Kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Flm. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Hér er fram haldið umræðu um till. til þál. um kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum. Eftir að ég mælti fyrir tillögunni hafa nokkrir hv. þm. tekið hér til máls. Ég hef skilið málflutning þeirra, flestra a.m.k., þannig að þeir taki undir efni tillögunnar og nauðsyn þess að á málum sé tekið í þá veru sem þar er gerð tillaga um. Sérstaklega þakka ég eindreginn stuðning sem fram kom hér frá hv. 3. þm. Norðurl. e. við þetta mál, en hann er þm. Alþfl., sama þingflokks og hæstv. utanrrh. er úr, og skiptir vissulega máli að fá stuðning úr þeim röðum við þessum tillöguflutningi og það sama tel ég að hafi raunar komið fram hjá hv. 9. þm. Reykn., Karli Steinari Guðnasyni. Þetta vekur vissulega vonir um það að tillagan fái þann framgang sem við flm. gerum okkur vonir um og að á málinu verði tekið í þá veru sem tillagan gerir ráð fyrir.
    Hv. 12. þm. Reykv. vakti hér athygli á hinum alvarlega mengunarþætti sem fylgir umferð kjarnorkuknúinna skipa og hversu háskalegt það er að slík umferð haldi áfram, en hv. þm. Kristín Einarsdóttir er ein af tillögumönnum og kom stuðningur hennar ekki á óvart við þetta mál.
    Það kom sitthvað fram í máli hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar sem ástæða væri til að fjalla nokkuð um og svipaðar áherslur komu fram í máli hv. 1. þm. Suðurl. varðandi hlut Atlantshafsbandalagsins í þeirri ánægjulegu þróun varðandi afvopnun sem hefur verið að gerast síðustu árin. Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við þessa hv. þm. um eðli þeirrar þróunar. Aðalatriðið er að sjálfsögðu það að hún hefur átt sér stað á mörgum sviðum afvopnunarmála, en því miður ekki að því er snertir hernaðarumsvif í höfunum. Það er áhyggjuefni. Ef við færum að líta til sögunnar, þá gætu menn t.d. staldrað við þegar fulltrúar risaveldanna funduðu hér í Reykjavík 1986 um haustið og mat manna á þeirri stöðu sem upp kom á þeim fundi, þær hindranir sem voru í vegi fyrir því að tekið væri á afvopnunarmálunum. Ég held að það sé mjög vafasamt að setja málin fram með þeim hætti sem hv. þm. Sjálfstfl. hafa tilhneigingu til, að ætla að þakka Atlantshafsbandalaginu það ferli sem orðið hefur á undanförnum árum í sambandi við afvopnunarmál, ekki aðeins vafasamt heldur beinlínis rangt, því að í mörgum greinum hefur Atlantshafsbandalagið því miður tregðast við að taka undir tillögur gagnaðilans í afvopnunarmálum og þetta á alveg sérstaklega við varðandi vígbúnað á höfunum. Um ástæðurnar fyrir því að Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið hafa ekki tekið undir hugmyndir þar að lútandi kann menn að greina á og ég ætla ekki að fara að fjalla um það hér þó að umræðuefnið gæti verið þarft.
    Ég vil hins vegar alveg sérstaklega andmæla því sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni í mati hans á herstöðvunum hér á Íslandi. Það getur vel verið að mönnum henti það að reyna að halda því fram að herstöðvarnar á Íslandi sem við höfum búið

við síðan 1951 séu ekki herstöðvar. Það var í rauninni það sem hv. þm. var að segja. Þetta hafi verið meinlausar eftirlitsstöðvar sem ekki verðskulda nafnið herstöðvar. Hér hafi ekki verið neinn sá búnaður, sagði hv. þm., sem réttlæti það að tala um herstöðvar, hér séu ekki kjarnorkuvopn o.s.frv.
