PCB-mengun
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 9 hefur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson beint til mín fsp. sem hann hefur nú gert grein fyrir og jafnframt rakið það að við höfum rætt þessi mál fyrr á þessu ári, á fyrra þingi, og auðvitað eru þær upplýsingar sem nú liggja fyrir að nokkru leyti í samræmi við það sem þá var en eins og fram kom í máli hans hafa líka nýjar upplýsingar komið fram.
    Fyrsti liður fsp. var: Hversu víða hefur orðið vart við PCB-mengun hérlendis og í hvaða mæli?
    Vart hefur orðið PCB-mengunar á tveimur stöðum á Austurlandi, á Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað. Enn fremur hefur orðið vart PCB-mengunar í jarðvegi og í spennaolíu á svæði fyrirtækisins Hringrásar við Sundahöfn í Reykjavík. Ekki reyndist þar vera um að ræða óleyfilegt magn PCB-efna samkvæmt reglugerð nr. 489 frá 1988 um innflutning, notkun og förgun PCB-efna. Samkvæmt þeirri reglugerð má styrkur PCB-efna í efnablöndum, varningi og tækjum vera allt að 2000 ppm, þ.e. milligrömm í kílói og reyndist PCB-mengun í olíu vera allt að 1660 ppm. Jarðvegur reyndist innihalda allt að 43,8 ppm. Grunur leikur á að förgun hafi átt sér stað víðar á sorphaugum hér á árum áður ef tekið er mið af því hvernig farið hefur verið með þétta sem innihalda PCB-efni. Er unnið að könnun á því máli á vegum Hollustuverndar ríkisins.
    Annar liður fsp. var: Til hvaða ráðstafana hefur verið gripið til þess að koma í veg fyrir meiri mengun af völdum PCB-efna?
    Förgun PCB-efna á ófullnægjandi hátt hefur ekki átt sér stað undanfarin tvö ár eða eftir að Hollustuvernd ríkisins var falið að kanna málið sérstaklega og eftir að sú stofnun tók að sér milligöngu um að flytja efnið til Skotlands til brennslu. Til að reyna að fyrirbyggja frekari mengun af völdum PCB-efna setti ráðuneytið reglugerð á síðasta ári, reglugerð nr. 498/1988 sem ég vitnaði til áðan um innflutning, notkun og förgun PCB-efna. Samkvæmt reglugerðinni er innflutningur og notkun PCB-efna bannaður með ákveðnum undantekningum þó. Undantekningarnar eru þær að Vinnueftirlit ríkisins getur að höfðu samráði við eiturefnanefnd veitt undanþágu frá banninu í þeim tilvikum þar sem önnur efni koma ekki í staðinn. Skal við veitingu undanþága taka fram til hverra nota efnin eru ætluð eða varningurinn eða tækin sem hafa þau að geyma. Varðandi förgunina segir að þar til sett hafi verið ákvæði í reglugerð skv. 22. gr. laganna nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni, um förgun eiturefna og hættulegra efna, megi eingöngu farga PCB-efnum að fengnu leyfi Hollustuverndar ríkisins sem hefur um förgunina samráð við Vinnueftirlit ríkisins, eiturefnanefnd og Náttúruverndarráð. Ráðuneytið telur að með þessum reglum eigi að vera tryggt að ekki séu flutt inn PCB-efni nema í undantekningartilvikum og að meðferðin sé þá í samræmi við lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum

og að rétt sé að förgun efnanna staðið, en eins og áður kemur fram hefur hún eftir gildistöku reglugerðarinnar eingöngu farið fram erlendis.
    Þriðji liður fsp. var síðan: Hvaða rannsóknir fara fram eða eru fyrirhugaðar til að fylgjast með PCB-menguninni?
    Til viðbótar þeim rannsóknum og athugunum sem fram fóru á Austurlandi í fyrra og gerð var grein fyrir hér á Alþingi fyrir ári síðan hefur Hollustuvernd ríkisins í samræmi við ákvörðun ráðuneytisins fylgst með mengun á Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað. Enn fremur hafa rannsóknir farið fram í Sundahöfn eins og áður er greint. Frekari rannsóknir fara fram þessa dagana á jarðvegi í Sundahöfn og hljóta niðurstöður þeirra að ákvarða um framgang málsins. Ekkert bendir hins vegar til þess að mengun sé þar yfir þeim mörkum sem kveðið er á um í áðurnefndri reglugerð. Hins vegar kann að vera að nauðsynlegt sé að breyta gildandi reglum um hámark PCB-efna sem farga má á völdum stöðum án sérstakra ráðstafana. Í þessu tilviki er rétt að benda á að þær reglur sem settar voru hér í fyrra taka mið af töluvert hærri gildum en t.d. í Danmörku, Bandaríkjunum, Kanada og Hollandi en í þessum löndum er hámark nokkru lægra, reyndar í sumum tilfellum mikið lægra en hér á landi. Enn fremur kemur til greina að setja sérstakar reglur um hámark PCB-efna í jarðvegi en engar slíkar reglur hafa verið settar enn sem komið er. Ráðuneytið hefur farið þess á leit við Hollustuvernd ríkisins að stofnunin kanni ofangreinda þætti sérstaklega með hliðsjón af því hvort hertar reglur hafi í för með sér veigamiklar og kostnaðarsamar aðgerðir til upprætingar PCB-efna sem kunna að leynast hér í jarðvegi.
    Rétt er að geta þess að mengunarvarnadeild Hollustuverndarinnar hefur nú þegar sett fram tillögur um hertari reglur. Þær eru hins vegar ekki fullunnar og eru nú í nánari vinnslu og athugun hjá Hollustuvernd ríkisins og stjórn hennar.