Byggingarlög
Miðvikudaginn 18. október 1989


     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Þar sem hv. flm. virtist misskilja mín orð og taldi að ég hefði verið með áróður gegn dómstólum, þá er það nú ekki rétt. Ég álít mjög mikilvægt að dómstólar gegni skyldu sinni. Ég álít líka mjög mikilvægt að fyrir dómstólunum verði ekki að þvælast hin smæstu mál samfélagsins sem hægt er að ná friði um með auðveldum hætti.
    Ég talaði um lögfræðingana með þykku veskin og ég veit að það er dýrt fyrir litla manninn að fara í málaferli. Ég kynntist því á dögunum að ágætur vinur minn hafði til að ná rétti sínum farið fyrir dómstólana með mjög einfalt mál sem hann tapaði þar. Það snerist um litlar tíu þúsund krónur. Þegar hann hafði hins vegar lokið margra mánaða baráttu og tapað málinu stóð hann frammi fyrir því að þetta kostaði hann 150 þús. kr. Þessi kostnaður hafði fallið á málið.
    Ég minnist þess að flokksbróðir flutningsmannsins, sem er starfandi sýslumaður, var að segja frá því í fjölmiðlum hversu mikla áherslu hann legði á í starfi sínu að forða fólki frá því að þurfa að þvælast með öll hin smæstu mál fyrir dómstólana og hann sagði sögu af því að eitt sinn sá hann fyrir sér að það yrði dómstólamál að sauðkind fór inn í garð nágrannans. Hann lagði það mikið á sig til að ná sáttum í málinu og það þyrfti ekki fyrir dómstóla að hann komst að samkomulagi um það við sauðfjáreigandann og hinn sem fyrir tjóninu varð að kindinni yrði slátrað um haustið og skipt milli tjónþola og eigandans. Þetta var sýslumaður og þannig þekki ég störf sýslumannanna um allt land að þeir hafa leyst hin ólíklegustu mál með sátt og friði. Og það er auðvitað oft gott að borða óvin sinn og það er hin gamla regla sem oft hefur viðgengist eða viðgekkst hér áður fyrr.
    En hér hefur flm. lagt mjög mikið upp úr hættunni af hinum pólitíska ráðherra. Víst er það að allir þeir menn sem veljast til að verða ráðherrar koma frá stjórnmálaflokkum, en þegar vandamálin ber að hygg ég að við höfum, Íslendingar, verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fyrir þá menn sem hafa valist í þau störf að verða ráðherrar og fást við að skera úr málum gagnvart litla manninum í samfélaginu skiptir pólitík engu máli. Þá eru þeir Þorgeir Ljósvetningagoði sem skoða lögin, sem leggjast undir feld, sem finna lausn sem menn jafnan sætta sig við. Þess vegna legg ég áherslu á það sem ég gat um hér áðan, að menn rífi þetta eina atriði ekki út úr heildarlögunum, heldur bíði þá þess að þau verði skoðuð í heild sinni.
    Ég ítreka það hins vegar, ég ber fulla virðingu fyrir dómstólum, legg áherslu á að þeir séu vel virkir en séu ekki yfirhlaðnir af hinum smæstu málum sem má leysa í friði manna á milli því að það er rétt sem ráðherrann sagði hér áðan, að það yrði oft að bíða lengi eftir að dómstólar felldu dóma, kannski þrjú, fjögur ár.