Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til þess að koma inn á þau vandamál sem atvinnurekstur á Íslandi á við að etja þessa stundina. Þetta er aðeins einn angi af því stóra máli að atvinnulífinu á Íslandi er ætlað að standa undir þeirri vaxtakröfu sem peningahyggjumenn, sem hafa tröllriðið hér þjóðfélaginu undanfarin ár, ætlast til af því.
    Atvinnulíf á Íslandi hlýtur eðlis síns vegna að eiga erfitt uppdráttar. Við búum við þannig skilyrði að við getum ekki vænst þess að atvinnurekstur á Íslandi geti þolað það vaxtastig sem atvinnurekstur í hinum stærri iðnaðarþjóðfélögum í nágrenninu við okkur, þar sem t.d. skilyrði til landbúnaðar eru miklu hagstæðari en hér gerist, kannski þolir. Ég held þess vegna að það væri aðeins vert að koma inn á þátt viðskiptabankanna í þessari umræðu. Þeir eiga nefnilega hlut að máli vegna þess að það er raunverulega ákvörðun viðskiptabankanna, sem fara með afurðalán til bænda, að greiða aðeins út hluta af þeim greiðslum sem bændum eru ætlaðar nú eins og venja er á hverju hausti. Það rifjast nefnilega upp fyrir mér að fyrir allmörgum árum fóru öll afurðalán til bænda í gegnum Seðlabanka Íslands. Menn voru ekki ánægðir með þá meðferð mála en þó var hún viðunandi að mati flestra. Það voru fyrst og fremst þm. Sjálfstfl. sem börðust fyrir því á þingi að afurðalánin yrðu tekin frá Seðlabanka Íslands og færð til viðskiptabankanna. Töldu þeir það vera í anda þeirrar nýfrjálshyggju sem hefur einkennt málflutning Sjálfstfl. undanfarin ár, að bændur ættu frekar að eiga og ráða sínum viðskiptum við sjálfstæða viðskiptabanka. Það voru þó margir úr röðum Sjálfstfl. sem vöruðu eindregið við þessari breytingu á sínum tíma og töldu að hún gæti komið bændum í koll. Nú sýnist mér það vera að sannast, nákvæmlega það sem menn vöruðu við á þeim árum, að bændur væru verr settir með það fyrirkomulag að þurfa að treysta á náð viðskiptabankanna um afurðalánin eins og nú er að gerast. Það er því miður að verða þannig að viðskiptabankar vilja helst ekki lána atvinnulífinu af því að viðskiptabankarnir hafa orðið ótrú á íslensku atvinnulífi. Því aðeins að viðkomandi geti lagt fram örugg og trygg fasteignaveð hér í höfuðborginni er von til þess að viðskiptabankarnir vilji eitthvað við hann tala.