Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Ég stend hér fyrst og fremst upp til þess að lýsa stuðningi við þetta mál. Það hefði vissulega verið gott að hafa hæstv. samgrh. við umræðu um þetta mál. (Gripið fram í.) Nei, ég sá ekki betur en að hæstv. ráðherra væri hér áðan.
    Hér er lagt til að heimilt verði að gera slíka hluti, sveitarstjórnum falið það. Og ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að færa þetta heim til héraðanna, heim til byggðarlaganna, þannig að þau séu virk í þessu starfi. Það hefur lengi verið talað um það að ferðamannaiðnaður, eins og menn eru farnir að orða það núna, gæti verið ein af stoðum þess í atvinnulífinu sem við þyrftum að byggja upp. Ég er andvígur miðstýringu í þeim efnum sem og öðrum og tel það því æskilegt að þarna komi til fólk sem þekkir svæðin, þekkir heimabyggðina, þekkir þau svæði sem á að beina ferðamönnum inn á. Hins vegar, ef þetta er til í lögum --- nú verð ég að viðurkenna að ég er ekki mjög lögfróður maður --- er þetta kannski óþarfi. En ég trúi því nú vart að hv. þm. Jón Helgason, 1. flm. þessa, sem fyrrv. hæstv. dómsmrh., ef ég man rétt, flytji mál sem þegar eru inni í lögum, þannig að ég dreg það í efa. Ekki vil ég þó fullyrða neitt og vil ekki vefengja neitt það sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagði. Ég tel hins vegar að þetta sé mjög þarft mál að kalla fram heimafólk til starfa í þessum efnum, það heimafólk sem hefur áhuga, sem þekkir best til og getur skipulagt. Þess vegna lýsi ég eindregnum stuðningi við frv.