Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Unnar Þór Böðvarsson:
    Hæstv. forseti. Ég verð nú að segja það að ég lýsi undrun minni á því hvernig lítið mál getur orðið að stórmáli og dreift úr sér eins og þessi tillaga sem lá hérna fyrir hefur orðið. Ég er eins og fleiri hér að vissu marki ánægður yfir því að það skuli nást umræða um vanda dreifbýlisins og held að ekki sé vanþörf á, þykir nú ánægjulegt að heyra það að flestir hér inni lýsa því yfir hver í kapp við annan hversu miklir stuðningsmenn dreifbýlisins þeir séu, jafnt þröngbýlismenn sem dreifbýlismenn.
    Svo að ég snúi mér að tillögunni, þá vil ég vekja athygli á því að ég kem úr samfélagi þar sem ferðamál eru kannski snarari þáttur í atvinnulífi sumarsins heldur en í mörgum öðrum byggðarlögum á landinu. Það eru Biskupstungur þar sem við höfum náttúrufyrirbæri sem laða ferðamenn að mikið frekar heldur en annars staðar. Ég vona að ég sé ekki að fara út fyrir efnið og raunar eru hv. þm. búnir að fara út fyrir efnið það mikið að ég leyfi mér að fara aðeins út fyrir það og vil minna á það að við erum með þessa staði, Gullfoss og Geysi, þessar náttúruminjar í Biskupstungum sem eru þjóðinni til vansæmdar eins og að þeim er búið í dag þannig að það er mál sem þarf að taka til rækilegrar athugunar og verður að gerast mjög fljótlega og er þegar í undirbúningi að færa það mál hérna inn í þingið.
    Það er rétt sem kom hérna fram að það þarf að skapa fleiri störf fyrir konur í dreifbýli. Það er mjög mikið atriði. Ef ég man rétt úr stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar, þá held ég að það hafi verið minnst á það í honum að ríkisstjórnin ætlar sérstaklega að beita sér fyrir þessu og Kvennalistinn er illu heilli ekki aðili að þessu stjórnarsamstarfi þannig að þeir sem eru þá í þessu stjórnarliði ásamt mér og fleirum hérna, við skulum þá bara reyna að standa við fyrirheit þessa stjórnarsáttmála.
    Síðan ætla ég að vara við því að horfa á ferðamál sem einhverja allsherjarlausn. Við höfum þurft að horfa upp á alls konar ævintýri sem einhverja allsherjarlausn í vandamálum dreifbýlisins, vandamálum landbúnaðarins og við höfum séð þessar skýjaborgir hrynja oft og tíðum áður en þær komu til framkvæmda.
    Ferðaþjónusta í dreifbýli er ágæt til að fylla upp í skörðin. Hún er ekki það sem getur komið í stað þess sem fyrir er. Við erum þar með atvinnuvegi sem verða að njóta stuðnings og þeir verða að hafa rekstrarskilyrði. Það þarf enginn að halda það að fólkið sem nú býr á landsbyggðinni uni við það betlistarf sem ferðaþjónustan á margan hátt er sem einhvern aðalatvinnuveg.
    Að síðustu vil ég bara benda hv. þm. á það að umræða um þessi mál er þrep í sókn fyrir bættu atvinnulífi á landsbyggðinni sem og annars staðar í landinu, en það eru verkin sem skipta máli.