Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Jónas Hallgrímsson:
    Virðulegi forseti. Það sannast hér enn einu sinni að oft verður lítil þúfa til að velta stóru hlassi. Ég átti síst von á því að þessi tillaga um breytingu á ferðamálum yrði til þess að verða einhvers konar eldhúsdagsumræða eins og hér er komið fram áður, en ég sé mig tilneyddan til þess að taka þátt í umræðunni áfram og reyna að halda mig við ferðamálefnin eins og hægt er.
    Þetta með ferðaþjónustuorðið, það var sagt í skilgreiningarskyni fyrst og fremst og var vinsamlega mælt og meint. Ég get ekki látið hjá líða að þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir að vekja athygli á ummælum hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur, og þakka henni jafnframt hreinskilnina í útvarpinu hafi hún mælt þessi orð sem hún hefur ekki mótmælt hér. Það eru nefnilega ekki allir sem þora að segja þetta og hún á þakkir skildar fyrir að koma hugsun sinni jafn skýrri fram þó ég vilji taka það skýrt fram að ég er ekki sammála henni.
    Aðrir orðuðu þetta á þann hátt á fínu máli að kalla það þéttingu byggðar að eyða heilum eða hálfum byggðarlögum. Það heitir á fínni íslensku að þétta byggðina. Ég tek undir orð þau sem hér hafa komið fram áður að þetta verður ekki gert á meðan við sem eftir lifum, þessir fáu úti á landi, viljum eiga þar heima. Það er nefnilega einfaldur hlutur að það þurfa ekki allir hlutir og eiga heldur ekki allir hlutir að ráðast hér og það er líka morgunljóst að landsbyggðarþingmenn hafa hér á löggjafarsamkundunni sem betur fer enn þá þau tögl og hagldir ef þeir kunna og geta staðið saman að koma í veg fyrir þetta sem ég nefndi áðan, það sem menn kalla þéttingu byggðar. Við eigum nefnilega rétt á því að eiga heima þar sem okkur langar til á Íslandi og ég hygg að það séu fleiri með þeim hugsunarhætti fæddir og gerðir heldur en bara ég, sem betur fer kannski.
    Ég ætla að reyna að halda mig við ferðamálefnin. Mér hefur fundist umræðan leiðast inn á grundvöll fiskveiða og afkomu frystihúsa eða allt að því og ég vil gjarnan koma því hér skýrt að, það er ekki fyrir það að það eigi ekki fullan rétt á sér, sú umræða hér í þessari hv. þingdeild, heldur hitt fyrst og fremst að þarna er um tvo ólíka þætti að ræða, annars vegar ferðamálefni og hins vegar afkomu frystihúsa og fiskiðnaðarfyrirtækja úti á landsbyggðinni. Ég vek athygli á því að erlendis frá koma í dag beint inn á landsbyggðina 5--7% erlendra ferðamanna eða gerðu það á sl. ári. Á þessum stað sem er mín heimabyggð hefur mestallt verið gert fyrir tilstuðlan heimamanna og oft og tíðum fyrir eigið fé. Ríkisvaldið hefur að sáralitlu leyti komið inn í það mál og þetta er byggðamálefni og þetta er ferðamálefni.
    Ég vek athygli á því að fyrir dyrum stendur nú að gera Egilsstaðaflugvöll að millilandaflugvelli. Það er alveg gífurlega stórt og mikið mál í hugum okkar sem þessi ferðamálefni hafa stundað. Það verða ekki 5 eða 7% ferðamanna sem koma beint inn á landsbyggðina

þegar þetta verður, ekki ef það verður heldur þegar það verður, það verða ekki 5 eða 7% heldur vonandi 20--30% af erlendum ferðamönnum sem koma beint inn á landsbyggðina til þess að njóta landsins okkar. Það skiptir nefnilega engu máli hvar ferðamennirnir koma til landsins, hvort þeir koma beint inn til Norðurlandsins, Austurlandsins eða hér inn á Reykjanesskagann. Þetta er afar mikið mál í huga þeirra sem úti á landinu búa því að það er staðreynd að þeir sem búa hér á þessu svæði hafa mun meiri möguleika til þess að stýra og stjórna fólki, hvar það fer og hvar það eyðir sínum fjármunum eins og málum er háttað í dag. Þess vegna er það gífurlega mikið málefni og ekki síst sú áætlun sem gerð hefur verið nú um jarðgöng, bæði á Vestfjörðum og væntanlega á Austurlandi. Þarna er einnig alveg gífurlegur vaxtarbroddur í framtíðinni sem mun áreiðanlega auka okkar möguleika bæði fyrir vestan og austan, að bjóða ferðafólki upp á allt annað heldur en gert hefur verið í dag. Þetta vil ég að komi hér fram skýrt og skilmerkilega. Ekki það að ég sé á móti því að menn ræði hér skólamálefni eða menntamálefni eða heilbrigðismálefni. Þau eru svo bara lítill hluti af því sem hér var til umræðu þó að þau vissulega snerti hana þegar verið er að tala um landsbyggðarmálefni.
    Ég get ekki skilist svo við þetta málefni að ég taki ekki almennt undir það að málefnum ferðaþjónustu í landinu almennt sé sinnt betur en gert hefur verið hér af fjárveitingavaldinu og bendi á að ítrekað hafa menn komið á fund fjvn. sem því miður hefur hingað til eftir því sem mér skilst daufheyrst við sjálfsögðum og eðlilegum bónum þeirra sem með þau mál fara. Þetta vildi ég að kæmi fram hér í lokin út af þeirri umræðu sem fram hefur farið.