Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Karl Steinar Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég þakka ágætis ræðu um ferðamál og tek undir það með 1. flm. að ferðaþjónusta bænda hefur unnið kraftaverk og á vafalaust eftir að gera mjög stóra hluti á komandi árum. Það er alveg til fyrirmyndar hvernig þar hefur verið staðið að málum yfirleitt.
    Hvað það frv. snertir er hér liggur fyrir vil ég segja að ég velti því fyrir mér hvers vegna það er flutt. Það segir hér í upphafi 1. gr. að sveitarstjórnum sé sameiginlega heimilt að skipa ferðamálanefnd. Ég veit ekki til annars en að þetta sé heimilt, þetta sé gert víða um land. Ég veit að á Suðurnesjum er það svo og sú nefnd er auðvitað skipuð fólki sem hefur sérstakan áhuga á þessum málum og hefur gert ágæta hluti hvað varðar ferðamál. Líka segir hér síðar í 1. gr. að ferðamálanefnd sé heimilt að taka sanngjarnt gjald fyrir þá þjónustu sem hún veitir. Ég veit ekki til annars en að þetta sé heimilt líka og það sé tekið gjald þar sem mönnum sýnist svo og reynt að stilla því í hóf til þess að ofbjóða ekki neytendum.
    Ég er mjög fylgjandi því að hvatt sé til þess að sem best verði búið að ferðamannaiðnaðinum eða þeim sem neyta þessarar þjónustu og jafnframt sé gætt fyllstu varkárni hvað varðar umhverfi og annað. Ég hef hins vegar efasemdir um að rétt sé að lögbinda alla hluti. Ég tel að það sé alveg óþarfi í þessu tilviki. Ég sé ekki að það geri neitt gott og í öðru lagi tel ég að þetta sé sérstakt sveitarstjórnarmál og Ferðamálaráð eigi í samráði við sveitarstjórnirnar að reyna að styrkja svona starfsemi eins og til er og ástæðulaust er að lögbinda. Ég sé heldur ekki að þetta breyti neinu vegna þess að þessar nefndir fá ekkert vald, fá ekki aðild að einu eða neinu. Það væri æskilegt, ef þetta verður til samkvæmt lagaboði eða heimildarákvæðum í lögum, að þá hafi þessar nefndir aðild að Ferðamálaráði eða einhver fulltrúi frá þeim eða það sé kveðið þá á um samstarf þar á milli, eða þá að ríkisvaldið veiti einhvern tilstyrk til þessara nefnda í formi fjármuna eða aðstöðu. En ég sé ekki að það þjóni neinum tilgangi að lögbinda alla hluti. Það drepur annað í dróma síðar meir.