Verndun vatnsbóla
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Flm. (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 20 um skipulag til verndunar vatnsbóla. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Páll Pétursson, Hjörleifur Guttormsson, Árni Gunnarsson, Guðmundur Ágústsson og Salome Þorkelsdóttir.
    Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir að umhverfi allra byggðakjarna á landinu verði rannsakað og skipulagt með tilliti til nýtingar og verndunar grunnvatns.
    Á skipulagsuppdráttum þéttbýlisstaða verði sýnd fyrirhuguð þróun byggðar, friðlýst svæði og önnur landnotkun.
    Jafnframt verði gerð kort af jarðfræði og grunnvatnskerfum á viðkomandi svæðum með tilliti til vatnsbóla.``
    Almennt hefur verið talið að gnægð sé af góðu vatni hvarvetna á landinu og hafa Íslendingar löngum hælt sér af því að eiga besta vatn í heimi. Sagt er að hér sé hægt að drekka vatn úti í náttúrunni úr lækjum og vötnum og að vatnið í vatnskrönum heimahúsa sé alls staðar drykkjarhæft. Þótt þetta sé sannmæli um marga staði á það því miður ekki við um alla. Sú skoðun hefur verið ríkjandi að hér sé svo mikið af vatni að ekki þurfi neinnar sérstakrar vatnsverndar við. ,,Minni háttar`` mengun sé ekkert vandamál, hún hreinsist af sjálfu sér eða það megi þá taka vatn annars staðar. En það er að sjálfsögðu engin lausn að sækja bara neysluvatn í næsta brunn en taka ekki á vandamálinu.
    Nýlegt dæmi um mengunarmál sem kom upp á yfirborðið var mengun vatnsbóla á Suðurnesjum. Það er að vísu nokkuð síðan Suðurnesjamenn gerðu sér grein fyrir að hætta á mengun vatnsbóla væri fyrir hendi vegna starfsemi herliðsins á Keflavíkurflugvelli. Árið 1975 var gerð skýrsla þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að vegna mengunarhættu frá Keflavíkurflugvelli sé ástæða til að óttast mengun vatnsbólanna og því beri að leita nýrra. Nú hafa Suðurnesjamenn fengið nýja vatnsveitu og telja þeir sig um alla framtíð, eins og þeir orða það, vera öruggir um að ferskvatn þeirra sé hið besta sem völ er á. Vonandi verður sú raunin en það má ekki gleymast að hætta á mengun grunnvatns er alltaf fyrir hendi.
    Efni berast með vatni frá yfirborði niður í grunnvatn og geta flust með því langar leiðir eftir sprungum og glufum í berginu. Efni sem komist hafa í jarðveg geta eftir fjölda ára borist í vatnsból þéttbýlisstaða. Kalt grunnvatn hér á landi er talið vera nokkurra ára gamalt upp í nokkurra áratuga gamalt. Þannig getur t.d. olía sem hellst hefur niður í jarðveg komist í grunnvatn eftir tugi ára. Eitt mengunarslys getur haft alvarlegar afleiðingar um ókomna framtíð fyrir ferskvatnsöflunina.
    En það er ekki bara á Suðurnesjum sem neysluvatn er í hættu eða er mengað. Sums staðar er neysluvatn jafnvel svo mengað að talið hefur verið varhugavert

að nota það óhreinsað. Nær alls staðar á landinu nota atvinnufyrirtæki, t.d. í fiskiðnaði, vatn frá almenningsveitum. Þar er um viðkvæman og mikilvægan matvælaiðnað að ræða sem vart má við hugsanlegum skakkaföllum vegna mengunar. Það er því ástæða til að fara mjög varlega í þessum efnum.
    Meðal þess, sem veldur mengun, má telja ýmiss konar atvinnurekstur, mannvirkjagerð, efnistöku, ruslahauga og urðun sorps. Umferð vélknúinna farartækja, útivist og sumarbústaðir geta einnig valdið mengun, einkum þar sem ekki er gert ráð fyrir nauðsynlegri hreinlætisaðstöðu og eyðingu úrgangs og annarra mengandi efna.
