Almannatryggingar
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Hafi það ekki komið nægilega skýrt fram í máli mínu í upphafi að ég er út af fyrir sig fylgjandi þessari 1. mgr. hér í fyrri gr. frv. og efnisatriðum hennar skal það áréttað, og ég ítreka það að mér er kunnugt um að hliðstæð ákvæði eru nú þegar inni í hugmyndum margumræddrar endurskoðunarnefndar almannatryggingalöggjafarinnar. Og ég get þá út af fyrir sig líka tekið undir það með hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni að það er auðvitað ástæðulaust, ef menn eru almennt sammála um efni þessarar málsgreinar, að afgreiðslu hennar sé frestað til lengri tíma ef við værum ekki að vonast til þess, ákveðið, að þessi endurskoðun geti farið fram í vetur og það er það sem ég vil undirstrika. Ég held að ég hafi ekki gefið yfirlýsingar um það á síðasta þingi að líklegt væri að við næðum þessari endurskoðun inn á þing þá þó svo að ég hafi ítrekað sagt frá því að þessi vinna væri í gangi og ég vonaðist til þess að við sæjum fyrr en seinna fyrir endann á því. Ég tel mig hins vegar geta sagt það með nokkurri vissu nú að þessari endurskoðun sé að ljúka og við megum eiga von á frv. til nýrrar almannatryggingalöggjafar hér inn á þetta þing sem er nýtekið til starfa. Þess vegna finnst mér eðlilegt að þetta mál í heild sinni komi til skoðunar þegar það frv. kemur hér fyrir þing og fyrir nefnd.
    Varðandi 2. mgr. er það rétt hjá hv. 1. flm. að ég nefndi hana ekki sérstaklega áðan og mér finnst að þetta sé mál sem verði bara að koma til skoðunar í nefndinni og þegar málið er allt til athugunar. Ég vil ekki tjá mig sérstaklega um það á þessu stigi öðruvísi en hafa gefið mér betri tíma til þess að kanna hvað þar liggur að baki og auðvitað má kannski benda á það líka, þó að mér sé ekki alveg ljóst hversu nákvæmlega það tengist hugmyndinni sem þarna er hreyft, að því betur eru það nú færri og færri einstaklingar sem ekki eiga rétt á greiðslum úr lífeyrissjóði þegar að því kemur, en það er ekki víst að það eigi alveg samleið með þessari hugmynd sem hér er sett fram.
    Aðeins örfá orð varðandi tekjutengingu grunnlífeyris án þess að ég ætli þó að taka það inn í umræðuna hér nú. Það verður ábyggilega tími til þess að ræða það síðar. En þar sem það var nefnt hér í ræðustóli áðan vil ég segja það við hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur að mér finnst það út af fyrir sig ekkert tilfefni til að tala um ölmusu þótt menn velti fyrir sér hvort ástæða sé til að greiða þeim sem hefur verulegar tekjur úti í þjóðfélaginu, annaðhvort launatekjur, þó aldraður sé orðinn, eða tekjur af eignum, hinn almenna 10 þús. kr. grunnlífeyri. Ég virði auðvitað þá stefnu og þá hugsun í almannatryggingalöggjöfinni, á sínum tíma, að veita mönnum lífeyri til elliáranna. Það var auðvitað meginmarkmiðið. Nú hefur hins vegar margt breyst á þeim tíma sem liðinn er síðan það var ákveðið og við vitum um aldraða einstaklinga

sem hafa verulegar tekjur. Þá er ég að tala um, án þess að vilja þó skilgreina nánar hvað ,,verulegar tekjur`` eru, það er nú kannski alltaf teygjanlegt, en þá erum við samt að tala um háar upphæðir. Ég fullyrði að ég er þá ekki að tala um 50, 60, 70 þús. kr. laun. Ég er að tala um hærri laun en það og að tryggingalöggjöfin eigi fyrst og fremst að vernda þá sem þurfa virkilega á aðstoð samfélagsins að halda en ekki að vera kerfi til þess að menn geti keypt sér slíkan rétt til elliáranna hvernig svo sem aðstæður þeirra kunna þá að verða. Í því sambandi höfum við komið upp öðru formi sem eru lífeyrissjóðirnir og mér finnst að við eigum ekki að blanda því saman. Auðvitað ætti að endurskoða lífeyrissjóðamálin öll í heild sinni og það væri kannski verðugt að reyna að tengja það endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni því að auðvitað eru vissir þættir þessarar löggjafar og lífeyrissjóðamálanna skyldir og ættu þess vegna að koma hér til skoðunar í þingi samhliða. Það er hins vegar flókið mál og heyrir reyndar ekki undir heilbr.- og trmrh. að fylgja því eftir sérstaklega, heldur tilheyrir það fjmrn. og væri þá í verkahring fjmrh. að taka upp þá umfjöllun hér í þingi sem er án efa fyllilega tímabær.