PCB-mengun
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 9 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbrrh. um PCB-mengun. Þar er spurt:
,,1. Hversu víða hefur orðið vart við PCB-mengun hérlendis og í hvaða mæli?
    2. Til hvaða ráðstafana hefur verið gripið til að koma í veg fyrir meiri mengun af völdum PCB-efna?
    3. Hvaða rannsóknir fara fram eða eru fyrirhugaðar til að fylgjast með PCB-mengun?``
    Það er nú rétt tæpt ár liðið frá því að hæstv. ráðherra svaraði fsp. sama efnis sem ég bar fram í byrjun síðasta þings. Ástæðan fyrir því að hér er spurt aftur er það sem gerst hefur síðan. Á þessum tíma var aðeins vitað um PCB-mengun á örfáum stöðum á landinu, tveimur stöðum á Austfjörðum og var það út af fyrir sig nógu alvarlegt, en síðan hafa komið fram upplýsingar um mjög verulega mengun þessara hættulegu efna víðar á landinu, þá sérstaklega hér í Reykjavík.
    Mér er fyllilega kunnugt um góð viðbrögð hæstv. heilbrrh. varðandi þessi mál fyrir ári þegar hann gaf út reglugerð um innflutning, notkun og förgun PCB-efna og er það allt góðra gjalda vert. En málið hefur vaxið að umfangi síðan þessi reglugerð var sett og nauðsynin á að geta rækt viðunandi eftirlit og rannsóknir er meira knýjandi en nokkru sinni áður af þessum sökum og Alþingi þarf auðvitað að tryggja að fjármagn fáist til nauðsynlegra rannsókna og eftirlits. Það er m.a. með þetta í huga að ég hér í byrjun þings leyfi mér öðru sinni á einu ári að inna eftir stöðu þessa máls.