Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Hæstv. forseti. Það er nú komið svo að þessi umræða um einfalda breytingu á lögum um Ferðamálaráð er að snúast upp í eldhúsdag hér í efri deild. ( Gripið fram í: Það er ekkert annað að gera.) Það er ekkert annað að gera, það er alveg rétt, og ég ætla að leyfa mér að blanda mér aðeins inn í þessa umræðu.
    Ég get tekið undir margt sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði hér áðan um stöðuna í dreifbýlinu. Hins vegar fannst mér gæta nokkurs misskilnings hjá henni. Við sem búum úti á landi þekkjum það að ríkisvaldið hefur á undanförnum árum staðið ágætlega í stykkinu í mjög veigamiklum þáttum. Ég nefni menntamálin, mikla uppbyggingu á sviði skólamála. Ég nefni heilbrigðismálin þar sem menn eru nánast að ljúka uppbyggingu heilsugæslustöðva og ég nefni samgöngumálin þar sem hafa verið gerðar stórkostlegar umbætur á síðustu 10 árum.
    Hitt sem kannski hefur brugðist er það að stjórnvöld á hverjum tíma hafa ekki staðið í stykkinu við það að skipta atvinnutekjunum og kannski mest varðandi stjórnun gengismála og almennra peningamála. Þarna er það sem hefur brugðist mest og ég held að við getum verið sammála um hér, flestir landsbyggðarþingmenn sem hér erum.
    Hvaða byggðarlög lifa og hvaða byggðarlög deyja? Því ræður enginn mannlegur utanaðkomandi máttur. Löggjafinn, stjórnvöld geta skapað skilyrði, mismunandi lífvænleg, en það sem endanlega ræður því hvort byggð þróast og dafnar eða líður undir lok eins og hefur verið að gerast í okkar þjóðfélagi um langt árabil eru ákvarðanir íbúanna á viðkomandi stöðum. Það er enginn utanaðkomandi mannlegur máttur sem þar getur haft úrslitaáhrif á.
    Ég fagna líka orðum hv. þm. Egils Jónssonar um þessi mál og ég treysti því að hann taki nú til hendinni á sínum heimavígstöðvum þar sem mér hefur fundist tónninn í háværum öflum innan Sjálfstfl., og síðast tekið undir það af Morgunblaðinu núna á þessu ári, ekkert hafa verið mjög vinsamlegur út í landsbyggðina og allra síst okkur hv. þm. Egil Jónsson og aðra þá sem enn þá stunda landbúnað í þessu landi ( EgJ: Þú skalt lesa Tímann líka.) þannig að ég treysti því að Egill taki til höndunum á sínum heimavígstöðvum. Þetta er nú kannski það sem ég vildi leggja inn í þessa umræðu.
    Það er eitt enn þá sem ég ætlaði að bæta við út af því sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði hér varðandi afskipti ríkisvaldsins af uppbyggingu á landsbyggðinni. Það er kannski á öðrum stað sem Alþingi hefur brugðist. Það er varðandi það að Alþingi hefur á undangengnum áratugum gefið Reykjavíkurborg allt of lausan tauminn varðandi tekjustofna og á þann hátt gefið henni ægisvald yfir aðrar byggðir varðandi framkvæmdir og þannig ýtt undir þann vítahring sem byggðastefnan vissulega er í. Og ég ítreka það, þetta gerist allt saman á þeim tíma þegar landsbyggðarþingmenn hafa töglin og

hagldirnar á Alþingi og var í lófa lagið að láta þessi mál þróast öðruvísi.