Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Flm. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um þetta frv. og þær undirtektir sem það hefur fengið. Mér finnst ákaflega eðlilegar spurningarnar sem hv. 4. þm. Reykn. varpaði hér fram, hvers vegna frv. er flutt, þar sem ekki er gengið lengra í upphafi 1. gr. en að tala um heimild. Það getur vel verið að það sé rétt að skoða það í nefnd hvort þarna eigi að kveða fastar að orði og segja: Skylt skal sveitarstjórn að gera þetta, því að ég held að flestir eða má segja allir staðir á landinu eigi sína möguleika í sambandi við ferðaþjónustu. Okkar land er svo misjafnt og margbreytilegt að það má segja að hver staður hafi upp á eitthvað sérstakt að bjóða og því ætti að stefna að því að svona starfsemi sé sem virkust alls staðar á landinu.
    En þó þarna sé aðeins um heimildarákvæði að ræða, þá er síðar í greininni þó reynt að fela þessum nefndum ákveðið lögbundið hlutverk, m.a. það að fjalla um allt það sem 7. gr. laga um skipulag ferðamála segir að Ferðamálaráð eigi að fjalla um eftir því sem við getur átt á hverjum stað. Og það er ekki lítið hlutverk sem nefndunum verður þá ætlað með lögum eftir þá lögbindingu. Ég þekki það mætavel að svona starfsemi er fyrir hendi. Ég þekki það í minni heimabyggð. Þar hefur verið starfandi ferðamálanefnd í allnokkur ár. Og kannski vegna þess að ég hef séð að góður árangur hefur náðst af því starfi, þá vildi ég leggja það til að skapaður yrði lagarammi fyrir þetta starf um leið og ég hvetti til þess að aðrir fetuðu í fótsporin.
    Það vill þannig til að nú í sumar fékk ég svolitla reynslu af þessu sjálfur. Þessi ferðamálanefnd vann að því með ferðaskrifstofu að efna til hópferða á þetta svæði, nokkurra daga dvöl með ferðalagi um svæðið. Og þrátt fyrir ákvæði laganna um leiðsögumenn, þá voru heimamenn fengnir til þess að vera með ferðinni. Að lokinni ferðinni var svo óskað eftir að þátttakendur fylltu út spurningalista sem skilinn var eftir á herbergjum þeirra. Og ég verð að segja að það kom mér mjög á óvart hversu ánægjan var mikil meðal þátttakenda því að mér virtust ytri aðstæður ekkert vera svo sérstakar miðað við önnur ferðalög. Veður var misjafnt og annað eftir því. En það sem var ólíkt var að þarna voru heimamenn virkir í að taka á móti fólkinu og það var held ég það sem skipti sköpum.
    En að sjálfsögðu er það rétt sem hv. 3. þm. Vestf. og fleiri hafa undirstrikað hér að einn megintilgangurinn með þessu er að dreifa valdi og ábyrgð og örva framtak heima fyrir, því að framtíð byggðanna blómstrar ekki og tilvera þeirra raunverulega byggist á framtaki heima fyrir. Hún getur ekki byggst á öðru en því númer eitt. Síðan aftur skyldu þjóðfélagsins að skapa þessum aðilum jöfn skilyrði hvar sem þeir eru búsettir á landinu til þess að neyta síns framtaks.
    Ég vil endurtaka þakklæti mitt fyrir undirtektirnar og þær ábendingar sem hér hafa komið fram og tel alveg sjálfsagt að þær verði allar athugaðar vel í þeirri

nefnd sem fjallar um málið.