að ákveða að í ráðuneytunum gætu komið sérstakir aðstoðarmenn ráðherra sem hyrfu síðan með þeim úr ráðuneytunum þegar viðkomandi ráðherrar færu.
    Ég veit að ég þarf ekki að rifja það upp fyrir sögufróðum alþm. að þegar þessari breytingu var komið á hér á landi, þá var það ákveðið í þingskapalögum að þingflokkur skyldi það aðeins teljast ef um tvo þm. væri að ræða. Slík skilgreining var að nokkru leyti sprottin af pólitískri hagsmunagæslu stærri flokkanna í landinu sem vildu koma í veg fyrir það að einn þm. gæti rifið sig út úr stórum þingflokki og gerst sjálfstæður þingflokkur, það skyldi þurfa tvo til. Lýðræðislega er það hins vegar óeðlilegt að ef um er að ræða einn þm. sem er kjörinn sem slíkur inn á þingið og hefur á bak við sig fjöldasamtök skipulögð utan þings, þá gæti hann ekki talist þingflokkur í lýðræðislegum og stjórnkerfislegum skilningi. Ég vænti þess að við séum öll sammála um það að fjöldasamtök utan þings sem bjóða fram og fá kjörinn mann á þingið eigi að

hafa sinn rétt líkt og önnur samtök þótt þm. sé bara einn. Sérstaklega er það nauðsynlegt ef þróun okkar lýðræðis verður með þeim hætti að æ fleiri smærri flokkar eru kosnir inn á þingið. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvort það sé æskilegt. En það gerist ekki nema það sé lýðræðislegur vilji fólksins í landinu að svo eigi það að vera og þá eigum við að beygja okkur undir það.
    Ég held einnig að það sé galli á íslenskri stjórnskipun að hún gerir ekki ráð fyrir því formlega séð að flokkur geti verið aðili að ríkisstjórn án þess að eiga þar ráðherra. Þó eru ærin rök fyrir því, bæði lýðræðisleg og stjórnkerfisleg, að slíkt geti verið fullkomlega eðlilegt að einn flokkur eða fleiri geti átt formlega aðild að ríkisstjórninni, þ.e. stefnumótun hennar og störfum öllum, án þess að eiga sérstaka fulltrúa inni í ríkisstjórninni. Slík skipan væri einnig sjálfsögð ef um það væri að ræða að okkar lýðræði þróaðist með þeim hætti að æ fleiri og smærri flokkar sætu á Alþingi.
    Ég vek athygli á þessu tvennu hér vegna þess að ég tel það vera galla á núverandi þingskapalögum að ekki geti það talist þingflokkur þó um einn mann sé að ræða sem hefur á bak við sig skipulögð fjöldasamtök utan þings, einkum og sérstaklega ef hann er beinlínis kosinn sem slíkur inn á þingið þó það geti gegnt nokkuð öðru máli um þm. sem kosinn hefur verið fyrir annan flokk en kýs svo að ganga úr honum á kjörtímabilinu. Og það er í þeim anda sem ég hef lýst þeirri skoðun minni, og hv. þm. Pálmi Jónsson vék hér að, að það væri fullkomlega eðlilegt að samtök sem eiga sinn fulltrúa hér á Alþingi, eru skipulögð utan þings og eiga formlega aðild að ríkisstjórn, hafi aðgang að starfsmönnum til þess að sinna stefnumótun á sama hátt og hinir stærri flokkar og þeir flokkar sem eiga ráðherra í ríkisstjórninni hafa slíkan aðgang. Ég tel þess vegna að það eigi að breyta þingsköpum Alþingis á þann veg að sé einn maður kjörinn inn á þing sem fulltrúi fjöldasamtaka utan þings, þá skuli hann teljast þingflokkur með nákvæmlega sömu réttindum og aðrir þingflokkar og það eigi líka að breyta lögum og reglum um stjórnskipun Íslands á þann veg að flokkur sem aðild á að ríkisstjórn þótt hann kjósi að eiga þar ekki ráðherra eigi að geta haft embættislega starfsmenn sér til stuðnings og hjálpar líkt og þeir ráðherrar sem formlega eiga fulltrúa í ríkisstjórninni og fá þá umsvifalaust mikinn fjölda embættismanna og annarra aðstoðarmanna til þess að sinna sínum verkum. Þess vegna tel ég að núv. ríkisstjórn hafi borið skylda til þess að tryggja það að Samtök um jafnrétti og félagshyggju hefðu möguleika til þess, þó lítill væri, að geta tekið þátt í því að sinna og reka stefnumótun ríkisstjórnarinnar fyrir sitt leyti eins og aðrir flokkar. Og það sé á engan hátt misnotkun á opinberu fé að greiða fyrir slík verk, enda er hægt að finna fjölmörg dæmi um slíkt með einum eða öðrum hætti.
