Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Það spáir nú góðu að það skuli koma upp í þessari umræðu ofurlítill titringur í sambandi við atvinnumál landsbyggðarinnar og ég hlýt að fagna því alveg sérstaklega hvern áhuga Kvennalistinn sýnir í þessum efnum. En af því að hv. síðasti ræðumaður var að rifja upp fyrri skoðanir þeirra kvennalistakvenna í þessum efnum, þá get ég nú ekki komist hjá því að minna á þau úrræði sem einmitt þessi hv. alþm. hafði eftir för sína um landið í sumar og fram komu í viðtali við hana í Ríkisútvarpinu þar sem hún sagði að ástandið væri þannig að menn þyrftu að setjast niður --- þetta er svona hér um bil alveg orðrétt haft eftir alþm. --- setjast niður og koma sér saman um það hvaða byggðarlög ættu að lifa af og hver ættu að hverfa. Ég hef víða orðið var við þessi ummæli Kvennalistans og þessa afstöðu Kvennalistans á ferðum mínum og þess vegna er það að sjálfsögðu ánægjuefni að finna nú fyrir þessum áhuga hér í umræðunni og mikil framför og sinnaskipti frá því sem kom fram í útvarpinu hér á dögunum og ég hef tilgreint hér eftir síðasta hv. ræðumanni.