Húshitunarkostnaður
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Mér finnst ástæða til þess að hugleiða það, úr því það er tækifæri til þess, í sambandi við orkumál hvers vegna orkan er svona dýr. Hvers vegna er orka til húshitunar svona dýr jafnt sem annað? Það er auðvitað vegna þess að það hefur verið offjárfest undanfarin ár eða jafnvel áratugi í orkuverum án þess að orkan hafi verið seld. Menn skyldu ekki láta sér detta til hugar að það þyrfti ekki að borga brúsann. Það hefur verið fjárfest og fjárfest og fjárfest og ekkert verið hugsað um að selja það. Þess vegna er nú kerfið í þeirri kastþröng að neyðast til þess að hækka orkuverð á landsmenn, svo geðslegt sem það nú er. En svona er nú uppskera sósíalismans. Svona er hún akkúrat.
    Ég verð nú að segja það að ég vona þó svo sannarlega að hæstv. núv. iðnrh. takist að selja þessa orku. Það er kjarni málsins. Ég ætla ekki að ræða um það hér nú hvað er búið að fjárfesta mikið en það eru gígantískar upphæðir.