Stimpilgjald
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Suðurl. ágætar undirtektir og stuðning við það frv. sem hér hefur verið lagt fram og mælt fyrir. Orð hans gefa samt tilefni til fáeinna skýringa af minni hálfu.
    Það er rétt að þetta mál kom fram á síðasta þingi. Ég hygg að það sé líka rétt að það naut víðtæks stuðnings. Það kom hins vegar fram mjög seint. Því var vísað til fjh.- og viðskn. Þar var á endanum talið nauðsynlegt að senda málið til umsagnar og að það fengi sem vandaðasta málsmeðferð. Of seint var að koma málinu fram ef það yrði sent út til umsagnar. Það sem fyrst og fremst olli því að menn vildu senda málið til umsagnar voru nú kannski orð eða skýringar í skýrslu sem Seðlabankinn lét á sínum tíma vinna varðandi viðskipti með hlutabréf og örvun viðskipta á hlutabréfamarkaði þar sem ákveðnar efasemdir komu fram um það hvort, ef stimpilgjald af hlutabréfum væri lækkað í 1 / 2 %, væri þá yfir höfuð tilefni til að innheimta stimpilgjaldið, hvort í mörgum eða flestum tilvikum væri upphæðin ekki orðin það lág að það tæki því kannski varla að vera þá með innheimtu á bréfunum.
    Ég var nú ekki sammála því, en eigi að síður voru þær raddir uppi að þess vegna þyrfti málið að fara í umsögn og það skoðað. Ég get vel skilið það að sumir hafi þá skoðun uppi. Þetta var meginástæða þess að málið fór ekki beint í gegn, þetta vafðist fyrir mönnum. Nú höfum við hins vegar lengri tíma til stefnu og getum kannað þetta mál. Ég hef sjálfur velt því fyrir mér og er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að lækka þetta í 1 / 2 %.
    Varðandi afstöðu hæstv. forsrh. í þessu máli er rétt að það komi fram að frv. þetta var sýnt í þingflokki framsóknarmanna áður en það var lagt fram á síðasta þingi. Þar voru menn sammála um að frv. skyldi lagt fram. Ég skal ekki draga úr því að hv. 1. þm. Suðurl. spyrji forsrh., en í ljósi þessara upplýsinga finnst mér óþarfi út af fyrir sig að tefja umræðurnar vegna þessa máls.
    Varðandi spurninguna til hæstv. fjmrh. um að ekki sé gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að tekjur af stimpilgjöldum lækki, þá held ég að það sé rétt að fram komi að í rauninni eru tekjur ríkisins af stimplun hlutabréfa mjög litlar. Stimpilgjöldin eru líklega að meginstofni tekjur af stimplun annarra skjala, svo sem skuldabréfa, þannig að þarna er ekki um að ræða mikinn tekjustofn fyrir ríkið þó að miklu muni fyrir fyrirtækin hverju sinni því að eins og menn vita greiðir fyrirtækið eða hlutafélagið kostnaðinn við stimplun bréfanna en ekki eigendur þeirra og í því felst mikilvægi málsins upp á það að hvetja menn til að auka eigið fé.
    Þetta vildi ég að kæmi fram vegna orða hv. 1. þm. Suðurl. en ég vil enn á ný þakka honum fyrir stuðning við frv.