Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður, en mig langar að gera hérna að umræðuefni kannski tvennt. Það er í fyrsta lagi að ég get alveg fallist á það sem hv. þm. Jónas Hallgrímsson sagði um orðið, að breyta því í þjónustu en ekki iðnað. Það hefur nú eigi að síður verið talað um þetta sem ferðamannaiðnað allt til þessa, en ekki skal ég reyna að halda því neitt til streitu. Hitt er jafngott og kannski betra.
    En það sem aðallega varð nú til þess að ég stóð hér upp aftur var ræða hæstv. forseta, hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur. Ég er út af fyrir sig mjög ánægður með það ef kvennalistakonur eru núna komnar á þá skoðun eftir yfirreið um landið í sumar hvernig atvinnuháttum landsbyggðarinnar er háttað. Að þessu frv. standa fjórir dreifbýlisþingmenn. ( GHG: Strjálbýlis.) Eða strjálbýlisþingmenn, menn geta haft það orð ef þeir vilja, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Ég dreg ekki í efa að þeir viti hvernig atvinnuháttum í strjálbýlinu, við skulum orða það svo, er háttað. Ég tel mig einn til viðbótar þessum, hv. þm. Stefán Guðmundsson þar til viðbótar, hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson enn til viðbótar og ég hef heyrt að hv. þm. Karl Steinar Guðnason telji sig búa utan bæjarins þannig að ég hygg nú að það þurfi ekki að áminna okkur eða vekja athygli okkar á því hvernig atvinnuháttum landsbyggðarinnar er háttað. ( EgJ: Það er gott að ríkisstjórnarliðið muni eftir því.) Ég hygg að það hafi ekki skort neitt þar á. En kannski á hv. þm. Egill Jónsson við fyrrv. ríkisstjórnarliðið sem mundi ekki eftir því á sínum tíma. En það er gott og blessað þegar það hvarflar að, hvort sem það er þingmönnum, ráðherrum eða þeim sem fara með forustu í þjóðmálum, þegar það hvarflar að þeim hvernig búið er að atvinnuháttum víðs vegar út um land. Og það þyrfti kannski að vekja athygli á þessu oftar, en ég ítreka, ég fagna því að kvennalistakonur hafa nú komið auga á þetta og vekja athygli á því eftir yfirreið sína á sl. sumri um landið.