Stimpilgjald
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hér er hreyft gagnmerku máli í annað sinn, en eins og fram kom í ræðu hv. 1. flm. var þetta frv. líka flutt á síðasta þingi en varð þá ekki útrætt eins og segir í greinargerð með frv. Frv. felur í sér að lækka gjaldtöku fyrir stimplun hlutabréfa úr 2% í 1 / 2 %. Ég er í engum vafa um að þessi aðgerð getur stuðlað að því að örva viðskipti með hlutabréf, ýta undir heilbrigð hlutabréfaviðskipti og ásamt með öðrum mikilvægum ráðstöfunum stuðlað að því að auka eiginfjármyndun í íslensku atvinnulífi. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að hér sé um eðlilega og skynsamlega breytingu að ræða.
    Það vekur auðvitað athygli að flm. frv. eru þrír áhrifamenn í Framsfl., flokki sem að formi til a.m.k. veitir núv. ríkisstjórn forustu. Ég hygg að allir þessir menn sitji í sérstakri efnahagsnefnd þingflokks Framsfl. og 1. flm., hv. 10. þm. Reykv., skrifaði mjög merka blaðagrein í sumar þar sem hann krafðist nýrrar efnahagsstefnu og setti með þeirri grein fram harðari gagnrýni á efnahagsstefnu núv. ríkisstjórnar en jafnvel beinskeyttustu stjórnarandstæðingar hafa gert og var sú grein fagnaðarefni. Ég lít svo á að þetta litla mál hér sem aðeins tekur til lítils hluta alls þess sem gera þarf þegar ný efnahagsstefna væri tekin upp sé hluti af þeirri kröfugerð og í samræmi við þann málflutning.
    Frv. er endurflutt. Ég hygg að á síðasta þingi hafi verið skýr meiri hluti fyrir þessu frv. að því tilskildu að vísu að Framsfl. hefði staðið á bak við flm. málsins. Sjálfstfl. styður það. Annar þingmanna frjálslyndra hægri manna hefur sagt mér að þeir styðji það einnig þannig að þegar á síðasta þingi hefur verið meiri hluti fyrir þessu frv. ef Framsfl. hefði staðið að baki flm. Og nú er það spurning mín til hæstv. forsrh. við þessa umræðu hvort ekki megi treysta því að Framsfl. standi heill og óskiptur á bak við flm., ekki síst með tilliti til þess að þeir eru allir í efnahagsnefnd þingflokks Framsfl. og hafa af þeim sökum verið kjörnir til hins mesta trúnaðar til þess að móta efnahagsstefnu Framsfl. Og ég vildi gjarnan áður en þessari umræðu lýkur fá svar hæstv. forsrh. og formanns Framsfl. við þessari spurningu því að það hlýtur að auðvelda nefndarstarfið ef sú afstaða liggur fyrir.
    Í annan stað vildi ég beina fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um afstöðu hans til málsins. Ég fæ ekki ráðið af fjárlagafrv. að þar sé gert ráð fyrir lækkun tekna af stimpilgjöldum. Á hinn bóginn segir þar að flutt verði frv. um endurskoðun á stimpilgjöldum og það frv. eigi að tengjast afgreiðslu fjárlaga. Nú vildi ég gjarnan fá svör hæstv. fjmrh. við því hvort það frv. sem þingmenn úr efnahagsnefnd forustuflokks ríkisstjórnarinnar hafa hér flutt er uppfylling á því sem segir í fjárlagafrv. um flutning þingmáls af hálfu ríkisstjórnarflokkanna um endurskoðun á stimpilgjöldum eða hvort hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn ætlar að koma með annað frv. Ef svo er er mikilvægt að það fáist upplýst þegar við þessa umræðu og áður en nefnd tekur það til afgreiðslu í

hverju hugsanlegur munur er fólginn.
    Ég vildi, herra forseti, koma þessum fyrirspurnum á framfæri og vænti þess að umræðunni ljúki ekki fyrr en hæstv. ráðherrum hefur verið gefinn kostur á að gegna þeim þingskyldum sínum að svara þessum fyrirspurnum, en að öðru leyti vil ég lýsa yfir stuðningi mínum við efni frv.