Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Það mun koma fram hér í upptökutækjum hvernig hv. þm. Stefán Guðmundsson tók til máls hér í ræðu sinni áðan. ( Gripið fram í: Sem betur fer.) Ég skrifaði eftir hv. þm. m.a. þetta, í sambandi við framleiðslumál og framleiðsluatvinnugreinarnar í strjálbýlinu og hvernig mundi til takast í sambandi við það að styrkja stöðu þessara meginatvinnugreina sem hann greindi frá. Þá sagði hv. þm. orðrétt, en það kemur þá fram á segulböndum ef það er ekki rétt eftir honum haft, að hann óttaðist að það tækist ekki. Orðrétt sagði hv. þm. þetta.
    Vegna orða hv. þm. um það að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar takist svona miklu betur en ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar að styrkja stöðu atvinnuveganna vil ég hins vegar segja þetta: Hv. þm. Stefán Guðmundsson og þingmenn Framsfl. tóku þátt í því í ársbyrjun 1986 að gera sátt við íslenska verkalýðshreyfingu og helstu samtök vinnuveitenda um það að reyna að tryggja kaupmátt launa. Sáttin byggðist á því að reyna að tryggja, eins og um var samið í febrúarsamningunum 1986 við verkalýðshreyfinguna, að sá kaupmáttur héldist sem mest og best, m.a. með stöðugu gengi. Þetta var yfirlýst og undirrituð stefna þessara aðila. Um það getur hv. þm. Karvel Pálmason fjallað hér með sama hætti og ég.
    Það er svo annað mál að ytri aðstæður gerðu það ókleift upp úr miðju ári 1987, vegna markaðsaðstæðna erlendis, að standa við þá stefnu. Það var e.t.v. of seint að ákveða að breyta um stefnu sem hefði þýtt það sem núv. ríkisstjórn er að kalla yfir þjóðina með miklu harkalegri hætti en þurft hefði að vera. Ef það er árangur sem hv. þm. Stefán Guðmundsson og Framsfl. vill státa af, að hafa fellt gengið trekk í trekk með þar af leiðandi kjaraskerðingu fyrir fólkið, ef það er stefna að hækka skatta og auka ríkisútgjöld, ef það er stefna ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar sem fólk er að upplifa nú, að auka á atvinnuleysi, þá segi ég: Þetta er vond ríkisstjórn, þetta er vond stefna fyrir íslenska þjóð. Þess vegna held ég að hv. þm. ætti ekki að tala með þeim hætti sem hann gerði hér áðan, að ráðast að fráfarandi ríkisstjórn, ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, með þeim hætti sem hann gerði, vegna þess að núv. ríkisstjórn hefur ekki staðið við sín loforð, hún hefur ekki getað tryggt undirstöðuatvinnugreinarnar, eins og hv. þm. sagði sjálfur, og það sem verra er, hún mun ekki geta það í nánustu framtíð, þannig að þeir erfiðleikar sem við horfum upp á í dag munu versna til muna, því miður.