Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka upphafsmanni þessarar umræðu fyrir að taka jafnbrýnt mál og þetta er upp. Þegar búvörulögin voru sett og búvörusamningurinn voru þau sett sem tvíhliða samningur milli stjórnvalda og framleiðenda, bænda, en það virðist því miður vera svo að hér sé um einhliða samning að ræða sem aðeins öðrum aðilanum er gert að uppfylla, þ.e. bændum. Þeir hafa staðið við þennan samning og dregið saman framleiðslu en það er skortur á því að hinn aðilinn, mótaðilinn, standi við sinn hlut. Það hlutfall sem nú á að skerða úr 75% niður í 45% hefur verið skert ár frá ári, í hvert einasta skipti, á hverju einasta ári, þannig að hér er aðeins verið að endurtaka fyrri hluti þó það sé farið fullgróft í sakirnar.
    Auðvitað er verið að gera bændur að vanskilamönnum með þessari aðgerð. Auðvitað hafa þeir gert sínar fjárhagsáætlanir með tilliti til þess að þessar greiðslur skiluðu sér til þeirra. Það má benda á það að jafnvel þessa dagana eru að berast greiðslur til bænda fyrir innlegg á síðasta hausti, svo illa standa stjórnvöld við sinn part af þessum samningi.
    Það er hlálegt að heyra bæði landbrh. og Gísla Karlsson, framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs, afsaka þessa aðgerð með því að bændur skuli fá greidda vexti á þá fjármuni sem koma seinna til skila. Þetta er svona álíka og að það mætti spyrja ráðherran eða þingmenn hér hvort þeir sætti sig við það að fá greidd hálf launin og hitt einhvern tíma seinna en með vöxtum. Ég er ansi hræddur um að menn mundu ekki sætta sig við slíka hluti hér inni. Stjórnvöld verða náttúrlega að fara að læra að standa við lög og samninga. Það skeður sí og æ að stjórnvöld þverbrjóta bæði lög og samninga. Fólk verður að geta treyst stjórnvöldum og treyst þeim samningum og þeim lögum sem hér eru sett eða samningum sem stjórnvöld gera. Þessu verður að breyta og það sem allra fyrst.
    Ég skora á hæstv. landbrh. að láta þetta ekki ganga yfir bændur. Ef ég man rétt stóð hann í svipuðum umræðum hér fyrir einu til tveimur árum og skildi þá vel málstað bænda og ég æski þess og vona að hann hafi sömu skoðun og stefnu og þá.