Almannatryggingar
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Mál það sem hér er hreyft hefur verið til umræðu að undanförnu í þeirri nefnd sem nú vinnur að endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni. Fyrir nokkrum árum síðan var lögum um almannatryggingar breytt þannig að greiða mætti maka elli- og örorkulífeyrisþega bætur sem næmu allt að 80% grunnlífeyris og tekjutryggingar, þ.e. upphæð sú sem greidd var var hækkuð verulega, hafði, ef ég man rétt, fyrir þá breytingu verið aðeins 20% en var hækkuð í 80%, en var eftir sem áður bundin við maka. Hér er lagt til að fleiri aðilar sem annast elli- og örorkulífeyrisþega geti einnig fengið hliðstæðar greiðslur eins og tryggingalöggjöfin gerir nú ráð fyrir til maka. Ég vil láta það koma hér fram að í þeim tillögum, sem nú liggja fyrir varðandi þessa endurskoðun, sem ég nefndi áðan og hef reyndar stundum áður nefnt héðan úr þessum ræðustóli, hefur verið rætt um það að víkka þessa heimild þannig að hún nái til annarra einstaklinga einnig sem á heimilinu hafa tekið að sér það hlutverk að annast elli- eða örorkulífeyrisþega eins og hér er kveðið á um.
    Ég geri mér von um að frv. að nýjum lögum um almannatryggingar líti dagsins ljós mjög fljótlega og áður en langt um líður verði hægt að leggja það fyrir Alþingi svo það komi til umfjöllunar hér í vetur. Ég tel reyndar að þá muni það samrýmast mjög vel að skoða þetta frv. í tengslum við þá endurskoðun. Ég hef auðvitað stundum fengið að heyra það áður frá hv. þm. að þeir efuðust um það að við næðum því að koma þessari endurskoðun svo langt. Það hefur stundum áður verið lagt í það verk að endurskoða almannatryggingalöggjöfina án þess að það næði alla leið inn á þing, en okkur virðist sem það sé svo langt komið að líkur séu á að það muni takast á næstu vikum.
    Hvað varðar svo aftur önnur atriði í 1. gr. þessa frv. sem hér er til umræðu, þá vil ég segja það um ákvæði í 3. mgr. sem fjalla um styrk til starfs- eða endurmenntunar að mér finnst vera nokkur spurning hvort það eigi heima í tryggingalöggjöfinni. Ég skil auðvitað og get tekið undir rök hv. 1. flm. um nauðsyn þess að veita fólki stuðning til þess að endurhæfa sig eða endurmennta eftir það að hafa fengist við ákveðin störf og þurfa síðan að skipta um starf, en þetta á auðvitað við í fleiri tilfellum en þessu og verður þá að skoðast frekar almennt heldur en að það eigi erindi inn í löggjöf um almannatryggingar. Ég lýsi sem sagt efasemdum mínum um að það sé rétt þó ég sé ekki þar með að gera lítið úr nauðsyn þess að fólk eigi einhverja möguleika á að fá stuðning við endurmenntun.
    Þetta vildi ég láta koma hér fram, virðulegi forseti, þannig að mönnum væri ljóst að þetta atriði, sem er kannski aðalmál greinarinnar eða a.m.k. það sem skiptir máli og á virkilega heima inni í almannatryggingalöggjöfinni og kemur fram í 1. mgr. 1. gr., er til umræðu nú þegar í þeirri nefnd sem

fjallar um endurskoðun á tryggingalöggjöfinni og jafnframt það að ég vonast til þess að frv. um ný almannatryggingalög komi hér fram á þinginu von bráðar.