Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Eggert Haukdal:
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Agli Jónssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Kjarni þessa máls er að það er ekki staðið við lög og í stað þess að viðurkenna það og reyna að bæta úr, þá fer stjórnarliðið aðrar leiðir. Það er vakin upp umræða um vonda sjálfstæðismenn sem vilji fara að flytja inn búvörur. Það er reynt að dreifa umræðunni og fara út í allt aðra sálma. Sjálfstfl. hefur ekki samþykkt að flytja inn búvörur. Menn úr öllum flokkum hafa komið fram og talað um slíka hluti, en Sjálfstfl. hefur ekki, og ég held enginn flokkur, ákveðið að flytja þær inn og verður vonandi langt í það. Engin tillaga liggur fyrir um slíkt.
    En meginmálið hjá stjórnarliðum í þessu máli er að drepa málinu á dreif í stað þess að ganga til verks og standa við búvörulög. Og það er ekki málið að koma því eingöngu á bankana. Það er ríkisstjórn á landinu, landbrh. og það á að ganga til þess að standa við lögin svo að bændurnir fái það greitt sem þeim ber. Það er kjarni málsins.