    Vilji menn treysta lýðræðið í sessi á Íslandi, þá tel ég að til frambúðar eigi að breyta þingsköpum og lögum um stjórnarráð á þann veg sem ég hef hér lýst

því réttur hinna smáu eininga á ekkert að vera minni en hinna stærri í þessum efnum. Nú er það líka þannig að það eru ýmis dæmi um það að jafnvel hinir stærstu flokkar hafa kosið að sækja sér ráðgjöf út fyrir Stjórnarráðið. Það er ekkert nýtt að menn sæki sér ráðgjöf út fyrir Stjórnarráðið og greiði fyrir það. Ég vil nefna hér aðeins tvö dæmi til að sýna fram á að slíkt hefur tíðkast með slíkum hætti. Þáv. forsrh. Þorsteinn Pálsson kaus að sækja sér ráðgjöf út fyrir Stjórnarráðið og greiða fyrir að hann gæti notið slíkrar ráðgjafar án þess að um embættismenn væri að ræða. Í einu tilvikinu var um að ræða þm. Sjálfstfl. sem tók að sér verkefni fyrir forsrn. og forsrn. greiddi kostnaðinn af þessum verkefnum og mér er ekki kunnugt um það að leitað hafi verið einhverrar sérstakrar heimildar til þess að alþm. væri þannig ráðinn til þess að vinna verk fyrir forsrn. og fá greiddan ferða- og dvalarkostnað í því skyni og ég er ekkert að gagnrýna það. Ég vil bara nefna það hér sem dæmi að hv. þm. Geir H. Haarde sem alþm. Sjálfstfl. tók að sér að vera starfsmaður og ráðgjafi forsrh. Þorsteins Pálssonar þegar hann, sem þáv. forsrh., ferðaðist til Bandaríkjanna þannig að þm. fór í undirbúningsferðir sem og sinnti ýmsum öðrum störfum sem að öllum jafnaði embættismenn vinna og fyrir þetta var greitt bæði hvað snertir ferðakostnað og annað.
    Hv. þm. nú, þáv. forsrh. Þorsteinn Pálsson kaus einnig að sækja sér ráðgjöf þegar hann fór á leiðtogafund NATO og fékk framkvæmdastjóra Sjálfstfl., Kjartan Gunnarsson, til þess að vera sérstakan ráðgjafa forsrh. í þeirri ferð og aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins, Björn Bjarnason. Ég tek það skýrt fram að ég er ekkert að gagnrýna þetta. Ég tel eðlilegt að þáv. forsrh. Þorsteinn Pálsson hafi getað leitað sér ráðgjafar og aðstoðar út fyrir forsrn. hvort sem það var til Geirs H. Haarde, framkvæmdastjóra Sjálfstfl. eða aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins, því að það er nú einu sinni þannig í okkar litla þjóðfélagi að menn þurfa stundum á því að halda að geta sótt ráðgjöf út fyrir hið formlega embættiskerfi sem í landinu er. Og sjálfsagt hefur hæstv. forsrh. þáv., Þorsteinn Pálsson talið ærna ástæðu fyrir því að forsrn. ætti að greiða ferða- og dvalarkostnað þessara þriggja einstaklinga þótt enginn þeirra væri starfsmaður í forsrn. né sérstaklega skipaður til þessara verka.
    Varðandi að lokum þrjú atriði sem snúa að fjmrn. sérstaklega, þá skal ég fyrst fjalla hér um sölustjóra eða framkvæmdastjóra söluskrifstofu ríkisskuldabréfa. Eins og hv. Alþingi er kunnugt þá sögðu viðskiptabankarnir upp samningi við ríkissjóð um sölu á spariskírteinum ríkissjóðs upp úr síðustu áramótum og þá var alveg ljóst að það var óhjákvæmilegt fyrir ríkissjóð að halda út á hinn opna og frjálsa markað verðbréfanna til þess að reyna að tryggja þá innlendu fjármögnun sem boðuð var í fjárlagafrv. Í fjárlagafrv. var lögð sú skylda á fjmrn. að afla innlends lánsfjár í allmiklu magni og mig minnir að sumir hafi jafnvel dregið í efa að það væri hægt miðað við núverandi

aðstæður. Þegar viðskiptabankarnir sögðu upp samningnum við fjmrn. og kusu að fara þá leið að ríkissjóður ætti einn að annast þessa sölu, þá lá það í hlutarins eðli að það yrði að ráða einhvern starfsmann til að sinna þessu verkefni. Og þess vegna var ákveðið í samvinnu Seðlabankans og fjmrn. að setja upp slíka sameiginlega skrifstofu Seðlabankans og fjmrn. sem annaðist þessa skipulögðu sölu á spariskírteinum ríkissjóðs og sölu ríkisvíxla. Til þess var síðan ráðinn maður sem hafði verið einn af framkvæmdastjórum Fjárfestingarfélagsins. Ég tel að hann hafi skilað mjög góðu starfi og hann eigi stóran hlut í þeim mikla árangri sem náðst hefur á þessu ári í sölu spariskírteina ríkissjóðs og ríkisvíxla. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að koma þessum málum fyrir með skipulegum hætti til frambúðar vegna þess að ég reikna með að viðskiptabankarnir hafi ekki áhuga á því að endurnýja samning sinn eða taka að nýju upp samning við fjmrh. um þetta efni þótt að mörgu leyti mætti færa fyrir því rök að eðlilegt væri að viðskiptabankarnir önnuðust þessa starfsemi. Þess vegna hefur það verið rætt milli Seðlabankans og fjmrn. að slíkri söluskrifstofu verði komið fyrir í tengslum við Ríkisábyrgðasjóð og þá starfsemi sem tengist Seðlabankanum og verði salan rekin þaðan. Hún verði ekki hluti af hinu eiginlega fjmrn., enda passar kannski slík markaðsstarfsemi illa í hin daglegu embættisverk sem þar eru unnin, en verði byggð upp í samvinnu við Seðlabankann og í tengslum við þá fjármögnunarstarfsemi ríkisins sem þar fer fram.