    Frágangi vatnsbóla er víða ábótavant þótt breyting hafi orðið til hins betra á því sviði hin seinni ár, einkum hjá nýlegum vatnsveitum. Einkum eru brögð að því að ekki sé nógu vel komið í veg fyrir írennsli yfirborðsvatns og að skepnum sé ekki haldið nógu langt frá með girðingum.
    Eitt af vandamálunum, sem fylgja þéttri byggð, er losun sorps og eyðing þess. Eiturefnum og ýmsum hættulegum efnum hefur verið fleygt út í náttúruna án þess að hugsað væri um afleiðingarnar. Þar er ekki síst mikilvægt að taka tillit til þeirra staða sem kunna að verða nýttir til vatnsöflunar síðar.
    Nú sjá heilbrigðisfulltrúar á hverjum stað um að fylgjast með gæðum neysluvatns. Oftast er þar eingöngu um mælingu á gerlamagni í vatninu að ræða. Minna er um reglulegar mælingar á annarri mengun af völdum ólífrænna eða lífrænna efna. Mengun af völdum slíkra efna getur haft mjög skaðlegar afleiðingar fyrir menn og skepnur ekki síður en gerlamengun. Nauðsynlegt er því að setja staðla um mengandi efni í neysluvatni og gera á því reglulegar mælingar. Til þess þarf að gera úttekt á vatnstökusvæðum og aðrennslissvæðum þeirra. Jafnframt þarf að endurskoða löggjöf um vatnsréttindi, vatnstöku og vatnsvernd og samræma hana kröfum tímans.
    Tillaga þessi var flutt á 111. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Þá fékk allsherjarnefnd tillöguna til meðferðar og leitaði umsagnar allmargra aðila. M.a. var leitað umsagnar skipulagsstjórnar ríkisins og tók hún einmitt á þessu síðasta sem ég nefndi sem var að það þyrfti að endurskoða löggjöf um vatnsréttindi og vatnstöku og samræma hana kröfum tímans. Í umsögn
skipulagsstjórnar ríkisins segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Samvinnunefnd um skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu lagði til að vatnalögin sem eru frá 1923 yrðu tekin til endurskoðunar og skipaði ráðherra þá Sigurð Jóhannsson vegamálastjóra og Hallgrím Dalberg til að endurskoða lögin að því er snertir vatnsréttindi, vatnstöku og vatnsvernd. Skiluðu þeir frv. sínu til félmrh. en þar strandaði það. Skipulagsstjórn ríkisins vill benda á að full ástæða er til að endurskoða vatnalögin.
    Varðandi könnun vatnsbóla víða um land hefur skipulag ríkisins í samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórnir fengið jarðfræðing til ráðuneytis um

hvar helst sé ráðlegt að bora eftir neysluvatni.`` --- Þetta er orðrétt upp úr umsögn skipulagsstjórnar ríkisins.
    Síðar segja þeir: ,,Skipulagsstjórn leggur áherslu á að við gerð þeirra svæðisskipulaga sem fram undan eru verði vatnsverndarmálum gerð ítarleg skil. Skipulagsstjórn telur eðlilegt að gert verði allsherjarátak í samráði við Hollustuvernd ríkisins, Náttúruverndarráð, Orkustofnun og hlutaðeigandi sveitarfélög á þessu sviði.``
    Þarna tekur skipulagsstjórn ríkisins undir það sem þessi till. fjallar um og mælir þar af leiðandi með samþykkt till. og bendir á það sem er örugglega mjög brýnt og reyndar er tekið fram í grg. með þessari till., að endurskoða þurfi vatnalögin frá 1923.