    Ástæðan fyrir því að hv. þm. tekur svo til orða nú, á árinu 1989, og svipaðar áherslur komu fram í máli formanns Sjálfstfl. hér áðan, er auðvitað sú hugsun hjá þessum hv. þingmönnum að hér eigi engu að breyta í sambandi við herbúnað í landinu og stöðu þessara herstöðva. Það er það sem maður les út úr þessu máli þeirra. Það er hið alvarlega við þennan málflutning. Öllum sem eitthvað fylgjast með þessum málum er auðvitað ljóst að eðli herstöðvanna hér á Íslandi hefur tekið breytingum í tímans rás. Þær hafa orðið þýðingarmeiri hlekkur í hernaðarkerfi Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins á síðasta áratug, svo að aðeins sé litið til þess tíma, m.a. eftir að forusta Bandaríkjanna, Lehman, hermálaráðherra Bandaríkjanna, beitti sér fyrir nýrri stefnu varðandi flotaumsvif Bandaríkjanna, svokallaðri ,,norðurstefnu``. Í tengslum við hana hefur farið fram sú stórfellda uppbygging herstöðva hérlendis, endurnýjun á búnaði og nýr búnaður upp settur sem hernaðarratsjárstöðvarnar eru þáttur í og allt stjórnkerfið sem þeim tengist. Þetta er liður í þessari nýju stefnu sem er viðurkennd af öllum aðilum sem um þetta ræða og Lehman ráðherra fór ekkert dult með þegar hann var yfirheyrður í hermálanefnd Bandaríkjaþings á sínum tíma varðandi þessi efni. Það hefur því miður ekkert breyst í þessum efnum þrátt fyrir slökun núna undanfarin ár, og aðmírállinn í Keflavík hafði það mat uppi sl. vor að slökun í Evrópu, fækkun í herliði í Evrópu, kallaði aðeins á aukin umsvif og aukinn vígbúnað á Íslandi.
    Við erum hér á stórfelldu hættusvæði vegna þessara hernaðarumsvifa, bæði vistfræðilega og einnig hernaðarlega. Þess vegna er það satt að segja afar leitt að heyra málflutning í þá veru sem uppi er hafður hér í mati á þessum efnum og kemur fram í dagblöðum, eins og t.d. í Morgunblaðinu, sem vitnað er til í gær í Alþýðublaðinu þann 18. okt., þar sem Björn Bjarnason ritstjóri eða aðstoðarritstjóri setur fram það álit að ekki sé tímabært að ræða um afvopnun
í og á höfunum með þessum orðum, með leyfi virðulegs forseta, þar sem Björn Bjarnason segir: ,,Mér finnst að það eigi fyrst að ná árangri á þeim sviðum sem nú er verið að ræða saman um, að leysa þau mál fyrst. Síðan má fara í önnur mál á eftir og sjá til hvernig þróunin verður.``
    Þetta er slæmur málflutningur og það hlýtur að hryggja okkur að heyra slíkt haft uppi af aðilum sem vilja láta taka sig alvarlega og hafa veruleg áhrif, bæði í fjölmiðlum og í stjórnmálalífi í landinu.
    En allt um þetta. Þrátt fyrir þessi sjónarmið liggur það þó fyrir að málflutningur okkar sem erum að krefjast aðgerða og frumkvæðis af Íslands hálfu í þessum efnum, einnig varðandi hernaðinn á höfunum og nauðsyn afvopnunar þar, hefur þegar haft áhrif og

hann á væntanlega eftir að hafa aukin áhrif. Ég tel það góðra gjalda vert að íslenskir þingmenn, hvar sem er, á hvaða vettvangi sem er, ýti á eftir um þessi efni. Það er ekki ágreiningsatriði af minni hálfu hvar slíkt fer fram. Það á að gera hvarvetna þar sem við fáum því við komið. En varðandi framhaldið, varðandi stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og í þessu samhengi sem við ræðum það hér á markmiðið að vera að losna við erlendar herstöðvar á íslenskri grund, losa okkur út úr hernaðarnetinu. Og við skulum í því sambandi hafa það í huga að Bandaríkin hafa ætlað sér, og reka það í raun sem sína opinberu stefnu, að halda Íslandi inni í sínu hernaðarneti, sem hluta af því hernaðarkerfi sem þau kalla varnarkerfi meginlands Norður-Ameríku og Bandaríkjanna sérstaklega. Fjárveitingar til hernaðaruppbyggingar á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum eru færðar undir heitinu CONUS, Continental US, í fjárlagagerð Bandaríkjaþings. Það með öðru sýnir inni í hvaða samhengi þar er verið að vinna. Þetta skulum við alþingismenn hér íhuga. Ég trúi því ekki að það séu margir sem í raun vilja sjá það sem örlög Íslands að verða varanlegur hlekkur í hernaðarneti Bandaríkjanna og að þeir í raun setji sína víglínu út frá sínum sjónarmiðum á Ísland, Grænland og Færeyjar, dragi hana um Norður-Atlantshafið og þar breyti engu um þótt slökun verði annars staðar í heiminum. Þetta atriði tel ég ástæðu til að við hugleiðum sérstaklega.
    Að öðru leyti, virðulegur forseti, þakka ég góðar undirtektir hér við tillögu þá sem hér er rædd og ég treysti því að hún leiði til aðgerða, til frumkvæðis af hálfu íslenskra stjórnvalda, og einnig að tekið verði á þeirri vá sem við blasir hvern dag á meðan umferð kjarnorkuknúinna skipa og kafbáta á sér stað í grennd við land okkar.