Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Ég hafði fregnir af því í morgunsárið að hv. málshefjandi óskaði eftir því að ræða hér utan dagskrár tilhögun greiðslna til bænda fyrir haustinnlegg sauðfjárafurða og undirbjó mig undir að svara slíkum spurningum og mun halda mig við það hér þó að málshefjandi eyddi nú að mestu leyti tíma sínum í aðra sálma. En hvað um það.
    Þessu hefur verið þannig háttað á grundvelli búvörulaga frá 1985, laga nr. 46 frá því ári, með síðari breytingum, að Framleiðsluráð, sbr. þá lagagrein sem málshefjandi vitnaði hér í, 29. gr. nefndra laga, skal á hverju hausti setja reglur um greiðslutilhögun, en lögin sjálf kveða eingöngu á um það að frumgreiðsla fari fram 15. okt. til þeirra sem slátrað hafa fyrir þann dag og eigi síðar en 10 dögum eftir innlegg til annarra, og í öðru lagi að fullnaðargreiðsla haustgrundvallarverðs skuli fara fram eigi síðar en 15. des. Innan þessa ramma ber Framleiðsluráði að marka reglur um greiðslutilhögun.
    Framkvæmdin hefur verið sú að samþykkt Framleiðsluráðs frá árinu 1985 um 75% frumgreiðsluhlutfall hefur staðið óbreytt síðan þangað til í gær að Framleiðsluráð ákvað á fundi sínum 18. okt. að frumgreiðsluhlutfall nú skyldi vera a.m.k. 45% af haustgrundvallarverði en hækka síðan eftir því sem fjármögnun til sláturleyfishafa leyfði upp í 75% og skulu þær viðbótargreiðslur vaxta reiknaðar frá 15. okt. að telja.
    Þetta bréf fékk ég í morgun rétt fyrir kl. 10, rúmum tveim klukkustundum eftir að hv. málshefjandi hafði tjáð mér að hann hygðist taka málið upp utan dagskrár. Síðan eru tæpar tvær klukkustundir og ég hef því ekki haft ýkja langan tíma til að fara yfir efni þess, en skal þó reyna að svara því fyrir mitt leyti eins og ég get á þessu stigi.
    Þrátt fyrir það að reglur Framleiðsluráðs hafi verið óbreyttar frá haustinu 1985 hefur reyndin orðið sú, og það hygg ég að hv. alþm. sé kunnugt, að fæstir sláturleyfishafar hafa getað á réttum degi greitt það hlutfall inn á reikninga bænda. Þeir munu hafa reikningsfært það hlutfall í flestum tilvikum, en þó hafa verið frá því frávik og samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá Framleiðsluráði og Landssambandi sláturleyfishafa mun láta nærri til að mynda að á síðasta hausti hafi þetta hlutfall verið á bilinu 50--60%. Það má því segja að Framleiðsluráð hafi kosið að hafa þessar reglur óbreyttar þrátt fyrir að í reynd hafi ekki verið unnt að uppfylla þær hin síðustu ár og í raun og veru ekki frá upphafi.
    Það sem nú kemur til er m.a. það að staða ýmissa sláturleyfishafa er mjög slæm og það er kannski það alvarlegasta sem fyrir liggur í þessu máli að staða kaupfélaganna og afurðastöðvanna er mjög slæm um þessar mundir. Þar hefur verið taprekstur ár frá ári og þess vegna þyngst fyrir fæti að skila afurðaverðinu til bænda svo fljótt sem æskilegt væri. Ætla mætti að minni birgðir kindakjöts á þessu hausti sem nema

500--600 tonnum frá því sem var á síðasta hausti og minni framleiðsla sem ætla má að verði enn fremur 500--600 tonnum minni en var á síðasta hausti ætti að létta fjárbindingu hjá viðskiptabönkum í þessu tilviki, en niðurstaðan er engu að síður sú að viðskiptabankarnir treysta sér ekki í upphafi sláturtíðar að hafa lán út á 1. flokk dilkakjöts hærra en 230 kr. á kg af þeim 520 kr. sem óniðurgreitt heildsöluverð er á þessu hausti. Fullt lánaverð frá bönkunum ætti að vera 368 kr. en þetta lánshlutfall í upphafi sláturtíðar er svipað og var sl. haust. Þá hófu viðskiptabankarnir afurðalánafyrirgreiðsluna með 178 kr. á kg sem nú hefur hækkað í 230 og að því leyti til er staðan óbreytt frá fyrra hausti. Það verður unnið að því á næstu dögum að ná fram samkomulagi um að hækka þessar greiðslur þannig að sláturleyfishafar geti sem fyrst hækkað þetta hlutfall inn á reikninga bænda og ég mun hafa um það samráð við viðskrh. og fjmrh. sem eðli málsins samkvæmt hljóta að koma að þessu máli.
    Tímans vegna get ég ekki haft þetta svar ítarlegra en nýti mér e.t.v. síðari hluta ræðutíma míns í þessari utandagskrárumræðu á eftir.