Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Hæstv. forseti. Hv. alþm. Ég sakna mjög að sjá ekki Pálma Jónsson málshefjanda hér í salnum. ( Gripið fram í: Hann situr að tafli.) Hann situr að tafli með pálmann í höndunum er sagt, en ég vildi mjög gjarnan að hann væri hér með okkur í salnum þegar við höldum áfram að ræða þessi mál undir þeim dagskrárlið sem vel mætti kalla ,,Snaran í húsi hengda mannsins``, Pálmi.
    Þannig vildi nú til í morgun að við hv. alþm. Pálmi Jónsson vorum að ræða um hunda. Þá kom í ljós sú undarlega staðreynd að það er enginn fjárhundur á Akri þessa dagana. Mér þótti þetta ákaflega merkilegt og ég er í rauninni búinn að vera að velta þessu fyrir mér meira og minna í allan dag hvernig Pálmi vinur minn fari að fjárhundslaus á Akri. Ég er ekki að segja að það sé ekki í einhver hús að venda. Mér datt í hug t.d. smalahundurinn á Seljavöllum, jafnvel tíkin á Höllustöðum. Þess vegna átti ég eiginlega ekki von á því að það væri hundur í Pálma í dag eins og því miður hefur komið í ljós hér í umræðunum. Ég átti hins vegar von á því að hann mundi halda áfram með hundalógik, en ekki að það væri hundur í þessum ágæta og geðgóða manni og félaga mínum og samherja í tíu ár í öðrum flokki. Það minnir mig dálítið á kvæðið eftir Stein Steinarr um hundinn sem var húsbóndalaus að flækjast í borginni. Ég veit ekki hvort það er verra að vera húsbóndalaus hundur að flækjast í borginni eða hundslaus húsbóndi að flækjast í sveitinni, en hvort tveggja er nokkuð bagalegt. Þetta er svona eins og að vera ráðherra án ráðuneytis.
    En að gefnu tilefni er ég þakklátur Pálma Jónssyni húsbóndalausum eða hundslausum að hafa opnað hér umræðu um hús, opnað hér umræðu um kaup og nýtingu á húsum. Í framhaldi af því vil ég spyrja hæstv. fjmrh. og óska eftir greinargóðum svörum frá honum, eins og hans er von og vísa, um þrjú hús:
    Það er í fyrsta lagi Víðishúsið við Laugaveg sem keypt var á sínum tíma. Mig langar að spyrja að hve miklu leyti er það í notkun, hversu vel nýtist það og hefur nýst og hversu lengi hefur það verið í notkun? Eins langar mig að spyrja um verðið á húsinu, framreiknað að sjálfsögðu, hvað það kosti í dag. Þá á ég við kaupverðið og þær breytingar sem hafa verið gerðar á þessu annars ágæta húsi.
    Í annan stað vil ég spyrja um húseign Mjólkursamsölunnar þar rétt hjá sem ríkið keypti á sínum tíma. Ég vil spyrja um nýtingu á því húsi í dag og ég vil spyrja um verðið á því húsi, hvað það hefur kostað.
    Og ekki get ég talað um hús hér í þessu húsi án þess að minnast á Flugstöðina, þetta matthýsi okkar allra sem er eins konar viðhafnarskrifstofa, kosningastofa fyrir einn ágætan ónefndan stjórnmálaflokk með þetta 25% kjörfylgi.
    Ég vil leyfa mér líka að spyrja í leiðinni um samhengi milli þess húss og fjárlaga, um byggingarsögu hússins og hvenær og hvar hún

nálgaðist eða féll saman við fjárlögin.
    Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili. Ég þakka þingheimi gott hljóð.