Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Hæstv. forseti. Ég mun verða við tilmælum forseta og gera hér aðeins örstuttar athugasemdir.
    Í fyrsta lagi varðandi ummæli hv. 2. þm. Reykv. um að við höfum vitnað hér framsóknarþingmenn í landsfund Sjálfstfl. Við nefndum hann ekki á nafn. Það sem við vitnuðum í eru störf og skrif málgagns Sjálfstfl. og það er vinna sjálftæðismanna innan sinna hagsmunasamtaka hvar sem þeir koma því við sem beinist öll að því að brjóta niður innlenda landbúnaðarframleiðslu. ( Gripið fram í: ... Þetta er rangt.)
    Í öðru lagi það sem hv. 2. þm. Norðurl. sagði hér áðan varðandi það að ég hefði trúnað innan samvinnuhreyfingarinnar og það segi ég, þau fyrirtæki sem ég hef fyrri trúnaðarstörf við, hafa staðið við allar skuldbindingar varðandi greiðslur til bænda og ég minni hann líka á það að gjaldþrot afurðasölufyrirtækja er háalvarlegt mál og þau eru ekkert bundin við fyrirtæki samvinnumanna.