Kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Þó að hæstv. forseti hafi kynnt mig hér sem formann utanrmn. í framhaldi af þeirri beiðni hv. þm. Inga Björns Albertssonar að fá umræðu frestað þangað til hæstv. utanrrh. væri til staðar vænti ég þess að vera mín hér í þessum ræðustól fullnægi ekki óskum hv. þm. Ég get svo sem tekið undir það að við slíka almenna umræðu um afvopnun og hernaðarmál á breiðum vettvangi væri auðvitað mjög æskilegt að utanrrh. eða staðgengill hans væri hér til staðar.
    Ég ætla aðeins að leggja nokkur orð í belg bæði vegna áhuga míns á þessum málum og þess starfs sem ég hef þurft að taka þátt í bæði innan lands og erlendis varðandi slík mál.
    Ég vil byrja á því að taka það skýrt fram að í meginatriðum er ég sammála þessari þáltill. eins og hún er lögð fram. Ég fæ að vísu tækifæri til þess að ræða hana betur í utanrmn. þegar hún kemur þangað til umræðu. En ég tel að slíkt frumkvæði okkar Íslendinga, innan lands sem erlendis, sé auðvitað mjög brýnt af þeim ástæðum sem þegar hafa verið raktar hér af mörgum fyrri ræðumönnum, ekki síst vegna þeirrar hættu sem við teljum vera --- ekki teljum vera, sem er --- vegna þeirra slysa sem hafa orðið og geta orðið og hafa veruleg áhrif á möguleika okkar til að lifa tryggu og góðu lífi á þessu eylandi okkar og vegna áhrifa á efnahagslíf okkar.
    Ég er, eins og fleiri sem hér hafa talað fyrr í morgun, aðili að Þingmannasamtökum Atlantshafsbandalagsríkjanna og ég vil taka það skýrt fram að á þeim árum sem ég hef starfað þar hefur orðið veruleg breyting á umræðunni á þeim vettvangi, ekki síst með tilliti til traustvekjandi aðgerða og afvopnunar á höfunum. Við höfum reynt það öll sem þar höfum setið að þrýsta á þau mál og fá málefni hafsins, vistfræðinnar og kjarnorkuslysahættunnar tekin upp í þá umræðu. Við höfum reynt að fylgja þar eftir þeirri stefnumörkun sem gerð hefur verið af okkar utanríkisráðherrum, allt frá því að Geir Hallgrímsson minntist á þetta fyrst á Stokkhólmsráðstefnunni þegar hann tók þetta mál upp og ég held að allir utanríkisráðherrar okkar síðan hafi reynt að fylgja þessu máli nokkuð eftir.
    Fyrir tveimur árum, þegar ég tók aftur sæti í þessum þingmannasamtökum, tók ég sæti í svokallaðri stjórnmálanefnd þeirra samtaka og byrjaði þá þegar að vekja máls á þessum atriðum og ég verð að segja að á þeim tíma sem liðinn er síðan hefur orðið veruleg viðhorfsbreyting hjá meðlimum þeirrar hv. nefndar.
    Á þingi samtakanna í Hamborg fyrir liðlega ári var ákveðið að skipa sérstaka undirnefnd stjórnmálanefndarinnar sem tæki sérstaklega til meðferðar traustvekjandi aðgerðir og afvopnun í höfunum. Það er auðvitað mikilsvert að við reynum að ná samkomulagi innan þeirra samtaka sem við tökum þátt í, þ.e. Atlantshafsbandalagsins, áður en viðræður hefjast opinberlega við Varsjárbandalagið og fulltrúa þeirra ríkja. Á þeim fundum sem haldnir hafa

verið í Vínarborg hefur verið mikið rætt um þessi mál en ég held að almenn skoðun á þeim vettvangi sé sú að það beri að ljúka fyrst þeim viðræðum sem þegar eru hafnar um afvopnun á grundvelli hefðbundinna vopna og lang- og skammdrægra eldflauga, bæði með og án kjarnorkuodda.
    Við erum held ég orðin sammála um það, a.m.k. í þessari undirnefnd sem ég starfa í, og reyndar í stjórnmálanefndinni allri, enda voru tillögur undirnefndarinnar samþykktar samhljóða á þinginu núna í haust í Rómaborg, að til þess að við séum reiðubúin að taka fullan og traustan þátt í þeim viðræðum við Varsjárbandalagið og milli stórveldanna þegar Vínarviðræðurnar eru lengra komnar og jafnvel lokið sé nauðsynlegt að við séum þegar búin að hefja viðræður innan okkar hóps og ná samkomulagi þar. Í þeim tillögum sem samþykktar voru núna á þinginu er m.a. ákveðið að undirnefndin óski eftir áliti hverrar þjóðar innan Atlantshafsbandalagsins, þeirra 16 ríkja, með því að skrifa til fyrirliða eða foringja sendinefnda hvers ríkis sem situr Vínarráðstefnuna og fá það sem við höfum kallað ,,national paper`` eða þjóðarálit eða sendinefndarálit þeirra á traustvekjandi aðgerðum og afvopnun í höfunum. Það vill nú svo til að ég er skrifari þessarar nefndar og sé þar af leiðandi um þessar bréfaskriftir. Þetta bréf er u.þ.b. að fara núna til þessara aðila og það hefur komið líka til tals í okkar hópi að óska jafnframt eftir áliti hlutlausra ríkja og stærstu ríkja Varsjárbandalagsins á þessum vettvangi.
