Stimpilgjald
Miðvikudaginn 18. október 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir skýr svör af hans hálfu um afstöðu Framsfl. Það má ráða af þessu svari að í raun og veru hefði verið hægt að afgreiða þetta mál þegar á síðasta þingi því fyrir því er greinilega meiri hluti hér í þinginu. En í frv. hæstv. ríkisstjórnar til fjárlaga segir á einum stað að flutt verði frumvörp eða frumvarp sem feli í sér endurmat á stimpilgjöldum. Það verður hins vegar ekki ráðið af fjárlagafrv. sjálfu hvort þar er gert ráð fyrir minni tekjum af stimpilgjöldum en verið hefur. Það er rétt sem fram kom hjá hv. flm. að stimpilgjöld af hlutabréfum eru óverulegur eða a.m.k. tiltölulega lítill hluti af þeim tveimur milljörðum sem ríkið gerir ráð fyrir að hafa í heildartekjur af stimpilgjöldum, en ég hygg að það sé til frekari fyrirgreiðslu um framgang málsins í nefnd að það liggi ljóst fyrir hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að standa að málflutningi og tillöguflutningi á þessu sviði. Það er boðað að hæstv. ríkisstjórn flytji frv. í tengslum við fjárlagafrv. Það hefur ekki enn verið gerð grein fyrir því með hvaða hætti, það hefur ekki enn verið gerð grein fyrir því hvort það frv. felur í sér að dregið verði úr heildarskattheimtu með stimpilgjöldum. Hins vegar kemur hér fram frv. frá einum stjórnarflokkanna. Það er því enn spurning sem stendur til hæstv. fjmrh. hvernig hann ætlar að standa að verkstjórn þessa máls, hvort hæstv. ríkisstjórn ætlar að flytja annað mál og hvort það á að ná til og taka yfir það frv. sem þrír hv. þm. Framsfl. hafa flutt eða hvort stjórnarflokkarnir flytji hver fyrir sig frv. á þessum sviðum.
    Ég held að það væri mjög til glöggvunar og skýringar fyrir þingmenn sem fá nú þessi mál til meðferðar að vita hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að standa að flutningi mála í framhaldi af þeim yfirlýsingum sem hér liggja fyrir frá hæstv. forsrh. og þeim yfirlýsingum sem fylgja í athugasemdum með fjárlagafrv.