Húshitunarkostnaður
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 8 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. um húshitunarkostnað. Fyrirspurnin er svohljóðandi:
,,1. Hversu mikill munur er á húshitunarkostnaði sambærilegs íbúðarhúsnæðis hjá viðskiptavinum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða annars vegar og Hitaveitu Reykjavíkur hins vegar?
    2. Hversu mikið yfirtók ríkissjóður í sumar af skuldum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða og hve mikið lækkaði raforkuverð vegna þessara aðgerða?
    3. Til hvaða annarra aðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa á næstunni til að jafna húshitunarkostnað?``
    Sem kunnugt er hefur mismunandi húshitunarkostnaður í landinu um langt skeið verið eitt tilfinnanlegasta atriðið í mismunun gagnvart þegnunum í landinu. Í málefnasamningi þeirrar ríkisstjórnar er nú situr er tekið á þessum þætti með svofelldum orðum undir kaflanum um byggðamál:
    ,,Gerðar verða ráðstafanir til jöfnunar á flutningskostnaði og kostnaði við síma, húshitun og skólagöngu.``
    Þarna er heitið aðgerðum og mér er kunnugt um það af fréttum frá sl. sumri að ríkisstjórnin tók á miklu vandamáli sem var upphleðsla skulda og tilheyrandi rekstrarerfiðleikar hjá þeim raforkufyrirtækjum sem sjá dreifbýli fyrir raforku, þar á meðal til húshitunar, og í þessari fsp. leyfi ég mér að óska eftir upplýsingum frá hæstv. ráðherra um þá aðgerð og það sem henni tengdist varðandi gjaldskrár, en einnig um núverandi stöðu þessara mála því að eftir því er mikið spurt hvað gert hefur verið, hvað stendur til í þessum efnum.