Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Við Íslendingar erum í hópi þeirra gæfusömu þjóða sem byggja á grundvelli laga og réttar. Við búum við stjórnarfar sem byggir á lagagrunni og við hér í þessari stofnun höfum það verkefni að setja þjóðinni lög. Það er þess vegna ákaflega dapurlegt þegar æðstu valdamenn þjóðarinnar gera sig seka um að brjóta lög sem hér eru sett og enn þá dapurlegra þegar þeir neita að horfast í augu við slíkar staðreyndir og halda hér uppi vörnum á Alþingi fyrir slíkt athæfi.
    Mætti ég vitna máli mínu til stuðnings, virðulegi forseti, til tveggja tiltekinna lagagreina sem snerta eitt atriði, aðeins eitt atriði, í því sem fram kom í máli málshefjanda og það varðar starfsmann hv. þm. Stefáns Valgeirssonar.
    Í lögum um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana segir svo í 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Óheimilt er að fjölga föstum starfsmönnum í þjónustu ríkisins eða ríkisstofnana nema að fengnu samþykki ráðninganefndar ríkisins, sbr. 6. gr. Ákvæði þessarar greinar gilda þó ekki um þær stöður sem stofnaðar eru með lögum.``
    2. gr.: ,,Óheimilt er að láta starfsmenn starfa í þjónustu ríkisins eða ríkisstofnana nema fjárveiting eða heimild til launagreiðslu sé fyrir hendi. Þeir aðilar, sem sjá um launagreiðslur, geta fengið staðfestingu Fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar á því hvort slíkar heimildir séu fyrir hendi.``
    Ég tel alveg ótvírætt, a.m.k. hefur ekki annað komið fram, að sá starfsmaður sem titlaður er deildarstjóri í forsrn. með starfsvettvang á skrifstofu Stefáns Valgeirssonar í Þórshamri starfi þar utan þeirra heimilda sem hér hafa verið lesnar, þessara lagagreina.
    En ekki nóg með það, virðulegi forseti. Til eru sérstök lög um sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokka sem hvorki forsrh. né hæstv. fjmrh. sáu sérstaka ástæðu til að geta um og hafa eflaust ekki kynnt sér í þessu sambandi. Þar segir í 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Greiða skal þingflokki tiltekna lágmarksfjárhæð og að auki ákveðna upphæð fyrir hvern þingmann til að kosta sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokkinn og þingmenn hans við þingstörf. Utanflokkaþingmaður fær sömu upphæð og greidd er á hvern þingmann þingflokks.``
    Síðan segir hér í 3. gr., með leyfi forseta:
    ,,Þingflokkur er samtök tveggja eða fleiri þingmanna sem eru fulltrúar stjórnmálaflokks er hefur komið á fót landssamtökum.``
    Það er alveg ljóst að með því að taka upp greiðslur til þingflokksígildis sem inniheldur aðeins einn þingmann er verið að fara gjörsamlega á svig við þessi ákvæði í lögum um sérfræðilega aðstoð við þingflokka. Það er bara algjörlega ljóst, það er morgunljóst eins og hæstv. landbrh. mundi orða það. (Gripið fram í.) Já, það er verið að brjóta þau hreint og klárt. Og það skiptir engu máli í því sambandi

hvort menn hafi þá skoðun að þessi lög eigi að vera öðruvísi.
    Ég tel að það sé gagnleg yfirlýsing sem kom frá hæstv. forsrh. að hann hyggist beita sér fyrir breytingum á þessu. Það er auðvitað rétta leiðin ef menn vilja hafa þetta öðruvísi, þ.e. að breyta þessum lögum. Það má hlýða á ýmis rök og færa ýmis rök fram fyrir því að þetta eigi að vera öðruvísi. Sumt af því sem hæstv. fjmrh. lét sér um munn fara af þessu tilefni er vissulega þess eðlis að undir það er hægt að taka. Þó finnst mér nú fulllangsótt að vísu að halda því fram að þar sem þingmenn í Bandaríkjunum hafi 30--100 starfsmenn á sínum snærum, þá eigi Stefán Valgeirsson að hafa eitthvað álíka, skilst manni.
    Hér segir reyndar líka eins og ég sagði áðan, með leyfi forseta: ,,Utanflokkaþingmaður fær sömu upphæð og greidd er á hvern þingmann þingflokks.`` Það hlýtur að eiga að skilja þessa grein svo að þeir þingmenn sem starfa einir og sér utan þingflokka, hvort sem þeir hafa verið kosnir þangað sem slíkir eða hafa sagt skilið við sína þingflokka, fái þessa upphæð. Með öðrum orðum: Það verður ekki annað lesið út úr þessum lögum en að sá þingmaður, sem hér hefur verið til umræðu vegna þessa máls, fái einmitt greiddar fjárupphæðir til að standa straum af þessari þjónustu, þessari sérfræðilegu aðstoð.
    Ég vil ekkert fullyrða um það hvort það er þannig. Ég hygg að hv. þm. muni ekki eiga í miklum vanda með að upplýsa það, en þá er þetta mál nú kannski farið að taka annan svip ef ekki bara er greitt fyrir þetta samkvæmt þessari grein heldur er líka ráðinn sérstakur deildarstjóri í forsrn. til að þiggja laun fyrir þessi störf. Auðvitað er þetta allt hið ósmekklegasta og auðvitað er þetta hneyksli eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði hér í upphafi máls. Og það er dapurlegt að menn skuli halda uppi vörnum á þeim grundvelli sem hér hefur verið gert í stað þess einfaldlega að viðurkenna sín mistök og beita sér fyrir lagabreytingu þannig að hægt sé að koma til móts við þennan þingmann ef
meiri hluti Alþingis telur ástæðu til þess. Það hefði auðvitað átt að gera þetta strax í upphafi í stað þess að lauma þessum tiltekna starfsmanni á launaskrá, í forsrn. af öllum stöðum, án nokkurrar einustu lagaheimildar.
    Ég skal ekki lengja þetta mál, virðulegi forseti, þar sem nú er liðinn sá tími sem upphaflega var ætlaður til þessarar umræðu, en ég verð að segja það að mér finnst það ákaflega lítilfjörlegt þegar fjármálaráðherra landsins við umræðu um málefni sem þetta, þar sem verið er að tala um hrein lagabrot, skuli sjá sóma sinn í því og lúta svo lágt að líkja lagabroti af þessu tagi við það þegar forsætisráðherra landsins leitar til einstakra þingmanna eða annarra trúnaðarmanna um ráðgjöf á tilteknum sviðum, eins og hann gerði hér áðan, til að mynda í tengslum við aðild mína að för þáverandi forsætisráðherra á fund Bandaríkjaforseta. Ég sé ekki neina ástæðu til þess að halda uppi sérstökum vörnum fyrir það. Ég er satt að segja frekar hreykinn af því að hafa fengið aðstöðu til þess að

taka þátt í því og ég sé ekkert eftir þeim vikum af mínum vinnutíma sem fóru í þann undirbúning. Ástæðulaust er að geta þess að fyrir það var auðvitað engin þóknun greidd þó svo að fjmrh. hafi gefið annað í skyn. Það var auðvitað greiddur sá útlagður kostnaður sem af þessu hlaust og eðlilegt hlýtur að teljast. En það er ekki til þess að hækka planið á umræðum af þessum tagi hér á Alþingi að grípa til samanburðar af þessum toga. Það verð ég að segja og þykist vita að fleiri séu mér sammála um.