Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Ég tek hér undir orð þingmanna um það að það ber að harma að ekki stendur til að standa við lög og reglur. Ég hygg að skaði bænda sé mikill þegar slíkt gerist. Þeir hafa sjálfir gert ráð fyrir að þurfa að borga ýmsa hluti þegar þessir peningar bærust sem þeir töldu sig eiga vísa samkvæmt samningum, lögum og reglum. Ég treysti hæstv. landbrh. og ríkisstjórninni fullkomlega til að eiga við bankavaldið í þessu efni sem þarna hefur brugðist.
    Því verður ekki leynt að Egill bóndi mæðist hér í mörgu, að mínu viti, en mér finnst nú búsorgir hans víðar vera og nú skyldi hann að mínu viti berjast fastast heima á sinum eigin bæ því að þaðan hafa nú borist kaldastar kveðjur til bændastéttarinnar. Aldamótaplagg Sjálfstfl. boðar þann boðskap að nú skuli glufa opnuð og innflutningur hafinn. Ég hef séð nýkjörinn varaformann þeirra í fjölmiðlum þjóðarinnar þar sem hann sagði: Það verður ekki lengur hjá því komist að opna glufu og hefja hér innflutning á landbúnaðarafurðum og leggja niður kotungsbúskap. Þar með yrðu nú líklega 70--80% af sauðfjárbændum skornir við trog því að að mati höfðingjans munu þeir nú flestir vera kotungsbændur.
    Þarna eru nú þær köldustu kveðjur sem bændastéttin hefur fengið á síðustu vikum og við höfum auðvitað séð það að maðurinn sem stýrði vinnu aldamótanefndarinnar var verðlaunaður með því að gera hann að varaformanni flokksins. Við höfum séð að þessi maður stendur jafnan við orð sín. Þrátt fyrir allt byggir hann ráðhús í Tjörninni, hann byggir á tönkunum hvað sem allir segja. Að mínu viti þá er alvarlegasta glíman fram undan við Sjálfstfl. gagnvart landbúnaðarmálunum, þaðan hafa köldustu kveðjurnar komið en ég treysti núv. ríkisstjórn fullkomlega til að ganga í þetta erfiða mál sem hér er rætt og vinna það til sigurs bændunum til hagsbóta.