Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Það er nú bagi að ekki skuli gefast aðeins meiri tími til að ræða þetta mál efnislega. Ég á þó ekki við að halda áfram þeim eldhúsdegi sem hér er upphafinn af ýmissa hálfu heldur reyna að greina kjarna þessa máls því það er greinilegt að hér gætir talsverðs misskilnings. Hér ganga margir hv. alþm. í pontu og tala um lögbrot og brot á samningum. Hvort tveggja er rangt. Það er alveg ljóst að ákvæði búvörulaganna eru skýr hvað þetta snertir. Þar segir einungis í 29. gr., 1. tölul. að Framleiðsluráð skuli setja nánari reglur um greiðslurnar, að frumgreiðsla skuli fara fram 15. okt. og fullnaðaruppgjör 15. des. Það er ekki stafkrókur í búvörusamningi um það með hvaða hætti afurðaverð skuli greiðast á hverju hausti. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því að greitt sé fullt verð í samræmi við ákvæði laganna en þau hlutföll sem hér er um að ræða og þær dagsetningar eru eins og ég hef gert grein fyrir. Þar af leiðandi hafa ekki átt sér stað lögbrot, þar af leiðandi hefur hér ekki verið rofinn búvörusamningur. Það sem hefur gerst er það að Framleiðsluráð hefur með ákvörðun sinni breytt þeim reglum sem áður voru í gildi. Til þess hefur Framleiðsluráð rétt, það ber Framleiðsluráði að gera lögum samkvæmt. Hér hefur þar af leiðandi verið farið að lögum í einu og öllu. Hitt er rétt að reglunum hefur verið breytt til óhagræðis, má segja, fyrir bændur. En á það ber að líta og það kom ég inn á í fyrri ræðu minni að það hefur ekki tekist að framfylgja þeim reglum undanfarin haust sem Framleiðsluráð hefur sett. Það má segja að Framleiðsluráð hafi undanfarin haust lokað augunum fyrir því að það voru ekki forsendur til þess fyrir sláturleyfishafa afurðastöðva að standa við ákvæði sem Framleiðsluráð setti. Það hefur hins vegar Framleiðsluráð ekki gert nú, heldur opnað augun fyrir því að sláturleyfishöfunum er ekki kleift á grundvelli fjárhagsstöðu sinnar og þeirra afurðalána sem bankarnir hafa ákveðið að veita þeim í upphafi sláturtíðar, þeim er ekki kleift að greiða 75% hlutfall. Það er það sem Framleiðsluráð hefur með ákvörðun sinni viðurkennt. Það er auðvitað slæmt að það skuli ekki hafa tekist með samvinnu stjórnvalda og bankakerfisins að tryggja hærri fjármögnun strax í upphafi sláturtíðar, en það er staðreynd og Framleiðsluráð hefur með ákvörðun sinni viðurkennt þá staðreynd í verki. Menn verða að horfa framan í veruleikann eins og hann er, það þýðir ekki annað. Og stóryrði hv. þm. hér um frammistöðu mína breyta ekki veruleikanum, hann er eins og hann er því miður, hv. þm. Sjálfstfl.
    Ég læt mér svo í léttu rúmi liggja, virðulegi forseti, aðrar smekklegar aðdróttanir sem hér komu fram, til að mynda frá hv. þm. Pálma Jónssyni. Það breytir ekki alvöru þessa máls. Menn geta haft sínar skoðanir á frammistöðu minni og verkum mínum og ég verð að segja alveg eins og er að ég læt mér það í mjög

léttu rúmi liggja þegar þær eru ekki rökstuddari en raun ber vitni hjá hv. þm. Það alvarlega í þessu máli er hins vegar það að staða þeirra aðila sem hér um ræðir, kaupfélaganna, afurðastöðvanna, sláturleyfishafanna, er mjög erfið og fjármögnun viðskiptabankanna, sem er að þeirra sögn eins mikil og þeir treysta sér til að framkvæma á þessu stigi málsins, leyfir ekki hærra útborgunarhlutfall en þetta í upphafi sláturtíðar. Vonandi tekst að breyta því á næstu vikum og fá það hækkað og ég vil gefa þá yfirlýsingu hér að að sjálfsögðu verður staðið við ákvæði laganna um fullnaðaruppgjör fyrir 15. des. Það verður gert.