Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Stefán Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sem hingað hafa komið þakka flm. fyrir að leggja þetta mál hér fram. Ég er sannfærður um að þetta er hið besta mál. Menn hafa aðeins velt vöngum yfir því hvort nauðsyn væri á að binda hér svo rækilega um eins og lagt er til. Ég held að svo sé. Ég held að það þurfi að leggja aukna áherslu á og reyna að tryggja betur en nú er að staðið sé sem best að þessum málum í heild sinni. Það er engin spurning í mínum huga að mjög miklir möguleikar leynast enn í ferðamannaþjónustunni. Það er engin spurning um það. Enda kemur það hér fram í grg., eins og hv. 1. flm. gat um, að ferðamannaþjónustan er ung atvinnugrein og á örugglega eftir að vaxa hér mjög úr grasi.
    Það er hins vegar líka rétt, eins og kemur fram í grg., að það þarf að skipuleggja þetta allt saman og horfa á málið allt, ekki bara koma upp náttstöðum og hótelum. Það þarf einnig að huga að því hvernig við viljum að þessir aðilar fari um landið og gangi um landið sjálft. Ég held nefnilega að þar leynist kannski mestir möguleikar okkar til þess að draga erlenda aðila hingað til landsins. Það muni byggjast á ósnortinni náttúru sem við Íslendingar eigum.
    Ég hef tilfinningu fyrir því að útlendingar muni í auknum mæli mjög sækjast eftir því að komast í þessa ósnortnu náttúru okkar, fá að kynnast veðraham vetursins ef svo mætti segja. Við höldum það, og erum mjög niðurlútir þegar við mætum þessu fólki í rigningu og roki, að það sé ömurlegt að landið okkar skuli mæta þessu fólki svo. En staðreyndin er sú að margt af þessu fólki er búið til þess og vill gjarnan komast í eitthvað slíkt. En eins og ég segi held ég að þarna leynist kannski mestir möguleikar okkar, þ.e. að búa svo um að þetta fólk geti notið ósnortinnar náttúru. Víða er nú unnið að þessu og fólk kemur orðið hér í hópum að vetrarlagi til þess að ferðast um og njóta vetrarins, veiðiskapar og annars. Við höfum séð það þegar auðjöfrar erlendra ríkja koma á sínum einkaþotum og lenda hér á stórflugvöllunum og láta flugvélarnar bíða sólarhringum saman meðan þeir draga fisk á stöng í fallegri veiðiá. Við höfum kannski ekki gælt eins mikið við þá hugmynd að þessir menn hafa sömu löngun til þess að ferðast um með byssu og skjóta fugl. Það er engin spurning að það er mikil löngun til þess hjá slíkum aðilum og ég held að við ættum líka að sinna því betur.
    Það er einnig rétt að það komi fram að ég held að fátt hafi betur tekist í því að skapa ný atvinnutækifæri í sveitum heldur en í ferðamannaiðnaðinum og ég tek undir það mjög rækilega sem hér hefur verið sagt í sambandi við ferðaþjónustu bænda. Ég hef rætt við marga sem hafa ferðast um og gist á þessum heimilum og þeir hafa látið nánast frábærlega vel af slíkri dvöl. En nóg orð um þetta frv. að sinni.
    Ég endurtek það að ég fagna því að frv. skuli vera hér lagt fram. Það vekur hér umræðu í þingi og það fær ítarlega skoðun í nefnd þingsins og ég er sannfærður um það að meginmál flm. er það að frv.

fái jákvæða meðferð og ég heyri það á þingmönnum að svo muni verða.