Stimpilgjald
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, lögum nr. 36/1978. Flm. þessa frv. eru auk mín þingmennirnir Alexander Stefánsson og Ólafur Þ. Þórðarson. Frv. hljóðar svo með leyfi forseta:
,,1. gr.
    1. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
    Fyrir stimplun hlutabréfa, sem gefin eru út af félögum með takmarkaða ábyrgð, skal greiða 1 / 2 % af fjárhæð bréfanna.
    2. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Frumvarp samhljóða þessu var flutt á síðasta þingi, 396. mál, en varð ekki útrætt og er því endurflutt hér á þessu þingi. Það er samdóma álit þeirra sem að þessu frv. standa að eitt af því sem mikilvægast er í atvinnulífi Íslendinga í dag sé að auðvelda fyrirtækjum að auka eigið fé sitt. Mér segir svo hugur um að það frv. sem hér er flutt nú sé einungis hið fyrsta af fjölmörgum sem kunna að koma fram á þessu þingi til þess að vinna því máli framgang. Annar þáttur sem er mjög mikilvægur í því tilefni er auðvitað að hvetja almenning til þátttöku í atvinnulífinu.
    Það er alveg ljóst að á undanförnum árum hefur gengið mjög á eigið fé fyrirtækja í fjölmörgum greinum, ekki síst í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Lánsfé er dýrt og vextir háir vegna mikillar eftirspurnar eftir lánsfé. Það ber því allt að sama brunni að það er ákaflega æskilegt og raunar nauðsynlegt fyrir atvinnulífið að fyrirtækin auki eigið fé sitt. Það er hins vegar annars vegar kostnaðarsamt að gera slíkt og hins vegar ekki, eins og aðstæður eru, nægilega eftirsóknarvert eða hefur ekki nægilegt aðdráttarafl fyrir aðila að auka eigið fé í fyrirtækjum. Til þess ber margt. Það er ákaflega mikill munur á arði þess fjár sem menn leggja fram með kaupum á hlutafé og hins vegar þess fjár sem menn lána fyrirtækjum með kaupum á skuldabréfum. Þar veldur margt, ekki síst skattamál og það er enginn vafi á því að það er mjög mikilvægt að breyta skattalögum þannig að hækkaðar séu þær fjárhæðir sem unnt er að draga frá á skattframtölum vegna kaupa á hlutafé, breytt sé reglum um skattlagningu arðs til að mynda þannig að útgreiðsla arðs sé ekki skattskyld hjá fyrirtækjunum og rýmkuð ákvæði um skatt á arði hjá einstaklingum. Fleiri slík atriði er auðvitað hægt að nefna. Til að mynda er mjög mikilvægt að tap á hlutafé verði frádráttarbært á sama hátt og tap á öðrum eignum hjá fyrirtækjum. Það er og mjög mikilvægt að hvetja og örva viðskipti á hlutabréfamarkaði.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum almennt um þessi mál. Mér segir svo hugur um að síðar á þessu þingi verði ítarlegri umræður um stöðu hlutabréfa og hlutafjár almennt með tilliti til skattalaga og annarra ákvæða. Það er hins vegar alveg ljóst að stimpilgjöld eru gríðarlega há. Fyrirtæki eru mjög hvött til að auka sitt eigið fé, en ef fyrirtæki eykur hlutafé sitt um 50

millj. kr. eins og staðan er í dag, þá ber því að greiða eina millj. kr. í ríkissjóð vegna stimpilgjalda. Þetta er verulegur kostnaður og þrándur í götu þess að gefa út hlutabréf og jafnvel dregur úr fyrirtækjum að láta stimpla bréfin. Ég tel að ekki síst við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu og hafa reyndar ríkt núna í nokkur missiri sé gríðarlega mikilvægt að taka á þessu máli og einn þáttur í því er flutningur þessa frv. þar sem lagt er til að stimpilgjald lækki úr 2% í 1 / 2 %.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.