    Það er svo rétt sem fram hefur komið að ég kaus eftir nokkurt hlé að ráða að nýju upplýsingafulltrúa til starfa í fjmrn. Það hafði verið starfandi upplýsingafulltrúi í fjmrn. frá miðju ári 1987 og fram að ársbyrjun 1989. Ég tjáði þeim manni sem var í því starfi þegar ég kom í ráðuneytið að ég vildi fá tíma til þess að átta mig á því hvort slíkt starf væri nauðsynlegt og sagði honum þess vegna upp. En ég komst að raun um það eftir að hafa starfað í fjmrn. í tæpt ár að það er svo mikil ásókn af hálfu fjölmargra aðila, einstaklinga, samtaka og fjölmiðla í margvíslegar upplýsingar í ráðuneytinu og mikill tími embættismanna fer í að sinna þeim verkum og svo var einnig ljóst að vegna upptöku á virðisaukaskatti og fjölmörgum öðrum verkefnum væri mjög brýnt að sérstakur maður sinnti þessum verkefnum. Ég kaus þess vegna að ráða mann til þeirra verka, ekki sem fastan embættismann í ráðuneytinu, heldur mundi starfstími hans helgast af þeim verkefnum sem þar væru og ráðningarskilmálarnir með þeim hætti að ef sá sem á eftir mér kemur við ráðuneytið vill ráða sér annan mann til þeirra verka eða hafa engan eins og ég kaus að gera í byrjun, þá séu engar hindranir í því að viðkomandi maður láti af störfum samstundis.
    Ég tel þess vegna að sú eina viðbót sem hafi orðið í fjmrn. í minni tíð sé að ráðinn hefur verið sérstakur efnahagsráðgjafi. Ég sannfærðist um það mjög fljótlega að fjmrn. á Íslandi er svo veigamikill þáttur í allri efnahagsstjórninni og samskipti fjmrn. við Seðlabankann, við hagsmunasamtök, við

viðskiptabanka og fjölmarga aðra aðila eru með þeim hætti að það væri alveg nauðsynlegt að fjmrh. hefði sérstakan efnahagsráðgjafa.
    Fyrirrennari minn í fjmrn. stofnaði þar sérstaka hagdeild. Ég veit að það var umdeild ákvörðun á sínum tíma. Ég sannfærðist um það að það var hárrétt ákvörðun hjá þáv. fjmrh. Jóni Baldvini Hannibalssyni. Ég á satt að segja bágt með að skilja hvernig þeir sem gegndu fjármálaráðherraembættum áður hafi getað búið við það að slík vinna væri utan fjmrn. í öðrum stofnunum sem heyrðu ekki einu sinni undir ráðuneytið. Það væri óhjákvæmilegt að fjmrn. gæti framkvæmt sjálfstætt mat á tekjuþróun, á efnahagslegri þróun og gæti þess vegna brugðist við með þeim hætti sem fjmrn. þarf að gera. Og ég vek athygli á því að vilji menn kynna sér hvernig fjmrn. starfa í nágrannalöndum okkar þótt ekki sé farið lengra en til Norðurlandanna, hvað þá heldur til hinna stærri landa, þá eru þær deildir í ráðuneytunum sem fjalla um hina efnahagslegu ráðgjöf og mótun efnahagsstefnunnar með þeim stærri og öflugri því það er ekki bara hlutverk fjmrn. að stýra útgjöldum og tekjuöflun ríkisins, heldur gegnir það veigamiklu efnahagslegu hlutverki. Og ég er persónulega mjög ánægður með það að sá einstaklingur sem ég valdi til þessa verks og áður gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum í Seðlabankanum hefur alls staðar getið sér frábærlega gott orð fyrir það verk sem hann hefur unnið á þessu sviði.