Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki leggja mat á það sem fram kom hér hjá hv. síðasta ræðumanni, aðdróttanir hans í garð hæstv. landbrh., en ég hygg að hv. þm. Pálmi Jónsson ætti að líta í eigin barm í sambandi við sinn feril sem ráðherra og ég held að menn ættu ekki að vera að metast um ferðalögin þó að margt mætti um þau segja.
    Það er hins vegar sannarlega af hinu góða að þingmenn hér á Alþingi taki upp mál sem varða bændastéttina í landinu og ekki síst sauðfjárbændur því að það hefur um langt skeið þrengt að þeim, jafnvel umfram það sem gerist hjá öðrum þjóðfélagsþegnum í þessu landi. Það hefur þurft á mörgum undanförnum árum, og þar koma margar ríkisstjórnir við sögu, að minna á það hér á Alþingi um hvað samið var í sambandi við búvörulög 1985, og ég hef staðið í þeim sporum að minna á þær reglur sem þar hafa gilt, m.a. við lokauppgjör í desembermánuði. Ég hygg að þörf sé á því fyrir þingmenn úr öllum flokkum sem horfa til sveitanna í landinu að standa að baki framkvæmdarvaldinu og þeim sem þar eru velviljaðir og fara með þessi mál. Ég er viss um að enginn efast um hug hæstv. landbrh. í þessu máli og viðleitni til þess að standa þar sem best á verðinum.
    Við tökum eftir því, og það hafa væntanlega hv. þm. Sjálfstfl. orðið varir við, að það er víða knúið á um það að þrengja markaðsstöðu íslenskra landbúnaðarafurða og að opna fyrir innflutning á landbúnaðarafurðum. Ætli hafi ekki heyrst einhverjar raddir um það á vettvangi Sjálfstfl. nýlega? Ég held að þetta sé umhugsunarefni fyrir okkur hér á Alþingi og við þurfum sannarlega að fylgjast með því sem er að gerast í dreifðum byggðum landsins þar sem hallar á meira en annars staðar í okkar landi á mörgum sviðum.