Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Málshefjandi, hv. 2. þm. Norðurl. v., beindi tveimur spurningum til utanrrh. sem ég mun leitast við að svara fyrir hans hönd.
    Í fyrsta lagi spurði málshefjandi um fjölda þeirra starfsmanna í heimaskrifstofu utanrrn. sem bæru sendiherranafnbót. Mér fannst eins og hann léti að því liggja að ekki væri alveg víst um stöðuheimildir þessara manna. Því er til að svara, eins og málshefjanda, hv. 2. þm. Norðurl. v., er vafalaust vel kunnugt, að sendiherrar halda starfsheiti sínu þegar þeir eru kvaddir heim til starfa. Starfsmenn með sendiherrastöðu í heimaskrifstofu utanrrn. eru nú jafnmargir og þeir voru í mars en það var það sem málshefjandi spurði um. Ég fullyrði að stöður þeirra rúmist innan stöðuheimilda utanrrn. Ég held það þurfi ekki að hafa um þetta fleiri orð, þetta skýrir sig sjálft.
    Í öðru lagi spurði málshefjandi um ráðningu sérfræðings í afvopnunarmálum. Ég vil taka það fram að þessi sérfræðingur er ráðinn samkvæmt sérstakri heimild frá fjmrn. tímabundinni ráðningu að sérstökum verkefnum. Þetta er alls ekki óvenjulegt. Þessum starfsmanni er einkum ætlað að vinna að tillögum um afvopnun á höfunum í samræmi við yfirlýsingar Íslendinga um það mál á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og víðar. Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum að þetta er ákaflega mikilvægt mál sem varðar hagsmuni Íslendinga miklu. Ég tel þess vegna mikilvægt að utanrrh. hafi daglega sérfræðing sér til halds og trausts í þessu stóra máli þann tíma sem málið er á döfinni eins og nú er. Þótt starf Öryggismálanefndar sé vissulega mikilvægt í þessu samhengi, þá er verkefni hennar miklu almennara. Ég vil líka vekja athygli á því að sá sérfræðingur sem hér um ræðir hefur góð kynni af störfum Öryggismálanefndar. Ég tel ekki ástæðu til að segja meira um starfssvið þessa sérfræðings en hann hefur starfskjör sem deildarstjóri í launaflokki 151 eins og t.d. forstöðumenn ýmissa skrifstofa í utanrrn., t.d. upplýsingaskrifstofu og reyndar margir sendiráðunautar sem svo heita samkvæmt nafngiftum utanrrn. Hann hefur ekki --- ég endurtek, ekki --- starfskjör aðstoðarmanns ráðherra. Hann er ekki dulbúinn aðstoðarmaður ráðherra eins og hv. málshefjandi vildi orða það --- og ég verð nú að segja að ég botna ekkert í að hann skuli nota slík orð --- því fer fjarri að hér sé um brot á reglunum um Stjórnarráðið að ræða eins og mér fannst gæta í máli þingmannsins og hann hafði um nokkuð stór orð.
    Málshefjandi og fjmrh. viku báðir í sínu máli að starfi undirnefndar fjvn. sem unnið hefur að gerð reglna um greiðslur úr ríkissjóði, þar með um aukafjárveitingar. Þetta er hið þarfasta verk og ég veit að málshefjandi hefur starfað vel að því og það má taka undir ýmislegt sem fram kom í máli hans og fjmrh. um þetta verkefni. Ég vil benda á það að fjmrh. sem nú starfar hefur verið röggsamur að undirbúa umbætur á þessu sviði að sínu leyti og hefði mátt ætla að málshefjandi hefði getið þess að nokkru

í sínu máli. En ég tók eftir því að hv. 2. þm. Norðurl. v. varaði mjög í sinni ræðu við vandlæturum. Þeirra biðu stundum lítt öfundsverð örlög. Ég vona satt að segja að málshefjandi, hv. 2. þm. Norðurl. v., breyti framvegis í samræmi við þennan boðskap sinn.