Almannatryggingar
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Það var um þetta síðasta atriði, um tekjutengingu grunnlífeyris. Menn geta auðvitað haft þau sjónarmið að sá sem hefur verulegar tekjur eigi ekki til viðbótar að fá úr opinberum sjóðum upphæð sem svarar grunnlífeyri almannatrygginga. Þeir hinir sömu hljóta þá að verða að gera sér ljóst að með því er verið að segja að það sé eðlilegt að leggja þyngri skatt á þann hóp borgaranna sem er 67 ára og eldri vegna aldursins eins. Þetta þýðir í raun og veru það. Þetta þýðir í raun og veru það að áætlanir sem menn hafa getað gert um framtíð sína standast ekki að þessu leyti vegna þess að það sem áður var lögum samkvæmt hluti af tekjum þeirra yrði það ekki lengur. Með öðrum orðum, það verkar eins og um viðbótarskattlagningu væri að ræða. Ég skil ekki þá velferðarhugsun sem felst í því að menn telji að aldraðir séu einhver sérstök auðsuppspretta fyrir ríkissjóð umfram aðra borgara þjóðfélagsins. Þetta er hugsun sem ég tel afar varhugaverða, en ef við setjum hlutina upp frá þessu sjónarhorni og með þessum formerkjum, að við séum að skoða tekjur þjóðfélagsborgaranna og hinna ýmsu aldursflokka í heild, og ef við hugsum okkur að afnema það sem hefur verið lögbundinn hluti af tekjum sem menn vissulega hafa keypt sér rétt til, ef það sem hefur verið lögbundinn hluti af tekjum viss aldurshóps er afnumið, þá er það sama sem skattlagning. Það er sama sem skattlagning. Og það er þetta sem mér þykir siðferðilega rangt í þessari hugsun.
    Röksemdir mínar hefði verið auðveldara að setja fram hér á árum áður þegar tryggingaiðgjaldið, iðgjaldið til almannatrygginga, var afmarkað frá öðrum gjöldum til hins opinbera. Þá settu menn ósjálfrátt í beinna samhengi það gjald og svo aftur á móti þau framlög sem menn eignuðust rétt til úr tryggingakerfinu. Þegar það var svo ákveðið með lögum að afnema hið sérstaka tryggingaiðgjald, þ.e. að hætta að innheimta það sérstaklega, heldur að það væri sameinað öðrum gjöldum til hins opinbera, þá var ekki þar með sagt að það ætti að hætta að líta svo á að menn keyptu sér þennan rétt, heldur var einungis sagt: Þetta er aðeins til að einfalda innheimtu, til að gera skriffinnskuna minni og auðvitað verður réttarstaða manna svipuð og þróast með svipuðum hætti og ella hefði orðið.
    Ég hef smátt og smátt komist á þá skoðun að þetta hafi verið rangt. Ég held að það líði að því að við þurfum að taka upp hið sérgreinda tryggingaiðgjald á nýjan leik þó svo að það iðgjald hafi ekki staðið undir útgjöldum trygginganna að fullu, heldur vissu menn hve mikill hluti útgjaldanna var greiddur með tryggingaiðgjöldunum. Þess vegna held ég að vitund manna um það hvað verið er að kaupa verði í raun og veru sterkari, menn geri sér betur grein fyrir samhenginu þarna á milli, að menn eru ekki að þiggja eitthvað af ríkissjóði þegar þeir fá tryggingabætur heldur eru menn að sækja rétt sinn sem þeir eignast þegar tiltekin atvik ber að höndum eða aldur færist

yfir.