    Ég tel að þetta sé mjög brýnt og það er stefnt að því í nefndinni hjá okkur að reyna að ljúka störfum, helst fyrir næsta vorfund eða alla vega fyrir haustfundinn að ári. Ég vona að þetta takist því að þetta mál er náttúrlega mjög brýnt, ekki síst fyrir okkur Íslendinga, og ég vil taka það fram hér að ég hef haft mjög náið og gott samstarf við þingmenn frá Danmörku og Noregi þegar við höfum verið að semja þessar tillögur.
    Vegna þess að það kom fram hér áðan að ekki væri einhugur og sérstaklega að Bandaríkjamenn höfðu lagst gegn ýmsum hugmyndum á þessum vettvangi, þá er rétt að það komi hér fram að bandarískir þingmenn sem tóku þátt í starfi þessarar
undirnefndar --- það er bandarískur þingmaður, Larry Smith, frá Florida sem er formaður þeirrar undirnefndar, og reyndar fleiri sem tóku ítarlegan þátt í þessu --- þeir og reyndar allir bandarísku þingmennirnir samþykktu þessar tillögur stjórnmálanefndarinnar þegar þær lágu fyrir sameinuðu þingi þeirra samtaka í Rómaborg, eins og fyrri ræðumaður kallaði það, í byrjun þessa mánaðar.
    Það er mjög brýnt að Íslendingar noti alla aðstöðu, bæði innan lands og erlendis, til þess að hafa frumkvæði og vekja máls á þeim geigvænlegu hlutum sem gætu gerst. Ég held að við höfum lagt okkar þar af mörkum og ég vona að það beri tilætlaðan árangur þegar fram í sækir. Ég er sannfærður um það að mikilvægi eftirlits- og varnarstöðvarinnar hér á Keflavíkurflugvelli á eftir að aukast mjög mikið þegar

komið verður að því að það verður gert samkomulag um traustvekjandi aðgerðir og afvopnun í höfunum. Enda bendir allt til þess sem þegar hefur verið gert, eins og t.d. það samkomulag sem gert hefur verið á milli Varsjárbandalagsríkjanna og NATO-ríkjanna, um að senda eftirlitsaðila til þess að fylgjast með heræfingum hjá hinum, sem ég held að hafi valdið því að dregið hafi mjög verulega úr, ef ég má nota orðið, misskilningi eða slysum við slíkar æfingar.
    Ég vil svo ítreka það að ég fæ tækifæri til að ræða um orðalag þessarar till., ég tel að hún sé að meginefni góð og mun styðja framgang hennar. Það er mikið verk að undirbúa slíka alþjóðlega ráðstefnu, hana þarf að undirbúa mjög vel og ef við ætlum að stefna að því að geta gert það t.d. á næsta ári, þá verður örugglega að veita nokkru fjármagni til þess við gerð fjárlaga næsta árs. Því að slík ráðstefna er ekki bara hrist fram úr erminni eins og maður sér á þeim tölum sem maður hefur heyrt t.d. af kostnaði við leiðtogafundinn sem hér var haldinn 1986 og reyndar líka við heimsókn páfa. Bara slíkir fundir kosta stórfé. En ég styð að við reynum að stefna að slíkri ráðstefnu.
    Til mín var beint fyrirspurn um viðhorf mitt til varaflugvallarins og ég get svarað því í mjög stuttu og ég vona skýru máli. Ég tel að af tvennum ástæðum sé varaflugvöllur mjög brýnn hér á landi. Hann er í fyrsta lagi mjög brýnn vegna þess flugs sem við stundum sjálf, vegna farþega- og vöruflutninga milli landa og mér er sagt af fróðum mönnum að eftir að sú ákvörðun var tekin af Flugleiðum að kaupa þessar nýju flugvélar sem eiga að fljúga yfir Atlantshafið þá sé varaflugvöllur hér á landi brýn nauðsyn. Reyndir flugstjórar hjá Flugleiðum hafa sagt mér það að við misjöfn veðurskilyrði með fulla flugvél af farþegum og fragt, þá verði þeir að taka nánast ákvörðun strax þegar þeir fara frá New York hvort þeir ætla að lenda hér á Keflavíkurflugvelli eða reyna það eða fara beint til Evrópu.
    Í öðru lagi er það náttúrlega mjög brýnt á meðan varnarstöðin er rekin hér frá Keflavíkurflugvelli og það eftirlit er framkvæmt þaðan eins og gert er í dag að þá sé varaflugvöllur staðsettur við önnur veðurskilyrði en eru á Keflavíkurflugvelli og þar í nágrenni. Ég tel að það sé verkefni utanrrh. að heimila það hvort hér fari fram sú forkönnun á varaflugvelli eða ekki. Það er hans verkefni og ég held að forustumenn míns flokks hafi líka lýst því yfir og það sé því bara um það að ræða að hann taki ákvörðun um heimild eða ekki heimild til þess. Það er ekki verkefni ríkisstjórnarinnar, það er verkefni utanrrh. að taka slíka ákvörðun.