Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég kannast ekki við það málgagn Sjálfstfl. sem hv. þm. Framsfl. talaði um hér áðan, 5. þm. Norðurl. e., en hann má þar vel úr húsi tala um málgögn flokka því að hann er í blaðstjórn Dags á Akureyri sem nú hefur farið fram á það að Byggðasjóður leysi málgagnið undan skuldbindingum sínum sem það tók á sig með því að reisa það prentsmiðjuhús sem þetta ágæta blað á ásamt Kaupfélagi Eyfirðinga niðri við Strandgötu.
    Ég vil í öðru lagi taka undir að það er auðvitað alvarlegt mál þegar afurðasölufyrirtæki verða gjaldþrota og ég vil í því sambandi vekja athygli á að ég hef varpað þeirri spurningu fram í þeirri nefnd sem fjallar um virðisaukaskatt hver sé ábyrgur fyrir virðisaukaskattinum þegar afurðasölufyrirtæki fer á höfuðið, bóndinn eða sláturleyfishafinn. Ég get ekki betur heyrt á starfsmönnum fjmrn. en þeir vilji gera bóndann ábyrgan fyrir virðisaukaskatti sem hann hafi aldrei fengið greiddan þannig að mér er auðvitað fullkomlega ljós alvara þessa máls, enda þingmaður Eyfirðinga.