Almannatryggingar
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Flm. (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa mælt stuðningsorð við þetta frv. og þessa hugmynd. Það gladdi mig að heyra í máli hæstv. ráðherra að við megum nú vænta þess að fara að sjá þessa endursköpuðu tryggingalöggjöf og þá vonandi betri og bættari frá því sem áður var.
    Það er eitt og annað sem mig langar aðeins að minnast á í sambandi við það sem hefur komið fram í máli þeirra sem hafa talað. Það er t.d. í sambandi við það fólk sem fer út á vinnumarkað eftir að hafa verið lengi inni á heimili. Það er sums staðar tekið tillit til starfsreynslu þessa fólks, en þó að kona hafi verið húsmóðir í 30 ár er hennar vinnuframlag hvergi metið til hærri starfsreynslu en sex ára og sums staðar ekki svo hátt og þá eru eingöngu metnir verklegir þættir hennar starfa. Atriði eins og frumkvæði, sjálfstæði í ákvörðunum, ábyrgð á fjármálum, þessir þættir sem úti á vinnumarkaðinum eru yfirleitt metnir hæst til starfsreynslu eru ekki metnir hjá húsmæðrum. Þó að þær hafi í rauninni stjórnað fyrirtæki um árabil, því að hvað er heimili annað en fyrirtæki í rekstri, þá er hvergi tekið tillit til þess.
    Hæstv. ráðherra minntist aldrei á 2. gr. frv., eða ég tók a.m.k. ekki eftir því, sem fjallar um að fólk geti áunnið sér lífeyrisrétt með umönnunarstörfum. Ég vildi mega vita hvers má vænta í því og hvort ekki verður tekið á því í þessari endurskoðun því mér finnst töluvert mikið atriði að það geti orðið. Og við skulum ekki gleyma í sambandi við þetta fólk sem tekur að sér að annast sjúka eða ellihruma inni á heimili að oft og tíðum á það ekkert val í þessum efnum vegna þess að stofnanir eru ofsetnar og það er ekki hægt að koma þessu lasburða fólki inn á þær þó jafnvel bæði það og aðstandendur vildu það en svo er þó raunar ekki alltaf. Venjulega kýs fólk heldur að vera heima á meðan það getur og aðstandendur leggja oft mjög hart að sér til að verða við þeim óskum, hrekja það ekki burt af heimili sem það hefur kannski átt heima á áratugum saman. Þetta er hreint mannúðarsjónarmið.
    Ég hef ekki trú á að þetta verði mikill kostnaðarauki fyrir ríkissjóð, bæði vegna þess að þetta fólk hefur sparað stofnanagjöld og í öðru lagi að ef þetta fólk fær einhvern styrk eða hjálp til að leita sér menntunar verður það sjálft ekki styrkþegar þegar fram í sækir. Það er rétt að taka mið af því líka.
    Ég endurtek þakkir mínar til þeirra sem hafa talað hér og ég vænti þess að kannski verði hægt að koma fram frekari breytingum í þessa veru í nýrri löggjöf. En ég vildi þó í lokin aðeins minnast á það þegar talað er um að starfs- eða endurmenntunarstyrkur eigi ekki heima í tryggingalöggjöf að Norðmenn telja slíka styrki vissulega eiga heima þar og ég sé ekki að mannfólkið í Noregi og á Íslandi sé svo mjög ólíkt að það eigi ekki heima undir sams konar stofnunum hvernig sem því er komið.