Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Karl Steinar Guðnason:
    Virðulegi þingforseti. Það er mjög broslegt að heyra þá þm. Sjálfstfl. verja eða vandræðast með stefnu sína í landbúnaðarmálum. Hún þarfnast náttúrlega útskýringa líkt og stefnan í sjávarútvegsmálum, það er allt á huldu, stefnan er á reiki.
    Alþfl. hefur haft miklar áhyggjur af því hversu landbúnaðurinn er óhagkvæmt rekinn og hvað ríkisvaldið þarf að greiða mikið til þess að bændur geti haft viðunandi kjör. Við höfum bent á að það þurfi breytinga við. Við þurfum að stökkva inn í nútímann frá fortíðinni til framtíðar í þessum efnum og við erum alveg óhræddir við að halda því fram.
    Við höfum m.a. bent á það sumir hverjir að það sé ástæða til þess að opna glufu, eins og stendur í aldamótaplaggi sjálfstæðismanna, fyrir innflutning á landbúnaðarvörum fáist verðið ekki niður.
    Sú umræða sem hér fer fram fjallar um að það sé verið að brjóta lög á bændum Það má vera, en ætli það sé ekki vegna þess að meiri peningar eru ekki til. Eru þá sjálfstæðismenn að biðja um nýjan skatt, nýja tekjuöflun? Það má vera að svo sé. Nýjan landbúnaðarskatt og er það mjög athyglisvert hvernig það er sett fram.
    Ég vil vekja athygli á því um leið og við ræðum þessi mál að enginn hefur áhyggjur af því þó sjómenn þurfi að bera minna úr býtum vegna minnkandi fiskveiða, minni kvóta. Enginn hefur áhyggjur af því þó fiskverkafólk sé hundruðum saman atvinnulaust hér á suðvesturhorninu. Ég vil aðeins árétta það að við erum óhræddir við að benda á það að landbúnaðurinn þarf að fara frá fortíðinni yfir í framtíðina og við viljum leita allra leiða til þess. Verð á landbúnaðarvörum er of hátt og það verður að gera alla mögulega hluti til þess að lækka það.