Húshitunarkostnaður
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Austurl. hefur beint til mín fsp. í þremur liðum. Í fyrsta lið fsp. var spurt: ,,Hversu mikill munur er á húshitunarkostnaði sambærilegs íbúðarhúsnæðis hjá viðskiptavinum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða annars vegar og Hitaveitu Reykjavíkur hins vegar?``
    Það er erfitt að gefa við slíkri spurningu einhlítt svar. Mat á kostnaði við hitun húsnæðis er margslungið mál eins og ég veit að hv. fyrirspyrjandi þekkir vel. Meðal þeirra atriða sem hafa og eiga að sjálfsögðu að hafa áhrif á hitunarkostnaðinn er grunnverðið á orkunni. Þar sem orkuverðið er hátt, þá nýtir notandinn væntanlega betur orkuna, t.d. með betri einangrun. Annað atriði sem torveldar slíkan samanburð er að oft er hér um mismunandi orkuform að ræða, annars vegar rafmagn þar sem orkunotkun er mæld beint og hins vegar heitt vatn þar sem verður að áætla hversu mikil orka fæst úr vatninu.
    Með slíkum fyrirvörum mun ég miða mitt svar við það að verið sé að hita upp 490 rúmmetra einbýlishús, að verðmunurinn hafi ekki áhrif á orkunotkunina, sem auðvitað er í óhag svæðunum úti um land, og góða nýtingu á heita vatninu. Þegar ég gef mér þessar forsendur þá má áætla að upphitunarkostnaður hjá notendum Rafmagnsveitna ríkisins sé nú um 2,5 sinnum sá sem er hjá Hitaveitu Reykjavíkur, en hjá Orkubúi Vestfjarða um það bil 2,3 sinnum kostnaðurinn í Reykjavík. Það er ekki auðvelt að lýsa þessu máli með einni tölu, eins og ég nefndi, en þetta ætti að gera hugmynd um afstöðurnar.
    Annar liður fsp. hljóðaði svo: ,,Hversu mikið yfirtók ríkissjóður í sumar af skuldum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða og hve mikið lækkaði raforkuverð vegna þeirra aðgerða?``
    Ég vil taka það fram að þann 13. júlí sl. skrifaði ég ásamt fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs undir samninga við Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða um yfirtöku ríkissjóðs á langtímalánum fyrirtækjanna og ýmsar ráðstafanir sem voru því tengdar. Þessir samningar sem heimilaðir voru í 6. gr. fjárlaga fyrir þetta ár fólu í sér að ríkissjóður yfirtók 1415,6 millj. kr. af langtímaskuldum Rarik og um 588,2 millj. af langtímaskuld Orkubús Vestfjarða. Þetta er hvort tveggja miðað við eftirstöðvar lánanna 31. des. 1988 og er á verðlagi þess dags, þannig að miðað við daginn í dag væru þetta verulega hærri fjárhæðir. Þannig yfirtók ríkissjóður því rúmlega 2 milljarða kr. af skuldum þessara fyrirtækja.
    Samningurinn við Rarik fól líka í sér að veiturnar fengu afhent að nýju skuldabréf til eignar að fjárhæð 1023 millj. kr. vegna sölu raforkumannvirkja á Suðurnesjum. Þetta skuldabréf mun gefa Rarik um 50 millj. kr. viðbótartekjur á ári nokkur næstu ár. Í þessum samningi var það líka áskilið að heimilis- og iðnaðartaxtar í gjaldskrám Rafmagnsveitnanna og Orkubúsins skyldu lækka um 5% frá 1. ágúst sl. Það varð líka raunin. Hins vegar vil ég benda á það að hefði ekki komið til þeirrar miklu skuldayfirtöku sem

ég hef lýst hefði þurft að hækka allar gjaldskrár fyrirtækjanna verulega og má meta það svo að þær hefðu þurft að hækka, þ.e. öll gjöld í skrám fyrirtækjanna, um 12--15% ef þetta hefði ekki komið til. Þetta er að sjálfsögðu mjög umfangsmikil aðgerð. Í þessum samningum lýstu aðilarnir því yfir að með þessum ráðstöfunum hefði að fullu verið staðið við álit verðjöfnunargjaldsnefndar um að mæta tekjutapi þessara fyrirtækja vegna niðurfellingar verðjöfnunargjalds samkvæmt lögum nr. 3/1986, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, verðlags- og lánsfjármálum 1986. Ég tel að með þessum aðgerðum hafi verið stigið mikilvægt skref til að jafna orkukostnað í landinu og um leið var verið að efna meira en þriggja ára gamalt fyrirheit sem fyrri ríkisstjórnir höfðu ekki efnt.
    Í þriðja og síðasta lið fsp. er spurt: ,,Til hvaða annarra aðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa á næstunni til að jafna húshitunarkostnað?``
    Ég vil í þessu sambandi minna á það að á þessum áratug hefur í raun og veru mikið áunnist í jöfnun húshitunarkostnaðar. Ég bendi á að í upphafi áratugarins, t.d. á árunum 1980--1983, var hitunarkostnaður hjá þeim sem notuðu rafmagn frá Rafmagnsveitum ríkisins eða Orkubúi Vestfjarða um fimm sinnum sá sem var hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Þannig hefur þetta nú verið lækkað um helming eða komið niður í 2,5 eins og ég lýsti áðan. Ég hef látið fara fram athugun á vegum Hagfræðistofnunar Háskólans á sköttum af orku og niðurgreiðslum og áhrifum ýmissa aðgerða stjórnvalda á þessum áratug. Ég vænti þess að geta á grundvelli þeirrar athugunar gert tillögur um það hvað sé heppilegast að gera til að jafna hitunarkostnaðinn. Ég bendi á að á þessum áratug sem ég nefndi áðan hefur verið yfirtekið geysimikið af skuldum raforkukerfisins og lagt á almenna skattborgara. Ég geri ráð fyrir því að gjaldskrár þeirra fyrirtækja sem njóta þessarar léttingar á skuldum þyrftu að vera 50--100% hærri hefði þessum skuldum ekki verið af þeim létt. Ég tek það fram að hér er ekki um nákvæmar tölur að ræða, en stærðarhlutföllin virðast vera slík. Ég bíð eftir endanlegum skýrslum Hagfræðistofnunar Háskólans.
    Ég vil þó ekki skilja við þetta mál án þess að nefna það að nú fara líka fram viðræður á vegum iðnrn. og Landsvirkjunar um fjölgun sölupunkta í stofnlínukerfinu þannig að rafveitur landsins kaupi rafmagn í heildsölu eftir sömu gjaldskrá. Ég stefni að því að þetta geti orðið í áföngum á nokkrum næstu árum.
    Ég vona, hæstv. forseti, að með þessu hafi ég svarað, eftir því sem föng eru á, þeim þremur spurningum sem til mín var beint.