Kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þarf nú ekki að taka það fram að ég styð þessa tillögu þar sem ég er einn af flm. hennar og kem hér upp til að leggja áherslu á eitt atriði sem tekið er fram í tillögunni en það er umferð kjarnorkuknúinna kafbáta og kjarnorkuknúinna skipa í og á höfunum. Það þarf ekkert að draga úr því að kjarnorkuafvopnun er mjög mikilvæg, en allt of lítil áhersla hefur verið lögð á umferð þessara báta sem bæði geta að sjálfsögðu borið kjarnorkuvopn, en þau eru ekkert síður hættuleg og kannski enn hættulegri, vegna þess að þau eru knúin kjarnorkuvélum.
    Eldsneyti í kjarnorkukafbátum er venjulega úraníum 235 sem hefur mjög langan helmingunartíma. Það er í sjálfu sér ekki mjög hættulegt ef hægt er að tala um mismun á því hversu hættuleg geislavirk efni eru. Það er alla vega ekki eins hættulegt og mörg önnur geislavirk efni eins og t.d. plútoníum sem er líka notað sem brennsluefni í ofnum. En við brennsluna á úraníum myndast efni, svo sem baríum, strontíum, cesíum, joð og fleiri, en þessi efni eru mjög hættuleg lífverum. Úraníumið sjálft er, eins og ég sagði áðan, ekkert sérlega hættulegt en þessi dótturefni sem koma fram við brennsluna eru mjög hættuleg ef þau berast inn í lífverur. Þau eru geislavirk og ganga inn í lífkeðjuna og eru t.d. tekin upp í staðinn fyrir kalk inn í beinin og inn í aðra lífeðlisfræðilega ferla í lífverunum. Það er því mikil ástæða til að óttast ef þessi efni berist út í sjóinn frá þessum bátum.
    Ástæður þess að bátar og kjarnorkukafbátar eru kjarnorkuknúin eru fyrst og fremst tvær. Það er vegna þess að þeir geta verið miklu lengur undir yfirborði sjávar þar sem miklu minna fer fyrir bræðsluefninu og þar af leiðandi þurfa þeir ekki að koma upp til að sækja efni auk þess sem þeir þurfa miklu sjaldnar að koma upp til að sækja súrefni. Hin ástæðan fyrir því að þeir, risaveldin sérstaklega, sem fara um höfin vilja nota kjarnorkuknúnar vélar er sú að þessar vélar eru mjög hljóðlátar. Það heyrist varla í þeim og þess vegna vilja þeir sem fara um höfin með kjarnorkukafbáta og kjarnorkuskip fara með þess konar vélar til þess að ekki heyrist í þeim. Þetta hefur verið að sjálfsögðu eitt af þeim vandamálum sem talað hefur verið um þegar verið er að leita að kjarnorkukafbátum. Og þess vegna tel ég mikla ástæðu til að óttast fjölgun þessara skipa.
    Þann 7. apríl sl. varð kjarnorkuslys við Bjarnarey eins og menn muna. Mikil óvissa var í tengslum við það mál, ekki kannski síst vegna þess að ekki var vitað hvaða brennsluefni var í vélunum. Það var að vísu einnig áhyggjuefni hvort þetta skip bæri kjarnorkuvopn, en aðaláhyggjuefnið var þó brennsluofninn sjálfur. Þess vegna er spurningin: Hvað er þá til ráða? Það eina raunhæfa sem ég held að sé í þessu máli, ef koma á í veg fyrir slys af þessu tagi, er að banna alla umferð kjarnorkuknúinna kafbáta og skipa hér við land, og auðvitað alls staðar, og beita áhrifum okkar á alþjóðavettvangi, eins og gert er ráð fyrir í þessari tillögu. Að við höfum frumkvæðið að

því að það verði algjör kjarnorkuafvopnun og jafnframt hætt að nota kjarnorku til að knýja kafbáta og skip.
    Ég tel fyllilega tímabært að við tökum á okkur rögg og vinnum að því að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og allri umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Okkur ber skylda til að taka þetta mál föstum tökum og hafa um það frumkvæði á alþjóðavettvangi.