Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég skildi ummæli síðasta hv. ræðumanns svo að verslunarauðvaldið í Reykjavík hefði leikið bændur við Eyjafjörð verr en kaupfélagsauðvaldið við Eyjafjörð. Ætli það sé svo, hv. þm., að bændur megi treysta því að þeir fái sín innlegg greidd sem þeir hafa lagt inn hjá samvinnufélögunum á undanförnum árum? Ætli það sé svo að bændur geti haldið jörðum sínum við Eyjafjörð vegna þeirra skuldbindinga sem þeir hafa tekið á sig vegna samvinnuhreyfingarinnar? Ætlar samvinnuhreyfingin að bjarga bændum við Eyjafjörð, þeim sem eru í miklu ábyrgðum hennar vegna? Hv. þm. er í miklum trúnaði fyrir samvinnuhreyfinguna og áður en hann fer að varpa boltum að öðrum, að tala um að aðrir menn eigi að hreinsa til í sínum eigin garði hygg ég að hann ætti að athuga hvort það sé ekki orðið fullmikið drep í hans garði til þess að hægt sé að kalla hann blómagarð upp frá þessu.
    Ég tók eftir því hjá hæstv. landbrh. að hann hafði skömmu eftir að hv. 4. þm. Austurl. Egill Jónsson hringdi í hann í morgun rankað við sér að það væru einhver vandræði með það að bændur fengju afurðaverðið greitt eins og áður. Hann talaði um að hann hefði ekki fengið bréf frá Framleiðsluráðinu fyrr en klukkan tíu í morgun og talaði mikið um tímaskort þegar hann var að undirbúa sig undir þessa umræðu. Nú liggur dæmið þannig fyrir að hinn 15. okt. áttu bændur að fá sínar greiðslur. Framreiðsluráðið kom ekki saman til fundar fyrr en 17. okt. til þess að ákveða að skera greiðslurnar niður og landbrh. virðist ekki hafa frétt af þessu fyrr en 19. okt. og virðist ekki einu sinni hafa rankað við sér í gær þegar Morgunblaðið kom út og er þó baksíðan lögð undir þetta mál. Maður skyldi ætla að landbrh. hefði þá gert ráðstafanir til þess að fá samþykkt Framleiðsluráðsins, en svo virðist ekki hafa verið eftir ummælum hans áðan og er það vissulega dapurlegt að hann skuli ekki sýna þessum málefnum meiri áhuga en ummæli hans hér áðan sýndu nema hæstv. ráðherra hafi verið að afsaka sig og þá skil ég ekki í hverju sú afsökun hafi verið fólgin.
    Ég vil vekja athygli á því að í Morgunblaðinu eru höfð ummæli eftir Gísla Karlssyni, framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs. Þar tekur hann skýrt fram að ástæðan fyrir því að nú er lagt til að lækka greiðsluhlutfallið er sú að ríkissjóður hefur ekki staðið í skilum með 400--500 millj. kr. í útflutningsbætur vegna framleiðslu síðasta árs. Hér hafa staðið upp bóndi eftir bónda úr liði Framsfl. og þeir láta sig þetta engu skipta, þeir láta eins og þetta komi þeim ekki við og hæstv. fjmrh. sem veit að umræðan muni snúast um þetta vegna fréttarinnar í Morgunblaðinu og vegna þess hvernig málið er vaxið, hann kýs að vera fjarverandi hér í deildinni eins og vant er, hér í hinu sameinaða þingi. Lýsir þetta með öðru því virðingarleysi sem hæstv. ráðherrar bera fyrir Alþingi og bera fyrir bændastétt þessa lands.