Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Ég vil ítreka það að frv. sem slíkt breytir litlu frá því sem er og dreifir ekki heldur valdi. Þessum ferðamálanefndum er ekkert vald veitt samkvæmt þessu og ætlum við að dreifa valdi þá verður það að gerast í þeirri mynd að þessar nefndir fái einhver völd, einhver áhrif. Eins og ég var að benda á þyrftu þær að hafa bein tengsl við Ferðamálaráð og ég vænti þess að það verði skilgreint þá í nefnd hvernig með það yrði farið.
    Ég er fyllilega sammála þeirri hugsun sem kemur fram hjá flestum hérna um að það beri að auka ferðamannaþjónustu. Það beri að sinna þessum málum heima fyrir. Þar eigi frumkvæðið að vera sem allra mest. En ég vil líka að það verði þá þannig búið um hnútana að það séu sett lög ef það er rétt að setja lög sem ég er ekki viss um. Það verði búið þannig um hnútana að einhver árangur verði af því. Ég tel þetta sérstakt sveitarstjórnarmál sem sveitarstjórnir víða um land hafa sinnt og það er spurning hvort ekki ætti að skilgreina frekar valdsvið Ferðamálaráðs, hvernig með það skuli fara, hvernig dreifa skuli ábyrgðinni. En það sem ég sagði í fyrri ræðu minni er það að frv. eins og það er fram sett breytir engu að mínu mati, en hugsunin í því á vel heima við hvaða markmið sem menn segjast ætla að ná og menn vilja gjarnan ná og vænti ég þess að það verði skoðað í nefnd.