    Náttúruverndarráð fékk einnig þessa till. til umfjöllunar og tók undir till. en taldi reyndar að það þyrfti að ganga miklu lengra, það ætti að taka enn fleiri þætti inn í en gert er ráð fyrir í till., eins og t.d. laus jarðefni og efnisnámur. Ég tek undir það og þó að þessi till. fjalli eingöngu um vatnsból og ég telji rétt að halda mig við það á þessu stigi málsins þá þarf sjálfsagt að kanna þetta að því er varðar fleiri þætti.
    Í umsögn Náttúruverndarráðs stendur, með leyfi forseta: ,,Það skal áréttað að á síðustu árum hafa áhrif ýmiss konar starfsemi á umhverfi okkar hér á landi aukist mjög, eins og t.d. frárennsli frá iðnaði og fiskeldi. Ljóst er að skipuleggja þarf þessa starfsemi þannig að landið nýtist sem best og náttúrulegum auðlindum þess sé ekki spillt að óþörfu. Þess vegna þurfa sveitarfélög, bæði í þéttbýli og dreifbýli, að gera sér grein fyrir því hvernig þau hyggjast nýta sér lönd sín til frambúðar. Slíkt er best gert með svæðisskipulagi í kjölfar þeirrar undirbúningsvinnu sem nauðsynleg er.``
    Í lok umsagnarinnar segir síðan Náttúruverndarráð: ,,Loks vill Náttúruverndarráð benda á að enginn sérstakur aðili fer með eftirlit með því að grunnvatn sé ekki mengað.``
    Þeir benda því á að fyllsta ástæða sé til að taka á þessu máli. Samband ísl. sveitarfélaga mælir einnig með samþykkt tillögunnar. Orkustofnun fékk þessa till. einnig til meðferðar og benti á í sinni umsögn að vatnsöflunin sé verkefni sveitarfélaganna, ekki ríkisins. Það er vissulega rétt og hefur ekki verið ætlunin með þessari till. að breyta þeirri verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem hefur verið gildandi, bæði fyrir og eftir frv. um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem tekur gildi nú um áramótin þar sem vatnsöflun hefur verið á verksviði sveitarfélaganna, að vísu með möguleikum á styrk frá ríkissjóði. Því verður breytt nú frá og með áramótum en hins vegar er gert ráð fyrir því að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga geti komið til aðstoðar sveitarfélögum við vatnsöflun. En það kemur ekki þessari tillögu við þar sem hún gerir ráð fyrir því að þarna verði um samvinnu að ræða milli ákveðinna aðila með frumkvæði ríkisstjórnarinnar, að hún beiti sér fyrir því að þarna verði komið á samvinnu en ekki að nein breyting

verði gerð á þeirri verkaskiptingu sem nú er og hefur verið um vatnsöflun á landinu. En það má líka benda á að vatnsöflun er ekki eingöngu í höndum sveitarfélaga, það eru margir einstaklingar og einstakir aðilar sem einnig sjá um vatnsöflun fyrir sín fyrirtæki.
    En til þess að gera skipulagsuppdrætti af því tagi sem hér er gert ráð fyrir þarf að kortleggja jarðlög undir yfirborði ekki síður en landið ofan jarðar. Gerð jarðlaga, halli, sprungur, gangar og fleira skipta verulegu máli þegar meta á landssvæði með tilliti til nýtingar.
    Till. þessi felur í sér að skipulega verði aflað þekkingar á náttúruauðlindum ferskvatns og mótuð stefna um nýtingu hennar og vernd. Markmiðið er að tryggja verndun grunnvatnskerfa fyrir mengun svo þau geti gefið af sér gott neysluvatn fyrir vaxandi byggð. Jafnframt þarf að leiða í ljós hvert ástand vatnsbóla er um allt land og ráða bót á því þar sem þess er talin þörf.
    Verkefni eins og það sem hér um ræðir fellur eðlilega undir starfssvið umhverfisráðuneytis þegar loks kemur að því að slíkt ráðuneyti verður sett á fót.
    Að lokinni umræðu legg ég til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og allshn.