Byggingarlög
Miðvikudaginn 18. október 1989


     Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að vísa því á bug sem að hefur verið látið liggja, að þessi frumvarpsflutningur eigi rætur að rekja til einhverra sérstakra deilna eða sérstakra mála sem upp hafi komið milli ákveðinna sveitarfélaga og félmrn. Í mínum huga er hér um talsvert meginmál að ræða sem er alveg óháð því hvernig samskipti einstakra sveitarfélaga við hæstv. félmrh. hafa verið.
    Ég tel líka að það sé ekki rétt sem hæstv. ráðherra sagði, að í þessu máli mínu sé felldur dómur um það að félmrh. misnoti vald sitt eins og hún orðaði það í sinni ræðu. Ég segi í grg. að mér finnist óeðlilegt að deilumál af þessu tagi séu lögð undir pólitískan ráðherra og hef þess vegna talið eðlilegt að málskotsréttur til ráðherra falli niður.
    Ég er gamall sveitarstjórnarmaður og held að ég geti mælt það af heilum hug að sveitarstjórnir, hvar sem er í landinu, fara auðvitað með málefni eins og byggingarmál og önnur mál af fullri og stakri samviskusemi. Og sveitarfélögin í landinu hafa á undanförnum árum vandað einmitt æ betur meðferð byggingarmála. Ætli það séu ekki nú aðeins örfá sveitarfélög í landinu sem hafa ekki annaðhvort sérstakan starfsmann eða aðgang að sérfróðum mönnum einmitt til þess að leiðbeina sér varðandi meðferð byggingarmála? Það eru svonefndir byggingarfulltrúar sem starfa í sveitarfélögunum eða þegar um smærri sveitarfélög er að ræða hafa mörg sveitarfélög oft komið sér saman um að ráða slíka menn.
    Menn tala um rétt einstaklingsins og að það sé nauðsynlegt að tryggja rétt einstaklingsins og þess vegna eigi hann að geta skotið máli sínu til pólitísks ráðherra. Hvernig stendur á því að í þessum eina málaflokki sem sveitarfélög fara með sé brýn nauðsyn á því að pólitískur ráðherra fari með ágreiningsefni sem upp kunna að koma annaðhvort milli borgaranna og sveitarstjórnanna eða á milli þeirrar nefndar sem fjallar um málið og sveitarstjórnarinnar? Hvað með allan annan þann aragrúa mála sem snerta mikilvæg réttindi borgaranna sem sveitarstjórnir hafa með að gera? Hvað með dagvistir barna, hvað með skólamál, hvað með hafnamál og þar fram eftir götunum? Hvernig stendur á því að í þessum eina málaflokki eigi félmrh. að hafa vald sem sé svona miklu æðra valdi sveitarfélaganna.
    Ég er eindregið þeirrar skoðunar að þetta sé bara ein af þessum gömlu reglum sem hefur dagað uppi í okkar stjórnkerfi. Það var ósköp eðlilegt, þegar sveitarfélögin voru veik og höfðu lítinn mannafla og þeirra starf var byggt á mjög veikum grunni, að menn litu á félmrn. sem eins konar stóru mömmu fyrir öll sveitarfélögin í landinu og þess vegna ætti stóra mamma að passa upp á sveitarfélögin í hinum ýmsu málaflokkum. Ég tel því að þetta ákvæði, sérstaklega varðandi byggingarmálin, sé raunverulega leifar gamals hugsunarháttar þegar menn í raun virtu ekki sjálfstæði sveitarfélaganna, þegar sjálfstæði sveitarfélaganna var

til á pappírnum en var ekki í raun, vegna þess að það þurfti einhvern til þess að halda í hendina á þeim og passa upp á að þau færu sér ekki að voða og tækju ekki rangar ákvarðanir.
    Nú er þetta allt breytt eins og ég gat um áðan, meira að segja í sveitarstjórnarlögunum sjálfum. Eins og fram kemur í grg. með frv. er búið að taka út ákvæði um það að sveitarstjórnir starfi undir yfirstjórn ríkisstjórnar eða félmrn. Alþingi er sjálft búið að taka upp þetta meginstefnumið þó að leifar af gamla hugsunarhættinum séu enn við lýði í hinum ýmsu lögum sem stafa frá eldri tíma.
    Ég skal vissulega viðurkenna að upp kunna að koma dæmi um það að hinn almenni borgari telji sér nauðsynlegt að geta leitað réttar síns þar sem hann telur rétt á sér brotinn, annaðhvort af öðrum einstaklingi eða sveitarfélagi. Og hvert eiga menn möguleika á að leita í öllum öðrum tilvikum sem sveitarfélögin fjalla um eða í öllum öðrum tilvikum þar sem upp rís ágreiningur á milli einstaklinga í þessu þjóðfélagi? Það er til þessara voðalegu dómstóla sem allir eru að tala um, þessara hræðilegu stofnana þar sem lögfræðingarnir með þykku peningaveskin, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson orðaði það, ráða ríkjum. Þannig tala menn hér eins og dómstólarnir séu einhvers konar skrímsli, einhvers konar ófreskja í okkar þjóðfélagi. Dómstólarnir eru vörn litla mannsins, dómstólarnir eru vörn fólksins í landinu og því fer fjarri --- ég hef sjálfur verið starfaði lögfræðingur og rekið ótal mál fyrir dómstólum --- að venjuleg mál, eins og við getum sagt, tiltölulega einföld mál sem flest byggingarmál eru, séu svo voðaleg að menn eigi umfram allt að forðast þá. Ég vara við þessum áróðri sem menn halda uppi gegn dómstólakerfinu í landinu. Dómstólakerfið á að tryggja grundvallarréttindi borgaranna og þess vegna er það af og frá að halda uppi jafnneikvæðum áróðri eins og raun ber vitni. Ég fullyrði t.d. að dómstólar úti um land --- það kann að vera að það taki nokkuð lengri tíma hér í Reykjavík, þó hefur sá tími vafalaust styst mjög --- ég er sannfærður um að dómstólar afgreiða mál af þessu tagi bæði fljótt og vel.
    Það kemur auðvitað til greina líka, þó ekki sé um það fjallað sérstaklega í frv., að taka upp betri vörn fyrir borgarana en felst í dómstólunum, ef menn eru óánægðir með þá, eða felst í starfi umboðsmanns Alþingis og setja upp sérstakan stjórnlagadómstól, dómstól sem almenningur eigi kost á að leita til ef hann telji sig verða fyrir barðinu á stjórnvöldum, kerfinu, eins og það er oft kallað. Þess vegna finnst mér mjög rétt að hugleiða það rækilega, ekki endilega í sambandi við þetta mál, þó kemur það til greina, heldur í sambandi við ýmis önnur mál sem við fjöllum um hér, að settur verði upp hér á landi sérstakur stjórnlagadómstóll þar sem menn geti á styttri tíma og kannski með einfaldari hætti leitað úrskurðar í málefnum sem snerta borgarana og stjórnvöldin.
    Ég held að versti kosturinn af öllum sé sá sem nú ríkir að pólitískur ráðherra fari með þetta mál. Menn

mega ekki misskilja mig að ég sé sérstaklega að tala um hæstv. félmrh. sem nú situr, í þessu sambandi. Ég býst við að embættismenn ráðuneytis sem um þessi mál fjalla vinni sín störf af stakri samviskusemi. Við megum ekki gleyma því að úrskurðir félagsmálaráðherra í gegnum tíðina í málum af þessu tagi hafa oft verið mjög umdeildir og umdeilanlegir einmitt vegna þess að ráðherra þarf að taka afstöðu í málum sem snerta t.d. pólitíska samherja í sveitarstjórn, hverjir sem það eru á hverjum tíma, eða pólitíska andstæðinga í sveitarstjórn. Þess vegna held ég að langversti kosturinn sé valinn af þeim sem við eigum úr að velja varðandi byggingarmálin og það er einmitt af þeim sökum sem ég hef lagt þetta frv. fram. Ég skal að vísu viðurkenna að ég hef ekki farið út í svo rækilega lögfræðilega skoðun, hvorki á sveitarstjórnarlögum né skipulagslögum, að það skipti ekki máli, hvort þessi breyting verður gerð eða ekki, að félmrn. hafi engu að síður þennan rétt samkvæmt öðrum greinum laga, en þá er bara að skoða það í nefnd og þá lagfæra önnur lög sem þetta snertir ef menn féllust á þessi sjónarmið.
    Ég er hins vegar eindregið þeirrar skoðunar og vil beina því til þeirrar hv. nefndar sem um þetta mál fjallar að fá sem víðtækastar umsagnir frá sveitarstjórnum um málið, bæði frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, frá landshlutasamtökum sveitarfélaganna og frá öllum stærri eða öllum þéttbýlissveitarfélögum, við getum sagt öllum kaupstöðum landsins, þannig að við fáum í gegnum þær umsagnir nokkuð glöggt yfirlit yfir sjónarmið sveitarstjórnarmannanna sjálfra um þetta mál. Það eru þeir sem fjalla um þessi mál frá degi til dags og því æskilegt að fá umsagnir þeirra um málið.